0708. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Sérgreinin mín: Komst í gegnum nálaraugað
Bráðalækningar
Hvernig valdirðu sérgrein þína? Hvar lærðir þú og hvaða ráð viltu gefa ungum læknum?
Ég hóf nám í læknisfræði haustið 1978 og var þá ekki, frekar en gerist og gengur, viss um hvert leiðin kynni að liggja þegar kæmi að sérhæfingu. Eitt af því sem hafði kveikt áhuga minn á hlutverki læknisins var reynslan af að starfa í björgunarsveit og sannarlega langaði mig að kunna að bregðast rétt við í hinum ýmsu tilfellum.
Þær hugrenningar voru þó ekki bundnar við bráð vandamál og hvergi voru bráðalækningar þá orðnar að formlegri sérgrein. Meðal annars hafði hvarflað að mér að gerast heimilislæknir eins og afi minn, Stefán Guðnason, hafði gert tæplega hálfri öld áður en fleira gat hæglega komið til greina.
Fljótlega tóku örlögin í taumana og beindu huganum að því sem átti fyrir mér að liggja. Bráðaþjónusta steig á þessum árum gagnleg skref á þroskabrautinni hér á landi, bráðamóttökustarfsemi sjúkrahúsa efldist, þótt hægt færi, og læknar mönnuðu neyðarbíl á höfuðborgarsvæðinu frá og með haustinu 1981.
Erlendis fréttist af góðum árangri lækna, þar á meðal íslenskra, við bráðaþjónustu með þyrlum. Á námstímanum eignaðist maður góðar fyrirmyndir meðal lækna sem voru lagnir að fást við bráð tilfellli af ýmsum toga. Mér er kært að minnast þeirra allra, en á engan er hallað þótt ég nefni sérstaklega Ólaf Þ. Jónsson, svæfinga- og gjörgæslulækni. Það var svo Guðjón heitinn Magnússon sem vakti athygli mína á því haustið 1983 að í Bandaríkjunum væri emergency medicine orðin viðurkennd sérgrein. Upp frá því var ljóst hvert stefnan yrði tekin eftir kandídatspróf sem ég lauk vorið eftir.
Leiðin til sérfræðináms í bráðalækningum vestra lá í gegnum mörg nálaraugu. Þegar mér hlotnaðist loks staða námslæknis við bráðalækningadeild háskólasjúkrahússins í Cincinnati í Ohio sumarið 1987, reyndist það hinn mesti lukkupottur að detta í. Deildin sú hafði, fyrst allra í heiminum, byrjað að þjálfa lækna í þessari nýju sérgrein árið 1970 og var þegar hér var komið sögu orðin ótrúlega öflug. Sérfræðinámið þar var einstaklega vel skipulagt og til fyrirmyndar haft um öll Bandaríkin. Þarna voru bráðalækningar stundaðar sem fullsköpuð sérgrein undir stöðugri handleiðslu sérfræðilækna sem allir voru með viðurkenningu í greininni.
Námsdvölin renndi stoðum undir það sem hafði heillað mig við þessa sérgrein, áskorunina að fást við fjölbreytt bráð tilfelli sem enginn læknir hafði komið að áður, taka markvissar ákvarðanir og hefja meðferð án minnstu tafar. Þjónustan var skynsamlega afmörkuð eins og vera ber og bráðalæknum ekki ætlað að fylgja sjúklingum eftir til lengri tíma. Góð tækifæri gáfust til að taka þátt í vísindarannsóknum, sem ég nýtti mér. Sérfræðinámið krafðist gríðarlegrar vinnu en hún skilaði öruggri kunnáttu og þekkingu eins og sýndi sig þegar kom að sérfræðiprófum að náminu loknu. Þrátt fyrir vinnuálagið var þetta ánægjulegt og gefandi tímabil, ein af perlunum á ferlinum.
Leiðin lá beint heim að loknu fjögurra ára sérfræðinámi. Við tók erilsamt uppbyggingarstarf á nýrri sérgrein á Íslandi. Síðan er liðið á fjórða tug ára sem einungis hafa gefið tilefni til ánægju yfir valinu á bráðalækningum sem sérgrein. Oft var ég spurður hvað ég hyggðist fyrir þegar líða tæki á starfsævina, þessi vinna væri bara fyrir ungliða í læknastétt.
Til eru ýmsar góðar leiðir til að eldast vel í starfi sem bráðalæknir og um það mætti rita mun lengra mál. Mín persónulega vegferð er kannski svolítið óvenjuleg því á miðjum aldri hafði ég gripið upp viðbótarsérgrein sem ég sýsla nú við á lokametrunum í starfi. Síðustu árin í klínískri vinnu við bráðalækningar voru mín bestu og frá því borði fór ég mjög sáttur við 65 ára aldur. Eins og fleiri kollegar geta vitnað um, er hreint ágætt að vinna fram eftir aldri við bráðalækningar.