0708. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Sagan af danska dátanum
Saga Læknablaðsins
Þegar þrengdi að Læknablaðinu veturinn 1976 og erfitt var að prenta blaðið hérlendis1 fóru Örn Bjarnason, þá ritstjóri blaðsins, og Jóhannes Tómasson ritstjórnarfulltrúi á fund ritstjórnar danska læknablaðsins, Ugeskrift for Læger. Í gegnum persónuleg tengsl við ritstjóra danska blaðsins, Povl Riis, en einnig Jens Andersen. Handsalað var samkomulag um að Læknablaðið yrði prentað í Kaupmannahöfn á vegum danska læknafélagsins.
Fyrsta blaðið sem prentað var í Kaupmannahöfn var 1. tbl, 66.árgangs blaðsins árið 1980 og hélt áfram allt fram til ársins 1994 er prentun blaðsins fluttist aftur til Íslands með prentun 6. tbl, 80. árgangsins. 2 Við það tækifæri gaf danska ritstjórnin Læknablaðinu, tré-dáta sem félagarnir Örn og Vilhjálmur Rafnsson, þáverandi ritstjóri, komu heim á skrifstofu Læknablaðsins eftir ferð þeirra á fund dönsku ritstjórnarinnar vorið 1994 ásamt Birnu Þórðardóttur, ritstjórnarfulltrúa Læknablaðsins, og Margréti Aðalsteinsdóttur auglýsingastjóra. Við það tækifæri gaf danska ritstjórnin Læknablaðinu, trédáta sem félagarnir Örn og Jóhannes komu heim á skrifstofu blaðsins og er dátinn því merkistákn um „björgun“ Læknablaðsins af dönsku ritstjórninni fyrir tilstilli Arnar.
Povl var mikill Íslandsvinur og ferðaðist mikið um land okkar, jafnvel meira en margir Íslendingar hafa gert. Reyndar komu bæði Jens og Povl til Íslands, en ferðir Povls voru reglulegar og til marks um tengsl hans og vináttu við Ísland átti hann einnig þátt í endurreisn Nesstofu, sem sagan segir að sé honum að þakka. Hann var útnefndur heiðursfélagi Læknafélags Íslands 1978.3 Povl Riis var líflæknir dönsku hirðarinnar og sennilega einn frægasti læknir Dana. Hann var mikill frumkvöðull í að stofna dönsku vísindasiðanefndina.
Hann alþjóðavæddi blaðið og í samvinnu við náinn hóp ritstjóra British Medical Journal (BMJ), Lancet, New England Journal of Medicine og fleiri stofnaði hann The International Committee of Medical Journal Editors í Vancouver með það að markmiði að staðla ritun vísindagreina og heimildalista, þannig að ekki þyrfti að umrita efnið við innsendingu til blaðanna.4
Enn í dag leggur Vancouver-sáttmálinn staðalinn fyrir ritun vísindagreina, siðfræði rannsóknarvinnu og höfundarrétt um allan heim. Povl Riis var einnig í hópi norrænna ritstjóra sem tóku saman Helsinki-sáttmálann (Helsinki II-Deklarationien) 1975. Tengsl Læknablaðsins við ritstjórn danska læknablaðsins er enn gjöfult, sem og tengsl við ritstjórnir norsku, sænsku og finnsku læknablaðanna.
Það er við hæfi að minnast þessa nú þegar Örn Bjarnason fyrrverandi ritstjóri Læknablaðsins er nýfallinn frá og þakka honum enn og aftur fyrir hans óeigingjarna starf í þágu Læknablaðsins. Í þessu blaði birtast einnig minningarorð um Örn eftir Vilhjálm Rafnsson, fyrrverandi ritstjóra Læknablaðsins, og samstarfsmann.
1) Sigurðsson E. Læknablaðið. 2014; 100(6): 352-353 https://doi.org/10.17992/lbl.2014.01.524 PMid:24394792 | ||||
2) Rafnsson V. Læknablaðið: 1994; 80 (6): 218 https://doi.org/10.1016/S0031-9406(10)61300-4 | ||||
3) Læknablaðið. 1979; 65(1): 50-51 https://doi.org/10.1080/00306525.1979.9633532 | ||||
4) Højgaard L. Nekrolog: Povl Riis og Ugeskrift for Læger. Ugeskrift for læger 2017 - júlí 2024 |