06. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna: Fjárfesting til framtíðar. Magdalena Ásgeirsdóttir
Frá árinu 1911 hefur stór hluti íslenskra lækna fengið sína grunnmenntun í Háskóla Íslands. Fjöldatakmarkanir fyrri ára og nú inntökupróf í Háskóla Íslands hafa leitt til þess að færri hafa komist að en vildu. Síðustu ár hefur því fjöldi íslenskra ungmenna farið í grunnnám í læknisfræði erlendis með miklum tilkostnaði.
Allt fram á þennan dag hafa íslensk heilbrigðisyfirvöld komist upp með það að láta nágrannaþjóðir bera kostnað af því að þjálfa og mennta sérfræðilækna. Við læknar höfum sjálfir leitað að álitlegum háskólasjúkrahúsum, flutt heimsálfa á milli á eigin kostnað. Algengt er að starfa erlendis í nokkur ár eftir að námi lýkur áður en flutt er aftur heim, sumir ílendast erlendis.
Þegar raunverulegur skortur á læknum, bæði sérnámslæknum og sérfræðilæknum, var orðinn viðvarandi var farið að bjóða upp á sérfræðinám í ýmsum sérgreinum læknisfræðinnar – bæði hlutanám og fullt nám. Það má eiginlega segja að þessi ráðstöfun hafi komið til af neyð eða illri nauðsyn og til að reyna að koma í veg fyrir að þetta unga efnilega fólk flytti til annarra landa.
Af hálfu kennslustjóra lækna er vel að verkinu staðið, vandaðar og ítarlegar marklýsingar sem standast alþjóðagæðakröfur. Það virðist hins vegar hafa komið heilbrigðisyfirvöldum og fjárveitingavaldinu í opna skjöldu eftir að hafa verið gjaldfrjáls í heila öld að það kosti fjármuni að mennta sérfræðilækna hér á landi. Auðvitað ætti fyrir löngu að vera búið að kostnaðargreina sérnámið og sjá til þess að fjármagn fylgi hverjum sérnámslækni, hvort sem hann lýkur fullu sérnámi hér á landi eða hlutanámi og lýkur svo náminu erlendis á okkar kostnað, enda með ráðningarsamning.
Mín upplifun þau rúmlega 30 ár sem ég hef starfað sem læknir er að vinnuveitendur líta fyrst og fremst á námslækna sem vinnukraft og oft er formlegri kennslu illa eða ekki sinnt. Viðhorf til menntunar lækna þarf að breytast úr því að líta á menntun og störf lækna sem útgjöld yfir í það að vera fjárfesting til framtíðar, öllum til heilla.
Mér vitanlega er engin önnur starfsstétt en læknar þar sem krafist er eins mikillar menntunar og þjálfunar. Læknar hafa ekki fengið styttingu vinnuvikunnar í sínum kjarasamningum og skila 40 klukkustunda dagvinnu. Ofan á þessa tíma leggjast vaktir og vaktabyrðin er oftast mest hjá yngri læknum. Þetta eru fjarvistir frá fjölskyldu og ungum börnum. Læknar eru krafðir um vinnuframlag langt umfram það sem þekkist á almennum vinnumarkaði. Þetta er áhyggjuefni.
Ef við viljum halda í okkar ungu lækna, verðum við að skapa þeim starfsumhverfi og kjör sem eru sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum. Annars missum við þá frá okkur. Læknar, rétt eins og aðrir, þurfa hvíld og jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Íslendingar eru kröfuharðir og gera þá kröfu að heilbrigðisþjónusta okkar standist samanburð við það sem best gerist í heiminum.
Það styttist í Alþingiskosningar. Ég velti fyrir mér hvort tilvonandi frambjóðendur hafi raunverulegan metnað fyrir heilbrigðisþjónustu. Hún verður ekki veitt án aðkomu lækna. Einnig verður fjárveitingavaldið að vakna af sínum Þyrnirósarblundi og leggja til fé til menntunar sérfræðilækna. Það verður fróðlegt að sjá hvort næstu ráðamenn þjóðarinnar þori að horfa lengra en til þeirrar skammtímaráðningar sem eitt kjörtímabil er, en það er einungis þriðjungur af lágmarks námstíma sérfræðilæknis.
Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.