0708. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ: Botninum var ekki náð. Katrín Ragna Kemp
Fyrir fimm árum birtist grein í Læknablaðinu eftir Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur, með yfirskriftinni „Botninum er náð“.1 Í henni var viðtal við Björn Rúnar Lúðvíksson, þáverandi formann prófessoraráðs Landspítala, Ólaf Baldursson, þáverandi framkvæmdastjóra lækninga á Landspítala og Ingu Þórsdóttur, forseta heilbrigðisvísindasviðs, sem öll lýstu áhyggjum af versnandi stöðu heilbrigðisvísinda á Landspítalanum.
Á svipuðum nótum var leiðari Magnúsar Gottfreðssonar, tveimur árum áður, með titilinn „Vísindi á Landspítala – hvert stefnir?“2 Hann lýsti þar áhyggjum yfir því að á Landspítala væri kostnaður við vísindarannsóknir tekinn af sama fjármagni og almennur rekstur spítalans og því hætt við að vísindin sætu á hakanum.
Þessar greinar gætu eins vel verið skrifaðar í dag. Starfsemistölur úr síðustu ársskýrslu Landspítala sýna að botninum var hreint ekki náð. Nýjum rannsóknum hefur farið fækkandi, sem og fjöldi ritrýndra greina, íslenskir styrkir hafa aukist en erlendir minnkað á móti.3
Stjórnarráð Íslands birti aðgerðaáætlun árið 2019, þar sem innan fimm ára átti að stofna heilbrigðisvísindasjóð í þeim tilgangi að veita styrki til heilbrigðisvísindarannsókna.4 Enn hefur þessi sjóður ekki komist á laggirnar, en heilbrigðisráðherra tilkynnti þó á ársfundi Landspítala 2024 að það stæði til fyrir lok árs.
Vonandi stenst það, því vísindarannsóknir verða ekki gerðar án fjármagns.
Í nýju skipuriti Landspítala færðist skrifstofa vísinda undir forstjóra. Magnús Gottfreðsson tók við nýrri stöðu forstöðumanns vísinda. Hann fór yfir stöðuna eins og hún er í dag í viðtali í síðasta tölublaði Læknablaðsins og sagðist vilja snúa vörn í sókn.5 Það er jákvætt að í nýju skipuriti séu vísindi ofarlega á blaði og í ávarpi forstjóra á síðasta ársfundi mátti heyra að hann vildi tryggja vísindastarfinu þann sess sem það ætti skilið. Hann nefndi þar sérstaklega bæði tíma og innviði sem mikilvæg atriði.
Vonandi stenst það, því vísinda-rannsóknir verða ekki gerðar án tíma og innviða.
Skrifað er í lög um heilbrigðisþjónustu að á Landspítala eigi að stunda vísindastarf. Það er mikilvægt að átta sig á því að þar sem vísindi eru stunduð verður klínískur árangur betri. Eflaust myndi það laða að fleiri íslenska sérfræðinga erlendis frá, ef vísindastarfið væri öflugra hér heima. Þá má spyrja hvort ekki væri hægt að gera vísindastarf sýnilegra og áhugaverðara fyrir þá sem ekki hafa stundað rannsóknir? Einnig hvernig viðhalda eigi áhuga og krafti þeirra sem þegar eru í rannsóknum?
Læknablaðið, Læknadagar og Vísindi á vordögum eru allt liðir í að kynna vísindastarfið. Forstöðumenn fræðasviða mættu verða sýnilegri sem leiðandi hópur fyrir rannsóknarstarf á spítalanum. Örugglega væri hægt að auka samvinnu á milli sviða og þannig samnýta ýmsa innviði. Réttara væri að úthluta fólki rannsóknartíma í vinnuskema þess í staðinn fyrir að skilgreina tímann sem frí, pappír eða launalaust leyfi, eins og tíðkast á mörgum sviðum.
Tími fyrir rannsóknir verður að komast fyrir á móti klíníska starfinu. Án þess verður engin framleiðni. Koma þyrfti upp klínísku rannsóknarsetri á lóð spítalans, með betri aðgangi að innviðum – eins og tölfræðingi, rannsóknarhjúkrunarfræðingum, tækjum, aðstöðu til að taka á móti sjúklingum og svo mætti lengi telja. Háskóli Íslands gæti einnig nýtt þessa innviði og þannig yrði aukið samstarf milli spítalans og Háskólans. Fjármagn mætti að hluta til tryggja með því að setja umsýslugjald á styrki, en það hefur ekki tíðkast á Landspítala, þó svo að flestir vísindamenn eigi að venjast því frá öðrum stofnunum.
Svo virðist sem margir hafi áhuga á því að efla stöðu heilbrigðisvísinda, en til þess að svo megi verða þarf meiriháttar átak og ekki orðin tóm. Annars verðum við enn að ræða um sömu hlutina að fimm árum liðnum. Þetta verður að vera sameiginlegt átak margra.
Samvinna og samtal verður að vera mikilvægur liður í starfinu. Tími, fjármagn og innviðir eru líklegar fyrirsagnir í aðgerðaáætluninni. Listinn er vitaskuld langur, en ég efast ekki um að framangreindir aðilar, sem lofað hafa að koma á breytingum, séu með excel-skjal ásamt Q1-Q4 áætlun um framgang og eftirfylgd, eins og góðum vísindamönnum og stjórnendum sæmir.
Vonandi hefur botninum verið náð núna.
Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins
Heimildir
1. Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir. Botninum er náð. Læknablaðið 2019;03: 107 | ||||
2. Magnús Gottfreðsson , Vísindi á Landspítala - hvert stefnir? Læknablaðið. Fylgirit 94 - Vísindi á vordögum, þing Landspítala 2017 - júní 2024 | ||||
3. Starfsemisupplýsingar/uppgjör Landspítala 2023. Landspítali, skrifstofa fjármála - júní 2023 | ||||
4. Stjórnarráð Íslands, heilbrigðisráðuneytið. 2019. Fimm ára aðgerðaáætlun heilbrigðisstefnu 2019 til 2023, Íslensk heilbrigðisstefna til ársins 2030. | ||||
5. Hávar Sigurjónsson. Rannsóknir eru fjárfesting til framtíðar. Læknablaðið 2024;06:330-331. |