05. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Dagur í lífi taugalæknis í Gautaborg


06:00
Vakna við vekjaraklukkuna. Snúsa í 20 mínútur. Fer fram úr með Hrólfi, 8 ára, sem er A-týpa eins og mamma sín. B-týpur heimilisins, eiginmaðurinn Kristján og Birta, 6 ára, sofa áfram.

06:40 Hafragrautur og kaffibolli. Græja morgunmat fyrir börnin. Vanalega er það mitt hlutverk að koma börnunum í skólann þar sem skurðlæknirinn Kristján byrjar vinnudaginn fyrr. Í dag er hann þó á kúrsi sem byrjar seinna. Skokka því ein út á sporvagnastöð í rólegheitunum.

07:45 Komin í vinnuna á taugadeildina á Sahlgrenska. Ég starfa að mestu við meðferð sjúklinga með heilablóðfall en sé einnig sjúklinga með aðra taugasjúkdóma þegar ég er á göngudeild og húsvöktum. Í dag er ég sérfræðingur á rauða teyminu á heilablóðfallsdeildinni. Þar liggja veikustu sjúklingarnir, meðal annars þeir sem fá segaleysandi meðferð, hafa gengist undir segabrottnám og sjúklingar með stórar heilablæðingar. Við tökum á móti sjúklingum til segabrottnáms úr öllu „regioninu“ og einnig frá nærliggjandi svæðum.

08:00 Morgunrapport. Tveir sjúklingar gengust undir segabrottnám í nótt. Að meðaltali er gert eitt segabrottnám á sólarhring á Sahlgrenska en fjöldinn eykst á hverju ári með betri greiningu og bættum verkferlum.

09:30 Stofugangur. Sjúklingum næturinnar vegnar vel. Ung kona með innanskúmsblæðingu af völdum RCVS (reversible cerebral vasoconstriction syndrome) kom á deildina af gjörgæslunni í gærkvöldi og er í stöðugu ástandi. Í vaktsalnum liggur einnig ungur maður með heilablæðingu sem fylgikvilla af septísku segareki af völdum hjartaþelsbólgu.

10:45 Kollegi minn sem er á „stroke-- larm“ vaktinni í dag, það er tekur á móti bráðaheilablóðfallssjúklingum, kemur upp á deild með konu sem hefur fengið stóra heilablæðingu af völdum háþrýstings. Teymið á deildinni tekur á móti sjúklingnum og okkur tekst að ná blóðþrýstingnum niður fljótt. Mikilvægt að fylgjast náið með meðvitund og lífsmörkum.

11:15 Röntgenfundur. Óvenju langur fundur í dag, mörg snúin og áhugaverð tilfelli skoðuð og rædd.

12:05 Er trufluð á leiðinni í hádegismat með kollegunum. Einn af sjúklingunum á teyminu mínu, eldri maður, hefur misst meðvitund þar sem hann sat og borðaði hádegismat. Hann andar ekki, blóðþrýstingur er ómælanlegur og púlsar daufir. Við hefjum endurlífgun og hreinsum matarleifar úr kokinu. Sjúklingurinn kemst fljótt til meðvitundar þar á eftir.

13:00 Deildarvinna. Deili út verkefnum til undirlæknanna. Panta og fara yfir rannsóknir, ordinera lyfjameðferð, hringja í ættingja, skrifa nótur og þess háttar.

14:20 Við tökum á móti nýjum sjúklingi. Maður sem kom inn með helftarlömun og sjónsviðsskerðingu. Gekkst undir segabrottnám og fékk stoðnet í aftari heilaslagæð. Er nú betri hvað varðar hreyfigetu en sjónsviðið er ennþá skert.

15:30 Seinni flettifundur með hjúkrunarfræðingi. Gef svo rapport til kollegans sem er bakvakt í kvöld og nótt. Við erum með tvær bakvaktalínur, almenna taugabakvakt og heilablóðfallsbakvakt, og oftast nóg að gera hjá hvorum tveggja.

16:45 Vinnudagurinn er búinn. Kristján hefur sótt börnin í skólann og farið með Birtu í fimleika. Ég get því hlaupið heim, gott að sleppa við kösina í sporvagninum. Kem við í búð á leiðinni og kaupi í matinn.

18:30 Elda kvöldmat. Hlýði Hrólfi yfir heimalærdóminn. Hátta svo börnin og les fyrir þau fyrir svefninn.

20:30 Sest fyrir framan tölvuna og ætla að gera eitthvað gáfulegt en gefst fljótt upp og kasta mér í sófann fyrir framan sjónvarpið.

22:30 Hef víst sofnað á sófanum (ekki í fyrsta skiptið). Færi mig í rúmið.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica