0708. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Læknir af lífi og sál

Viðtal við Arnar Hauksson

Arnar Hauksson kvensjúkdómalæknir hefur komið víða við á löngum ferli. Hann stendur nú á 77. ári og kveðst hafa dregið saman seglin og vinni núna aðeins dagvinnu fimm daga í viku. Hann segir fagið margflókið og krefjast opinna samskipta.

Fyrir þá sem þekkja til Arnars er þetta sannarlega samdráttur í vinnu-framlagi. Hann hefur bókstaflega verið vakinn og sofinn í vinnunni í nærfellt 50 ár, allar götur síðan hann útskrifaðist úr læknadeild Háskólans árið 1975. Ferill hans er glæsilegur og stutt yfirferð staðfestir að hann hefur verið brautryðjandi hér á landi á svo margan hátt í sinni sérgrein. Það sá forsetinn og sæmdi hann riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 2023 fyrir framlag sitt til heilbrigðis kvenna og stuðning við þolendur kynferðisofbeldis.

Blaðamaður bendir á að þróunin hafi verið sú að þetta er orðið nánast eingöngu kvennafag. Skiljanlegar ástæður eru fyrir því og ungir karllæknar sem eru að velja sérgrein í dag hika við fæðingar- og kvensjúkdómana. Samt hefur Arnar verið sagður vinsælasti kvensjúkdómalæknir landsins, þrátt fyrir að vera einn af örfáum karlmönnum sem hafa numið þessa sérgrein.

„Þetta er margflókið fag og krefst algjörs trúnaðar og opinna samskipta á báða bóga, eigi vel að fara,” segir Arnar. „Annars næst ekki tilætlaður árangur, því það skiptast á skin og skúrir í þessu fagi sem öðrum. Ég, sem allir læknar, legg mig allan fram og hef verið farsæll því margir mínir skjólstæðingar hafa vísað dætrum sínum til mín. Það þykir mér vænt um,“ segir hann.

„Lengstu samtöl mín eru einmitt þá og ég reyni að gefa mér góðan tíma þegar ungar konur koma í fyrsta sinn til mín og ræði við þær um lífið í æsku, tilfinningar, líkamsímynd, getnaðarvarnir, kynsjúkdóma, stráka og þunganir, áður en ég spyr hvort þær vilji að ég framkvæmi skoðun. En sumar konur vilja alls ekki að karlmaður skoði þær og þá ber að virða það.”

Nefndaseta og stjórnunarstörf

Arnar lauk sérfræðinámi í kvensjúkdómum frá Háskólasjúkrahúsinu í Lundi í Svíþjóð og fékk sérfræðiréttindi hér heima árið 1983 eftir að hafa starfað sem sérfræðingur í Svíþjóð um nokkurra ára skeið. Ég bið hann að renna yfir helstu áfangana á löngum ferli og hann tiltekur eftirfarandi, en aðeins fyrir þrábeiðni blaðamanns því hann segist lítið fyrir að hampa sjálfum sér.

„Ég tók fyrst sæti í stjórn Félags fæðinga- og kvensjúkdómalækna árið 1979 sem meðstjórnandi, og síðar sem ritari 1986 til 1990 og settist aftur í stjórnina sem formaður frá 2007 til 2010. Ég sat í stjórn Félags norrænna fæðinga- og kvensjúkdómalækna, NFOG, í átta ár, og sat samtímis í ýmsum nefndum á þeirra vegum, svo sem í Vísindanefnd NFOG í níu ár og í Fagnefnd NFOG í 10 ár,“ segir hann og var þar af formaður í sex ár auk þess að sitja í stjórn NFOG.

„Ég sat í undirbúningsnefnd NFOG til að fá að halda Heimsþing fæðinga- og kvensjúkdómalækna, FIGO, en mikil barátta er á milli þjóða að fá að halda þingið og margir í boði. Þetta var áróðursvinna sem stóð í fimm ár, 1992 til 1997, og við náðum því að heimsþingið skyldi haldið á Norðurlöndum, nánar til tekið í Kaupmannahöfn. Í framhaldi af því var ég svo skipaður í sex manna forsætisnefnd fyrir FIGO World Congress Copenhagen 3.-8. ágúst 1997. Þetta var stærsta heimsþing sambandsins frá upphafi en það sóttu á fimmtánda þúsund þátttakendur, læknar og auglýsendur alls staðar að úr heiminum. Það var mjög eftirminnilegt.“

Arnar lýsir því að hluti af starfi í NFOG sé að starfa í svokallaðri valnefnd sem fari yfir innsendar vísindagreinar fyrir birtingu annað hvort sem fyrirlestrar eða spjaldfyrirlestrar (posters) á Norðurlandaráðstefnum NFOG sem haldnar eru annað hvert ár.

„Þá var ég einn af mörgum kollegum frá Íslandi sem voru stofnendur SMS, Scandinavian Menopausal Society, og tók þar við af Jens A. Guðmundssyni kollega mínum og vini í stjórn þess í átta ár og vann að undirbúningi þinga á þess vegum. Síðasta verkefni mitt þar var að sitja í undirbúningsnefnd fyrir First Global Conference on Contraception and Reproductive and sexual health frá -22.-25. maí 2013 í Kaupmannahöfn.“

Auk framansagðs hefur Arnar stundað vísindarannsóknir bæði í Svíþjóð og hér heima og haldið fyrirlestra á þingum og ráðstefnum, fjölmörgum hér heima. „Fyrsti fyrirlestur minn erlendis var á heimsþingi FIGO í Berlín í september 1985 sem bar yfirskriftina Influence of Vasopressin on uterine contraction and Dysmenorrhoea sem var að hluta til doktorsverkefni mínu.

Enn er ótalinn fjöldi fræðslufyrirlestra hér heima sem Arnar hefur haldið fyrir almenning. „Ég hef fjallað um PMS, PMDD og breytingaraldur; orsakir og leiðir til að bæta þar úr, um lyf og áhættur af lyfjum fyrir fagfélög, kvenfélög og jafnvel á mömmumorgnum, svo eitthvað sé nefnt, allt án endurgjalds en auk þess á vísindaþingum hérlendis og erlendis.”

Tímaritið Áfangar í sex ár

Arnar sýnir mér nokkra árganga af Áföngum, tímariti Félag íslenskra kvensjúkdómalækna (FÍK), en hann stofnaði til þess, ritstýrði og gaf út í nokkur ár. „FÍK var eina félagið á Norðurlöndum sem ekki gaf út eigið tímarit. Ég var þá ritari í stjórn FÍK og ákvað ganga í að fá það skráð með alþjóðlegu ISBN-númeri á Landsbókasafninu. Ég gaf það út í nafni FÍK í 6 ár án árgjalds eða kostnaðar fyrir kollega, en fékk upp í kostnað með sölu auglýsinga og greiðslu frá styrktaraðilum,“ lýsir hann.

„Ég dreifði því til allra kollega á landinu, sem og allra fagfélaga á Norðurlöndum, auk Landsbókasafnsins. Til heiðurs þeim félögum í FÍK sem voru breskmenntaðir, sendi ég alltaf eintak til Royal College í Bretlandi. Þarna var gerð grein fyrir því sam var helst nýtt í faginu, upplýsingar um nýja meðlimi og kynning á útgáfu rita og doktorsvarna Íslendinga, auk efnis frá meðlimum,“ lýsir Arnar.

„Þá var mikilvægt að þarna var jafnframt aðgengileg stutt frásögn allra meðlima um hvað gerðist á fundum hinna ýmsu nefnda sem félagar í FÍK sátu í hjá NFOG, European college og FIGO, Alheimssamtökum fæðinga og kvensjúkdómalækna. Skipuð var ritnefnd þegar ég hætti útgáfunni en blaðið kom aldrei út aftur eftir það.“

Arnar telur mikilvægt fyrir svo lítið félag sem FÍK að vera áberandi í alþjóðlegu samstarfi. „Þannig fáum við stuðning til fræðslu og aðgang að hátt skrifuðum erlendum stofnunum fyrir yngri félaga okkar sem vilja komast í endurmenntun og doktorsnám.”

Arnar var yfirlæknir Miðstöðvar Mæðra-deildar á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur og undirbjó stofnun hennar með yfirlæknum og ljósmæðrum Kvennadeildar, þar var fremstur prófessor Reynir Tómas Geirsson, og vann þar frá stofnun 2001 til 2010.

„Miðstöð Mæðraverndar kom á árlegum endurmenntunarnámskeiðum fyrir lækna, ljósmæður og annað fagfólk. Þá tók miðstöðin þátt í útgáfu fyrstu samræmdu vinnureglna um eftirlit og meðferð þungaðra kvenna, í samvinnu við sérfræðinga kvennadeildar og ljósmæður auk margra fagaðila og undir stjórn landlæknis. Þetta hafði vantað lengi,” segir Arnar.

Arnar var skipaður formaður í nefnd samkvæmt lögum frá 1975 um fóstur-eyðingar og ófrjósemisaðgerðir og gegndi formennsku í 18 ár. Hann kveðst sérstaklega ánægður með úttekt Umboðsmanns Alþingis en þar var nefndin sögð sú opinbera nefnd sem hefði skjótustu úrlausn erinda og stystan biðtíma. „Við vorum sérstaklega stolt af þessari umsögn.”

Stofnuðu Neyðarmóttökuna

Þá er komið að þeim kafla í starfssögu Arnars sem hann kveðst einna stoltastur af, að hafa tekið þátt í stofnun Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

„Við vorum þrjú sem mynduðum átakshóp, Ragnheiður Guðmundsdóttir, Halla Tulinius og ég, til að kynna fyrir dómurum, lögmönnum, læknum og almenningi nauðsyn þess að koma á móttöku fyrir þolendur kynferðislegs ofbeldis.“ Þau hafi haldið fundi víða. „Þetta var á sama tíma og Guðrún Agnarsdóttir ásamt kollegum á Alþingi barðist fyrir stofnun slíkrar móttöku, því aðstæður voru engan veginn boðlegar fyrir slíkt starf. Engin slík var þá til og konur sátu með lögreglumönnum uppi á fæðinga- og kvennadeild fyrir allra augum að bíða eftir að tími væri hjá lækni til að sinna þeim,“ lýsir hann.

„Í framhaldi af því benti ég „Landa“, Ólafi Ólafssyni, á að það vantaði aðstöðu uns neyðarmóttakan yrði stofnuð og benti honum á mæðradeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur, húsnæði sem ætíð var tómt eftir klukkan 16 á virkum dögum og um helgar. Sendi hann beiðni til Heimis Bjarnasonar aðstoðarborgarlæknis sem þetta féll undir sem borgarlækni og hann spurði hvort ég gæti þá ekki staðið þessa bakvakt fyrir þessar konur þar til neyðarmóttakan yrði samþykkt á þingi. Heimir sagði að engin laun kæmu fyrir þetta. Ég sat því „í súpunni“ og stóð svo vaktina allan sólarhringinn í tvö ár,“ lýsir Arnar.

„Þetta urðu yfir eitthundrað og tólf útköll fyrir Rannsóknarlögreglu Ríkisins uns árið 1993, að ég og fjöldi kollega, með ötulli stjórn og drifkrafti Guðrúnar Agnars, glöddumst yfir formlegri stofnun Neyðarmóttöku (NM) fyrir þolendur kynferðisofbeldis.“ Neyðarmóttakan hafi nú starfað óslitið fyrir bæði konur og karla í tæp 32 ár.

„Þar vinnur nú öflugt teymi hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og einstaklega öflugt læknateymi. Nú er ég ábyrgur fyrir vaktafyrirkomulagi lækna og það best ég veit eini karlmaðurinn sem enst hefur svo lengi í svo viðkvæmum málaflokki. Við fórum svo nítján saman á Evrópuþing slíkra samtaka í desember 2018 í Helsinki, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, lögmenn, saksóknarar og læknar og sáum þá að við stöndum fremst meðal jafningja í þjónustu við þolendur kynferðisofbeldis,“ segir hann.

„Ég tók svo þátt í opnun sams konar neyðarmóttöku í Keflavík, á Akranesi og á Akureyri 1993 og í samráði við Alexander Smárason, yfirlækni á kvennadeild Sjúkrahússins á Akureyri, héldum við uppfærða fræðslu um móttökuna í mars 2018.”

Kynleiðrétting transfólks

Loks er ástæða til nefna þátt Arnars í að skapa úrræði fyrir transfólk sem vill komast í kynleiðréttingu. „Ég hafði unnið með Transgender einstaklingum í Svíþjóð og fannst vanta sárlega úrræði fyrir fólk hér heima sem var í þeirri stöðu,“ lýsir Arnar.

„Ég fékk Önnu Kristjánsdóttur með mér í þessa vinnu en hún var þekkt persóna á þeim tíma og óhrædd við að koma fram. Ég leitaði til Ólafs Ólafssonar landlæknis og hann bað mig að setja fram hugmynd að vinnuskipulagi og velja sérfræðinga með mér í hópvinnu sem fór fram á ábyrgð Landlæknis. Ég valdi fjóra lækna með mér, annan kvensjúkdómalækni, tvo geðlækna og lýtalækni. Þessi hópur hittist svo reglulega.“ Fljótlega eftir stofnun hópsins hafi þau fengið sænskan prófessor til sín og efnt til almenns fræðslufundar um málefnið í Norræna húsinu.

„Við áttum von á að fá nokkra ein-staklinga en okkur til mikillar ánægju, fylltist salur Norræna hússins og fram fór mjög ábyrg umræða og þar með fór boltinn að rúlla. Ég dró mig út úr þessum hópi eftir 12 ára vinnu þegar ég sá að Landspítalinn gæti og vildi taka við þessari þjónustu þar sem hún á heima, enda var það tilgangurinn með heimsókn minni til Ólafs um árið.”

Og látum svo þessari hraðferð um feril Arnars Haukssonar lokið þar sem jafnmargt er ósagt og sagt hefur verið en óhætt að endurtaka í lokin yfirskrift þessa viðtals; hann hefur verið læknir af lífi og sál í hálfa öld.

U07-Arnar-Hauksson

Arnar Hauksson, fæðinga-og kvensjúkdómalæknir, er svo sannarlega brautryðjandi í læknastéttinni og lýsir helstu baráttumálunum á ferlinum. Mynd/HSÞetta vefsvæði byggir á Eplica