0708. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Sjúklingum gert að greiða brjósklosaðgerðir úr eigin vasa
„Það stríðir gegn öllum mínum prinsippum fyrir íslenskt þjóðfélag að fólk þurfi að borga fyrir bakaðgerðirnar hjá okkur úr eigin vasa,“ segir Hulda Brá Magnadóttir, sem ásamt Guðrúnu Guðmundsdóttur býður fyrstu skurðaðgerðir við brjósklosi utan Landspítala. Báðar eru þær heila- og taugaskurðlæknar. Báðar koma þær erlendis frá til að gera aðgerðirnar.
Hulda Brá er fyrsta íslenska konan sem útskrifaðist úr sérgreininni og Guðrún önnur. Landspítalinn hefur ekki bolmagn í aðgerðirnar en Sjúkratryggingar neita að borga. „Að standa fyrir framan manneskju sem er að bugast úr verk út af brjósklosi, vitandi það að á klukkutíma, eða innan við það, geti ég breytt lífi manneskjunnar og hún labbað út án þess að vera skökk, og getur farið í sturtu, hugsað um börnin sín og unnið — ég get það ekki.“
Læknavarpið · #300524 Hulda Brá Magnadóttir, ferillinn og brjósklosaðgerðirnarÞær Guðrún ætla að halda sínu striki og skera í Orkuhúsinu þrátt fyrir að ríkið taki ekki þátt í kostnaði. „Fólk dregur ekki milljónir upp úr vasanum til að borga fyrir svona aðgerðir. Að hugsa sér að manneskja í venjulegu starfi, öryrki, einstæð móðir eða faðir, þurfi að taka lán til að borga fyrir svona aðgerð vegna verkja sem hamla því að gera nokkurn skapaðan hlut, er ljótt í íslensku samfélagi. Það á ekki að eiga sér stað,“ segir Hulda Brá í viðtali við Læknavarpið, hlaðvarp Læknablaðsins.
Hún lýsir því hvernig þær hafi verið orðnar spenntar að koma heim eftir kall spítalans og búist við betra veðri hjá Sjúkratryggingum. Þær hafi því ákveðið að hefja leika í von um breytta afstöðu ríkisins, enda biðlistarnir lengri en sagt sé. „Fyrst þarf skjólstæðingurinn að komast til sérfræðings til að láta meta sig og ef hann kemst ekki til sérfræðings er enginn biðlisti. Hann er því algjörlega falskur.“
Hulda hafði séð 20 manns þegar viðtalið var tekið og nú hefur fyrsta aðgerðin verið gerð. „Það vilja allir aðgerð og fólk fór grátandi frá mér.“ Þær Guðrún áætli að verðið sé 1,2 milljónir króna fyrir hverja aðgerð, sem kalli á svæfingalækni, skurðlækni, skurðhjúkrunarfræðing og aðstöðu og búnað. „Ég vil ekki vera að selja neitt og á ekki að gera það. Þetta er spurning um lífsgæði og aðgerð sem ég get gert, veitt og hjálpað fólki.“
Hulda Brá og Guðrún eru báðar í fullu starfi erlendis. Hún í Bandaríkjunum og Guðrún í Danmörku. „Við ætlum að reyna að skiptast á og dekka viku og viku og sjá hvernig staðan þróast.“
Hulda Brá segir frá störfum sínum ytra í Læknavarpinu, þegar hún kom heim og vann á Landspítala. Af hverju hún fór aftur út eftir fjögur ár þar, þótt hana langaði að búa á Íslandi.
Verða að forgangsraða á Landspítala
„Tilvísanir til heila- og taugaskurðlækna vegna bakvandamála hafa margfaldast á síðustu árum og spítalinn annar ekki vaxandi eftirspurn eftir mati skurðlæknis,“ segir Þórir Svavar Sigmundsson, framkvæmdastjóri skurðlækningaþjónustu og skurðstofu- og gjörgæsluþjónustu á Landspítala. Vegna skorts á skurðstofurými og fjölgunar annarra flóknari aðgerða á heila og mænu, séu gerðar færri brjósklosaðgerðir en áður.
„Sjúklingum er forgangsraðað eftir einkennum og ekki settir á formlegan biðlista nema raunhæft sé að framkvæma aðgerð innan 4-6 vikna.“ Flestir sjúklingar með brjósklos fái verkjalyf og sjúkraþjálfun með ágætum árangri. Einhverjir þeirra hefðu að hans mati mögulega haft gagn af aðgerð fyrr, sem líklega hefði bæði flýtt bata og bætt lífsgæði.
Þórir segir talsvert færri brjósklosaðgerðir á hverja 100 þúsund íbúa hér en í nágrannalöndunum. Þar séu flestar aðgerðirnar gerðar utan sérhæfðra sjúkrahúsa.