0708. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Læknablaðið í 110 ár. Fylgirit og flóttinn á vit Dana

Úr sögu Læknablaðsins

110 árgangar þriðja elsta tímarits landsmanna skannaðir, 1975-1984

Þá er sjöundi áratugur útgáfusögunnar hafinn og heilmikið að gerast. Sá sjötti endaði á því að brot blaðsins var stækkað, en sá sjöundi boðaði enn meiri breytingar.

Í byrjun árs 1976 verða ritstjóraskipti þegar Örn Bjarnason tekur við ritstjórn félagslega hlutans af Arinbirni Kolbeinssyni. Örn tekur sig til og ræður starfsmann, fyrsti ritstjórnarfulltrúinn var Sigurjón Jóhannsson og hann byrjar á því að taka viðtal við formann færeyska læknafélagsins sem var í heimsókn. Árið eftir hættir hinn ritstjórinn, Páll Ásmundsson, en Bjarni Þjóðleifsson tekur við fræðilega hlutanum. Loks kemur Þórður Harðarson til liðs við þá tvo.

Þrátt fyrir þessa verkaskiptingu ritstjóranna er efni blaðsins áfram blanda af fræðilegu og félagslegu efni, en það er líka að breytast. Það má merkja að skoðanir eru skiptar um hverjar skuli vera áherslur blaðsins. Stundum er kvartað yfir því að fræðilegi hlutinn þurfi að líða fyrir endalausar langlokur af fundum og þingum lækna. Dæmi um slíkt er frá 1975 þegar eitt þriggja tölublaða ársins er að stærstum hluta – heilar 50 blaðsíður – lagt undir fundargerðir af ársfundum LÍ í 4 ár. Ritstjórar verja þetta með þeim rökum að vissulega þurfi og vilji læknar fylgjast með því sem gerist í kjaramálum þeirra og öðrum félagsmálum.

Ekki á Jótlandsheiðar, en …

En það hillir fljótlega undir talsverðan örlagavald í þróun blaðsins þegar farið er að ræða hugsanlegan stuðning frá forlagi danska Læknafélagsins við útgáfu Læknablaðsins.

Í frétt frá ritstjórn árið 1979 segir frá því að danskur ráðgjafi hafi tekið þátt í „gagngerðri endurskoðun“ á rekstri blaðsins. Hafnar séu viðræður við Dani um að taka að sér prentun blaðsins og öflun auglýsinga frá alþjóðlegum lyfja-fyrirtækjum. Inn í þessar umræður blandast svo tölvuvæðingin sem er mikið til umræðu þessi misserin.

Í Danmörku er forlag lækna farið að tölvusetja blað sitt og býðst nú til að gera slíkt hið sama fyrir það íslenska. Er skemmst frá því að segja að árið eftir, 1980, er prentun blaðsins flutt úr Félagsprentsmiðjunni í Mohns Bogtrykkeri við Store Kongensgade skammt frá Kóngsins Nýjatorgi í Kaupmannahöfn.

Þessi ákvörðun hafði töluverð áhrif á útgáfu blaðsins og vinnslu. Heimildir um þetta eru því miður fremur fátæklegar þar sem þau þrjú sem stærstan þátt áttu að málum á þeim 14 árum sem danska prentunin var í gangi eru ekki lengur til frásagnar, Örn Bjarnason er nýfallinn frá og það sama gildir um ritstjórnarfulltrúann Jóhannes Tómasson, en sú sem tók við af Jóhannesi, Birna Þórðardóttir, er enn á lífi þótt minnið sé orðið laskað. Þetta er mjög miður því hlutur þessara þriggja í því að halda blaðinu á lífi er ósmár.

En svona í baksýnisspeglinum sýnist mér að dönsku setjararnir hafi átt í nokkrum örðugleikum með að tileinka sér íslenskar reglur um orðskiptingar. Að öðru leyti er blaðið ekki síðra en áður, prentun mynda batnar mikið. Sú breyting verður þó smátt og smátt að félagslegt efni verður æ fátæklegra, en fræðilegi hlutinn blómstrar með aukinni og reglulegri útgáfutíðni.

Mér skilst að erfiðara hafi reynst að vera með ferskar íslenskar fréttir þar sem vinnslutími blaðsins lengdist með þessari útvistun. Það kemur því í sjálfu sér ekki á óvart að nýtt rit hafi komið til sögunnar árið 1983: Fréttabréf lækna sem kom út mánaðarlega allt árið og var við lýði fram til 1994 þegar dönsku útlegðinni linnti og blöðin sameinuðust á ný í íslenskri prentsmiðju.

Skriffinnskan tölvuvædd

Það er fleira sem angrar lækna í tækniþróun þessara ára. Í blaðinu er talsvert fjallað um það sem nefnt er „tölvuvæðing skriffinnskunnar“.

Þar birtast nokkrar greinar eftir Elías Davíðsson tölvufræðing og Ásmund Brekkan lækni um það sem læknar bundu vonir við að tæki af þeim ómakið sem hin endalausa útfylling eyðublaða og skýrslna lagði á þá. Mín tilfinning er sú að sá draumur hafi ekki ræst sem skyldi, enn heyrast kvartanir um að skriffinnskan sé ekki síður tímafrek nú en meðan sjálfblekungurinn var eina vopnið í þeirri eilífu baráttu.

Og talandi um tölvutækni þá blandaðist hún inn í prentsmiðjuumræðuna því auk prentunar innihélt tilboð Dananna tölvuvinnslu á öllu félagatali íslenskra lækna. Þá fannst nú sumum skörin færast upp í bekkinn því óráðlegt þótti að geyma tölvuupplýsingar um íslenska menn á erlendri grund. Ekki fylgir sögunni hvort slík útvistun átti sér nokkurn tímann stað, ég held þó ekki. Íslenskum forriturum og læknum óx fiskur um hrygg og til urðu umdeild forrit til skýrsluhalds lækna. En það er önnur saga.

Eitt hafðist þó upp úr krafsinu snemma á þessum áratug: það komst meiri regla á útgáfuna. Það sést meðal annars á því að stjórn LÍ sá ástæðu til að hrósa Læknablaðinu fyrir að hafa tekist að koma slíkri reglu á og að það hafi leitt til þess að ekkert efni bíði birtingar. Þetta má sjá á því að árið 1975 komu út þrjú blöð sem merkt voru 1.-4. tbl., 5.-8. tbl. og 9.-12. tbl. Þegar leið á áratuginn var komin á sú regla að blöðin voru 10 á ári og heildarblaðsíðufjöldinn hafði aukist úr um það bil 200 í rúmlega 300 á ári. Eftir þetta verður útgáfan mun reglulegri.

Leiðarar koma og fara

Efni blaðsins er eins og áður í allgóðu samræmi við það sem hrjáir landsmenn. Nýir skaðvaldar fá sínar greinar, eins og sjá má af fyrirsögn greinar eftir Sigurð H. Richter: „Bit á mönnum af völdum staraflóar, rottuflóar og rottumaurs“ og fylgdu ógnvekjandi myndir af þessum bitvörgum. Stöku blöð eru eins og greinaflokkar um skyld málefni. Til dæmis blaðið þar sem fjallað er um ofnotkun róandi lyfja og svefnlyfja, tilraunir til að fækka ávísunum á slík lyf, auk langrar greinar um „sjálfsmorð“ á Íslandi sem ritstjórn leggur út af í leiðara blaðsins.

Leiðarar eru nú farnir að birtast, en verða þó ekki ýkja langlífir. Fyrst skiptast ritstjórar á að skrifa þá, svo er leitað til valinna lækna um að fjalla um sínar sérgreinar. En um tíma hverfa þeir aftur. Í þeirra stað birtast bréf til lækna um það sem landlæknir, Ólafur Ólafsson, telur brýnt að koma á framfæri við stéttina.

Annað sem þessi ritstjórn tók upp á og hefur reynst langlíft er að hún hóf útgáfu á fylgiritum Læknablaðsins. Þar er augum beint að ítarefni um tiltekna sjúkdómsflokka, minningum um eldri lækna eða sögulegum greinum, nú eða efni sem varðar stéttina á annan hátt. Sú aukaútgáfa hófst árið 1977 og er enn í góðum gangi, fylgiritin orðin vel á annað hundrað talsins.

Fyrsta fylgiritið fjallar um siðareglur lækna. Þar eru birtar umræður sem urðu á Læknaþingi sem fjallaði um þær. Af því tilefni er rétt að enda þessa grein með eftirfarandi hugleiðingum eftir Árna Björnsson lækni:

„Þó íslenskir læknar virðist harla tómlátir um sinn Codex, eru þeir áreiðanlega ekki ver siðaðir en aðrir læknar og skýringin mun fremur sú, að þeir hafa litla tilhneigingu til umræðna um afstæða hluti, hvort sem það svo er vegna þess að læknisfræðinámið hér vængstýfir andann, eða það er vegna þess, að vængstýfðir andar leiti öðrum fremur í læknanám.“

 Thumbnail_image

Myndatexti: Læknablaðið hóf snemma að birta greinar þar sem greint var frá niðurstöðum rannsókna sem sýndu fram á skaðsemi tóbaksreykinga. Þegar Alþingi setti tóbaksvarnarlög árið 1984 var þeim áfanga fagnað með birtingu þessarar ljósmyndar á forsíðu 5. tölublaðs þess árs.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica