0708. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Bókin mín. Ilíonskviða, Afródíta og dægradvöl í Búðardal

Hvaða bækur hafa fylgt þér lengst,
þú hefur lesið oftast eða haft mest áhrif á þig
?

U11-fig-3Gallinn við skáldsögur, einkum glæpasögur, er að þær byggja á persónum sem aldrei hafa verið til og er því erfitt að fá áhuga á þeim enda hallast ég að bókum sem fjalla um meintar sögulegar persónur eða fólk sem gengið er út frá að einhverju leyti að hafi verið til og skal ég greina frá fjórum slíkum í aldursröð en alls ekki stafrófsröð því fyrst kemur Ilíonskviða frá árunum kringum 750 fyrir Krists burð þar sem rauði þráðurinn er reiði Akkillesar út í Agamemnon konung sem stal frá honum stelpu með tómum yfirgangi og ofsa en þegar Akkilles tók að halda að sér höndum gekk Grikkjum ekki neitt í bardögum þar sem þeir voru komnir til að frelsa drottningu Menelásar konungs í Spörtu en hún var fegursta kona í heimi og jafnan nefnd Helena fagra sem París Alexander hafði rænt eftir að Afródíta lofaði honum Helenu fyrir að segja Heru og Aþenu að Afródíta væri fallegri en þær en spurningin hafði vaknað þegar epli var kastað fyrir þær þrjár sem á var letrað „τῇ καλλίστῃ“ eða „hinni fegurstu“ og kallast í dag þrætueplið þannig að Agamemnon fórU11-fig-4 með 1184 skip og um hundrað þúsund menn að hjálpa Menelási bróður sínum að frelsa konuna frá þessum flagara en þetta segir Heródótus að sé hið mesta bull og París og Helena hafi aldrei verið í Tróju því Príamus konungur hefði strax fleygt Helenu í Menelás og sagt að pilla sig og aldrei barist í 10 ár til að fela stelpu sem sonur hans væri skotinn í en þrátt fyrir öll manndrápin fær maður á tilfinninguna að kviðan sé áróður gegn styrjöld og hámarki nær hún með setningunni „ἰητρὸς γὰρ ἀνὴρ πολλῶν ἀντάξιος ἄλλων“ eða „því einn læknir er jafngildi margra manna“ en einnig er minnst á lækna í Njálu og í Íslendingasögum er sá titill oftar hafður um konur enda karlarnir oft drepnir nei það er nú ekki skýringin en lesið hef ég Njálu um 40 sinnum þar sem mér þykir útgáfa ÍF best og af hljóðlesurum Einar Ólafur Sveinsson sem skrifaði margt um Njálu en söguna las maður fyrst nauðugur í menntaskóla hjá kennara sem þótti ekkert gaman að kenna og var eins og gamall stálþráður þegar hann stóð við töfluna og þuldi margt mislíklegt en trúlega var fátt óraunhæfara en brúðhjónin Hildigunnur og Kári í restina því vandfundin tel ég sé kona skapföst og skelegg sem líkleg er til að giftast þeim sem drepið hefur eiginmann hennar en nú víkur sögunni vestur til Breiðafjarðardala því ég lá allt sumarið 1989 á sófa í Búðardal og las Dægradvöl sem er þriðja bókin sem ég hampa og þótti spennandi þegar Gröndal ungur flatmagaði út í móa og skaut fugla með U11-fig-2Hómer sér við hlið sem hann gluggaði í milli fugla en mér fannst ég illa menntaður svo þetta atti mér út í grísku- og latínunám við HÍ en þegar ég ætlaði að bæta við sanskrít fékk ég kvíðakast og svo var Djunki en fjórða bókin er Íslenzkur aðall sem ég átti að gera ritgerð um í ML og las í jólafríinu þegar kom eldgos í Leirhnjúk (það var 20. desember 1975) svo allt fór í handaskolum og lítið vit reyndist í ritgerðinni þótt ég þykist í dag vita hvað ég myndi skrifa um því Þórbergur var skyldur föðurfólki mínu en bænda- og sveitarígur var milli bæja og frændrækni lítil þótt ég geti kinnroðalaust fullyrt að hann skrifi þarna um fólk sem var til og ég fái greiðlega áhuga á svo ef ég ætti að skrifa um fimmtu bókina væri það Svefnhjólið en nú sækir á mig svefn og læt ég staðar numið.

 

Ég skora Sigrúnu Lilju Sigurgeirsdóttur, sérnámslækni á geðdeild Landspítala að skrifa um sínar bækur.Þetta vefsvæði byggir á Eplica