06. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Sérgreinin mín: Hýdrókortisón-sprautan vakti áhugann
- Margrét Einarsdóttir
Pabbi var skurðlæknir og þegar ég var barn fékk ég oft að heyra að best væri að láta hnífinn lækna sjúklinginn — ef þess væri kostur. Ég var því full tilhlökkunar að byrja á skurðdeildunum sem 4. árs læknanemi haustið 2007. Það kom þó á daginn að ég var ekki efni í skurðlækni. Ég fann mig ekki á skurðstofunni, mig svimaði og þrátt fyrir stuðningssokka, kaffi- og kókdrykkju leið ég út af í löngum aðgerðum.
Nokkrum mánuðum seinna hófst verknám á lyflæknadeildum og fljótlega vissi ég að mig langaði að verða lyflæknir. Mér fannst starf lyflækna heillandi. Umræður um blóðprufuniðurstöður voru skemmtilegar og vinnufyrirkomulagið hentaði mér vel.
Ég fékk vinnu á lyflækningasviði Landspítala eftir að ég kláraði 5. árið í læknanáminu. Þar vann ég um sumarið og hélt áfram að taka vaktir á 6. ári. Eftir það tók kandídatsárið við. Eins og flestum kandídötum fannst mér ég oft á tíðum fáfróð og hálf gagnslaus. Þegar ég greindi rúmliggjandi sjúkling með Addisons-sjúkdóm og hann gat gengið á ný eftir að hafa fengið hýdrókortísón-sprautu þá leið mér eins og kraftaverkalækni. Ég varð sannfærð um að það væru ekki bara skurðlæknar sem gætu læknað fólk því án hormóna gætum við ekki lifað.
Á kandídatsárinu heillaðist ég af innkirtlalækningum og margir góðir innkirtlalæknar eins og Ari J. Jóhannesson, Rafn Benediktsson, Gunnar Sigurðsson og Helga Ágústa Sigurjónsdóttir juku áhuga minn á faginu. Ég leit upp til innkirtlalækna því þau voru svo vel að sér og ætíð tilbúin að hjálpa. Auk þess fannst mér innkirtlasjúkdómar áhugaverðir og athyglisvert hvernig útlit og líðan sjúklinga gat breyst við offramleiðslu eða skort á hormónum. Oftast var hægt að hjálpa sjúklingunum með lyfjum og árangur meðferðar kom fljótt í ljós. Mér fannst líka kostur að starf innkirtlalæknis bauð upp á að vinna á sjúkrahúsi og á stofu.
Eftir kandídatsár starfaði ég í 4 ár sem deildarlæknir á lyflækningasviði Landspítala. Ég vissi að ég vildi verða lyflæknir en mér fannst margar undirsérgreinar spennandi. Innkirtlalækningar voru áfram efstar á blaði en blóðlækningar voru líka spennandi og ég vann þar í nokkra mánuði áður en ég ákvað mig. Þegar ég var deildarlæknir byrjaði ég að stunda rannsóknir með Helgu Ágústu innkirtlalækni. Svo leiddi eitt af öðru og ég flutti til Gautaborgar sumarið 2015 til að hefja sérnám í innkirtlalækningum á Sahlgrenska sjúkrahúsinu. Ég hef starfað þar í 9 ár en hef nú ákveðið að flytja aftur til Íslands í sumar.
Spítalaumhverfið hefur hentað mér vel og ég mun hefja störf á göngudeild innkirtla- og efnaskipta á Landspítalanum í haust. Dvöl mín á Sahlgrenska hefur verið lærdómsrík og þar hef ég kynnst færum innkirtlalæknum og vísindamönnum sem munu áfram vera helstu fyrirmyndir mínar í starfi. Mér finnst ég afar lánsöm að hafa fengið tækifæri að að vinna erlendis og sinna sjúklingum með sjaldgæfa innkirtlasjúkdóma sem við sjáum sjaldan á Íslandi.
Meðfram sérnáminu á Sahlgrenska stundaði ég vísindavinnu og varði doktorsritgerðina mína í nóvember í fyrra. Ritgerðin fjallar um nýrnahettubilun vegna sykursteranotkunar. Nýrnahettubilun hefur verið mér hugleikin – alveg síðan ég steig mín fyrstu skref sem kandídat á Landspítala og sá hversu mikil áhrif ein hýdrókortísón-sprauta gat haft á líðan sjúklings með ógreindan Addisons-sjúkdóm.
Þegar ég hugsa um val mitt á sérgrein er ég mjög þakklát fyrir að hafa valið innkirtlalækningar.