06. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Viðtal: Samningur við stofulæknaleysti hnút í kerfinu

Ragnar Freyr Ingvarsson lyf- og gigtarlæknir er mörgum kunnur fyrir ekki einungis störf sín í félagsmálum lækna heldur einnig fyrir áhugamál sín á öðrum sviðum, sem „Læknirinn í Eldhúsinu.“ Hann hefur allt frá námsárum í Læknadeild Háskóla Íslands verið virkur í félagsmálum og er nýendurkjörinn formaður Læknafélags Reykjavíkur.

Ragnar Freyr er sannarlega hokinn af reynslu í félagsmálum lækna. Hann var virkur í Félagi almennra lækna 2005-2008 og gegndi meðal annars formennsku og á námsárum í læknisfræði tók hann virkan þátt í kjarabaráttu læknanema.

„Við tókum rimmu við Landspítalann þegar við vorum ráðin sem aðstoðarlæknar eftir fjórða ár. Á öðru ári tók ég þátt í stofnun Ástráðs, kynfræðslu fyrir framhaldsskólanema, undir forystu Kolbrúnar Pálsdóttur, sem nú er yfirlæknir á kvensjúkdómadeild Landspítalans, og Jóns Þorkels Einarssonar gigtarlæknis í Lundi. Það er gaman að segja frá því að Ástráður er enn fullu fjöri aldarfjórðungi síðar.“

Ragnar Freyr var einnig formaður Félags íslenskra gigtarlækna frá 2016 þar til hann tók við formennsku í Læknafélagi Reykjavíkur, LR, árið 2022. Hann er einnig þekktur matgæðingur og heldur úti matarbloggi þó hann segist hafa vanrækt það undanfarin tvö ár en instagram reikningurinn er öflugur og einnig fésbókarsíða.

„Hún lifir nú mest á fornri frægð og þar endurnýti ég þessar þúsund uppskriftir sem ég hef sett saman í gegnum árin.“ Eftir Ragnar liggja 4 matreiðslubækur og sjónvarpsþætti hefur hann einnig gert allmarga fyrir Sjónvarp Símans og Skjá einn. „Við gerðum nokkra þætti í fyrra en samtals eru þeir orðnir um 50 talsins.“

Þessi upprifjun er sjálfsagt mörgum kunn en þetta er þó ekki nema hluti af því sem Ragnar hefur fengist við undanfarin ár. Starfið sjálft, lyf- og gigtarlækningarnar eru enn ónefndar. Í sem stærstum dráttum skiptir hann vinnunni til helminga á milli Landspítalans og eigin reksturs í Heilsuklasanum þar sem hann rekur Gigtarmiðstöðina ásamt öðrum gigtarlæknum. Þar rekur hann einnig Beinstyrk þar sem hægt er að fá gerðar beinþéttnimælingar auk ráðlegginga um meðferð beingisnunar og beinþynningar.

„Þá erum við einnig með Lyfjagjöf innrennslismiðstöð sem hefur vaxið á undanförnum árum og vonum að það haldi áfram að vaxa. Þetta er búið að vera lyginni líkast undanfarin ár því auk þess að stofna og reka þessi fyrirtæki þá var ég tímabundið yfirlæknir Covid-göngudeildar Landspítalans og svo bættist formennskan í LR við.“ En hann segist hafa ákveðið að draga úr vinnu-álaginu síðasta haust.

„Já, það er ekki hægt að keyra svona á fullum yfirsnúningi ár eftir ár. Ég minnkaði aðeins við mig á spítalanum, fækkaði vöktunum, og ætla að reyna að njóta ávaxtanna aðeins meira. Það er kominn tími til þess.“

Lifandi samningur til fimm ára

Og í því samhengi er rétt að snúa sér að aðalefni viðtalsins, samingi LR við Sjúkratryggingar Íslands sem gerður var fyrir ári síðan en þá höfðu stofulæknar, læknar í sjálfstæðum rekstri, verið án samnings í fjögur og hálft ár.

„LR hefur allar götur frá stofnun félagsins 1909 farið með samninga við ríkið fyrir hönd sjálfstætt starfandi lækna. Þetta hefur með tímanum orðið æ flóknara þar sem sérgreinar í læknis-fræði eru 26 talsins og LR semur fyrir hönd heildarinnar en hver sérfræðingahópur kemur síðan að samningu gjaldskrár fyrir sig. Það var loks í lok júní á síðasta ári sem við skrifuðum undir samning við Sjúkratryggingar Íslands, eftir meira en fjögur og hálft ár án samnings, en þá var staðan komin í mikið óefni þar sem sjúklingar voru farnir að greiða umtalsverð aukagjöld,“ lýsir hann.

„Ástæða þess að sjúklingar þurftu að greiða aukagjöld var vegna þess að ríkið hafði ekki leiðrétt einingaverð til sérgreinalækna í nokkur ár. En með nýjum heilbrigðisráðherra kom einnig ný forysta hjá SÍ og samtal við stofnunina komst á gott skrið þar til við náðum saman,“ lýsir hann.

„Það skipti sköpum að nýr heilbrigðisráðherra var tilbúinn að semja við okkur en fráfarandi ráðherra hafði ekki ljáð máls á því, alltént ekki að neinu raunhæfu leyti. Samningurinn leysti sannarlega ákveðinn hnút í heilbrigðiskerfinu, sjúklingar þurftu ekki lengur að greiða aukagjöld auk þess sem ný læknisverk voru tekin upp. “

Önnur dæmi um farsæla lausn séu útvistun liðskiptaaðgerða og segir Ragnar Freyr biðlista eftir liðskiptaaðgerðum hafa styst úr 8-16 mánuðum í 4-5 á þessu eina ári sem liðið er. „Á sama tíma hefur Landspítalinn aukið afköst, sem sýnir að með samkeppni í kerfinu er hægt að ná betri árangri og það eru fyrst og fremst sjúklingarnir sem njóta góðs af því. “

Samningurinn er til fimm ára en Ragnar Freyr segir að hann sé ekki geirnegldur til þess tíma. „Þetta er lifandi samningur ef svo má segja, þar sem fulltrúar LR og SÍ eiga stöðugt samtal um nauðsynlegar breytingar sem gera þarf á samningstímanum. Við gerum ráð fyrir að þjóðinni fjölgi og aldurssamsetning breytist, svo á hverju ári er möguleiki að bregðast við því og einnig að taka tillit til nýjunga í læknisfræði sem kunna að verða á samningstímanum. Það var skýrt af okkar hálfu að samningurinn væri lifandi að þessu leyti, því það gengi ekki að semja um nýjungar á fimm ára fresti,“ segir hann.

„Samningurinn er líka opinn fyrir nýja lækna því þörfin fyrir þjónustu hefur aldrei verið meiri og fer vaxandi. Það endurspeglast í eftirspurn hvar sem er í heilbrigðiskerfinu og við verðum að vera tilbúin að bregðast við því. Ég tel að okkur hafi tekist nokkuð vel til hvað þetta varðar og á þessu eina ári höfum við gert tugi breytinga á gjaldskrám sérfræðilækna, sem endurspeglar þjónustuna sem er í boði. Með samningnum gátum við fellt niður öll aukagjöld til sjúklinga með einu pennastriki, sem var mikið ánægjuefni. Læknisþjónusta á að vera aðgengileg öllum – óháð efnahag viðkomandi.“

Að sögn Ragnars Freys er hlutur sjúklings í greiðsluþátttöku nú um 20% en var kominn í um 50% á þeim tíma sem enginn samningur var í gildi. „Þrátt fyrir þetta hefur ekki orðið nein sprenging í fjölda eininga og við erum langt frá því að snerta ytri mörk samningsins. Samningurinn er fyrst og fremst til hagsbóta fyrir sjúklingana,“ segir hann.

„Læknar fengu einfaldlega leiðréttingu á sínum gjaldskrám – með öðrum orðum greiðir ríkið nú það sem áður var innheimt sem aukagjöld. Við metum samninginn sem góðan en eigum þó enn eftir að uppfæra gjaldskrár um helmings sérgreinanna svo talsverð vinna er framundan en við erum í stöðugu samtali við SÍ hvað þetta varðar.“

Sóun sem hægt er stöðva

Ragnar Freyr hefur verið óþreytandi að benda á nauðsyn aukinnar hagkvæmni í heilbrigðiskerfinu og hversu stór hluti heilbrigðisþjónustunnar fer fram á stofum sjálfstætt starfandi lækna.

„Það eru fleiri heimsóknir til okkar á hverju ári en á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og dag- og göngudeildir Landspítalans samanlagt. Og við erum langtum ódýrari. Okkar þjónusta er mjög hagstæð stærð í heildarsamhenginu þegar kemur að kostnaði í heilbrigðiskerfinu. Mér er mjög hugleikið hvernig við verjum peningunum sem veitt er til heilbrigðismála. Þetta eru um 400 milljarðar á næsta ári, sem er svo stór tala að það skilur það varla nokkur maður,“ segir Ragnar Freyr.

„Þjónustan sem þessir peningar greiða fyrir er mjög fjölbreytt, spítalarekstur, heilsugæsla, öldrunarþjónusta, þjónusta sérgreinalækna á stofu, lyfjameðferð, endurhæfing, hjálpartæki, svo það helsta sé nefnt. Það fæst sem sagt mikið fyrir peningana en maður veltir því fyrir sér hvort hægt sé að gera betur og fá meiri þjónustu. Það má til dæmis draga mjög úr skriffinnsku en læknar eyða ótrúlega miklum tíma í að skrifa alls kyns vottorð, beiðnir, undanþágulyfseðla, lyfjaskírteini – tíma sem væri betur varið í að sinna sjúklingum,“ segir hann.

„Annað sem við í LR höfum lagt áherslu á er að veita rétta þjónustu á réttum stað og á réttum tíma, en þar er sannarlega sóknarfæri í að færa þjónustuna á ódýrara stig. Stofulæknar eiga ekki að sinna þjónustu sem best og hagkvæmast er að sé veitt af heilsugæslunni eða á spítala en þetta gildir í báðar áttir,“ segir hann.

„Heilsugæslan á ekki að vera að sinna flóknum og sérhæfðum verkefnum sem fer betur í höndum sjálfstætt starfandi lækna og Landspítalinn á ekki að sinna einfaldari verkum sem hægt er að gera annars staðar með lægri tilkostnaði. Landspítalinn ætti helst að sinna flóknari vandamálum sem krefjast þverfaglegar nálgunar, auk kennslu og vísindarannsókna. Það er hlutverk háskólasjúkrahúss. Það er morgunljóst að mikil sóun á sér stað í heilbrigðiskerfnu og við verðum að vera opinská og hreinskilin til að lagfæra þetta.“

„Samningurinn er opinn fyrir nýja lækna því þörfin fyrir þjónustu hefur aldrei verið meiri og fer vaxandi,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson formaður LR. Mynd/HS

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica