06. tbl. 110. árg. 2024

Ritstjórnargrein

Bólusetningar eru hornsteinn forvarna gegn smitsjúkdómum

Íris Kristinsdóttir | læknir og doktor í læknavísindum English Vaccinations are the cornerstone of preventive measures against infectious diseases Iris Kristinsdottir MD PhD

 doi 10.17992/lbl.2024.06.794

Bólusetningar eru meðal mikilvægustu upp-götvana læknavísindanna og ávinningur bólusetninga er ótvíræður. Áætlað er að bólusetningar bjargi 3,5-5 milljónum mannslífa á heimsvísu á ári hverju.1 Árangur bólusetninga á Íslandi hefur verið góður. Til að mynda fækkaði tilfellum ífarandi meningókokkasýkinga til muna eftir að bólusetningum gegn meningókokkum C var bætt við bólusetningarskemað árið 2002 og engin tilfelli meningókokka C hafa greinst á Íslandi síðustu 16 árin.2 Þökk sé bólusetningum er áður algenga sjúkdóma helst að finna í kennslubókum. Þó er mikilvægt að sofna ekki á verðinum – við þurfum að viðhalda góðum árangri með góðri þátttöku í bólusetningum og uppfærslum á bólusetningarskema eins og við á.

Nú er kíghóstafaraldur í Evrópu og fjöldi mislingasmita- og faraldra hefur farið vaxandi síðan 2023, eftir tiltölulega litla dreifingu mislinga á tímum heimsfaraldurs COVID-19. Ísland hefur ekki farið varhluta af þessari aukningu. Á þessu ári hafa greinst fleiri kíghóstasmit á Íslandi en hafa greinst á einu ári frá 1998.3 Að auki hafa greinst tilfelli af mislingum og hettusótt. Þátttaka í almennum bólusetningum barna hefur farið dvínandi á undanförnum árum, sem má að minnsta kosti að hluta til rekja til þess að börn hafa misst af bólusetningum á meðan heimsfaraldur COVID-19 geisaði. Brýnt er að bregðast við minnkandi þátttöku í bólusetningum til þess að viðhalda hjarðónæmi í samfélaginu.

Yngstu börnin eru sérstaklega í hættu á að veikjast alvarlega af kíghósta. Því er mælt með því að barnshafandi konur séu bólusettar gegn kíghósta á hverri meðgöngu, svo að mótefni frá móður verndi ungbarnið á fyrstu mánuðum lífs, auk þess að vernda móðurina sjálfa. Í ljósi kíghóstafaraldursins sem nú er í gangi er sérlega mikilvægt að minna á þessar ráðleggingar. Inflúensubólusetning á meðgöngu er einnig ráðlögð en þrátt fyrir það voru einungis tæp 20% barnshafandi kvenna á Íslandi bólusett gegn inflúensu á inflúensutímabilunum 2010-2020. Bólusetningarhlutfallið hækkaði þó yfir tímabilið og náði hæst tæpum 40% á inflúensutímabilinu 2019-2020.4 Enn má gera betur og bæta bólusetningarhlutfallið enn frekar, til að vernda bæði barnshafandi konur og börn þeirra á fyrstu mánuðunum. Þar skiptir fyrst og fremst sköpum að barnshafandi konum sé boðin bólusetning samkvæmt ráðleggingum en fræðsla um ávinning og öryggi bólusetningarinnar skiptir einnig gríðarlega miklu máli. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að ráðleggingar frá heilbrigðisstarfsfólki og þekking á inflúensubólusetningum séu meðal helstu þátta sem ráða því að barnshafandi konur þiggi bólusetninguna. Að sama skapi eru helstu ástæður fyrir því að konur hafna bólusetningu áhyggjur af öryggi og aukaverkunum og skortur á þekkingu á bóluefninu. Heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir barnshafandi konum hefur því afar mikilvægu hlutverki að gegna til að stuðla að verndun viðkvæmra hópa.

Heilbrigðisyfirvöld hafa einnig möguleika á að bæta um betur í þeim bólusetningum sem boðið er upp á. Rótaveira er helsta orsök bráðra garnasýkinga hjá ungum börnum og sjúkdómsbyrði af hennar völdum er umtalsverð.5 Til eru virk og örugg bóluefni gegn rótaveiru. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með því að rótaveirubólusetningar séu hluti af almennum bólusetningum barna og hafa flest lönd í Evrópu, sem við berum okkur saman við, bætt rótaveirubólusetningum í sitt skema. Á undanförnum vikum hefur hvert barnið á fætur öðru komið á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins með bráða garnasýkingu. Staðan væri líklega önnur ef bólusett væri gegn rótaveiru á Íslandi, enda dregur bólusetningin verulega úr sjúkdómsbyrðinni. Ætla má að rótaveirusýkingar hjá börnum undir sex ára kosti samfélagið um hálfan milljarð króna á ári (gróflega aðlagað að verðlagi 2024), þar sem vinnutap foreldra vegur þungt, og því afar líklegt að bólusetningar gegn rótaveiru væru kostnaðarhagkvæmar á Íslandi.5

Miklar framfarir eru í þróun bóluefna og ný bóluefni gegn hinum ýmsu sjúkdómum líta vonandi dagsins ljós á næstu árum. Heilbrigðisyfirvöld þurfa að vera vel vakandi, bæði fyrir breytingum í faraldsfræði smitsjúkdóma sem kalla á breytingar á bólusetningum og fyrir nýjum bóluefnum sem gera okkur kleift að vernda gegn fleiri sjúkdómum. Jafnframt skiptir miklu máli að heilbrigðisstarfsfólk hugi að bólusetningum sinna skjólstæðinga og einnig eigin bólusetningum. Bólusetningar eru mikilvægasta forvörnin.

 

Heimildir

1. Vaccines and immunization. World Health Organization. https://www.who.int/health-topics/vaccines-and-immunization#tab=tab_1 - maí 2024.
 
2. Surveillance Atlas of Infectious Diseases. European Centre for Disease Prevention and Control. https://atlas.ecdc.europa.eu/public/index.aspx?Dataset=27&HealthTopic=36 - maí 2024.
 
3. Kíghósti eftir mánuði, kyni og aldri 1998-2021. Embætti Landlæknis - maí 2024.
 
4. Kristinsdottir I, Haraldsson A, Thors V. Influenza vaccination in pregnant women in Iceland 2010-2020 and the burden of influenza in pregnant women and their infants. Vaccine. 2024;42(8):2051-2058.
https://doi.org/10.1016/j.vaccine.2024.02.046
PMid:38413277
 
5. Kristinsdottir I, Haraldsson A, Löve A, et al. Burden of rotavirus disease in young children in Iceland - Time to vaccinate? Vaccine. 2021;39(38):5422-5427.
https://doi.org/10.1016/j.vaccine.2021.07.053
PMid:34384634
 

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica