05. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Læknablaðið 1915: Sýkingar í hornhimnu fyrr og nú

Úr fyrsta árgangi Læknablaðsins 1915

María Soffía Gottfreðsdóttir, augnskurðlæknir og lektor við Háskóla Íslands, rýnir í fyrsta árgang Læknablaðsins 1915 og leggur mat á grein frá þeim tíma. 

 

Andrés Fjeldsted
Ulcus corneae serpens. Optochin

Læknablaðið 1915; 1: 49-52

 

Af sjúkdómum í sjáaldri, er enginn eins hættulegur fyrir sjónina hér á landi, eins og skriðsárið, enn sem komið er.

Þetta er líka sá augnsjúkdómur, sem héraðslæknar verða að þekkja og kunna að fara með, því að enginn tími gefst til þess að senda þessa sjúklingar frá sér, sé um lengri vegalengdir að ræða.

Virðist mér því ekki úr vegi, að lýsa orsökum sjúkdómsins nokkuð, og meðferð, sérstaklega vegna þess, að nú hefir nýlega verið fundið nýtt meðal gegn þessum sjúkdómi, sem mér og öðrum hefir reynst mæta vel, og gerir meðferðina mun auðveldari.

95 pct. allra skriðsára orsakast af pneumokokkum (líka nefndir Frankel-Weishselbaums diplococcus, diplococcus pneumoniae, diplococcus lanceolatus). Í hinum tilfellunum eru það sérstaklega streptokokkar. En tvennt þarf til þess, að sjáaldrið sýkist af skriðsári. Fyrst og fremst þarf sjáaldrið að verða fyrir skemdum, og í öðru lagi þurfa áðurnefndar sóttkveikjur að komast í skemdirnar. Pneumokokkar eru oft í slímhúð augans, bæði án þess að orsaka bólgu, en líka geta þeir valdið slímhúðarbólgu, pneumokokconjunctivitis, og margir læknar munu hafa séð þann sjúkdóm í fyrravor og sumar, því að þá gekk hann mjög víða á landinu, og það er eftirtektarvert, að samtímis gekk hér mjög mannskæð lungnabólga.

Bezta ráðið til þess að skoða sjáaldrið, og sjá skemdir á því, er, eins og kunnugt er, að láta glugga speglast í sjáaldrinu, og sést þá af spegilmyndinni, ef nokkrar misfellur eru á yfirborði. Sjúklingur er látinn snúa að glugganum, og renna þannig til augunum, að smámyndin af glugganum flytjist yfir alt sjáaldrið. - Til að byrja með er erfitt að greina skriðsárið frá öðrum sárum; helzt má þekkja það af því, að öll fylgieinkenni eru áferðarmeiri, og að sárið, sem byrjar vanalega á miðju sjáaldri, og er aðeins eitt, stækkar óvenju fljótt. Fylgi þar með tárapokabólga og sé sjúklingurinn fullorðinn, er vissa fengin.

Meðferðin á þessum sjúkdómi var áður í fám orðum sú, fyrst og fremst að taka í burtu tárapokann, ef hann var sjúkur (exstirpatio sacci lacrymalis), sem er alls ekki vandalaust verk, lækna slímhúðarbólguna, ef nokkur var (t.d. með lapisvatni), atropin vegna lithimnubólgunnar og galvanbrenna sárið, sérstaklega holbekktu röndina, og endurtaka brunann, skyldi sárið aftur fara að skríða, og ennfremur kvalastillandi meðul, þegar þess var þörf.

En eins og eg tók fram í byrjun, hefir nýleg komið nýtt meðal á markaðinn, sem hefir reynst ágætlega, og sem mér hefir gefist tækifæri til að nota við tvo sjúklinga síðan í september, að eg fékk meðalið, og mér reyndist það sannkallað kraftameðal. Þetta meðal er æthylhydrocuprein, en optochin er vörunafnið á því, og er brúkað í uppleysingum sem optochinum hydrochloratum og í smyrsli sem optochinum basicum saman við vaselin, hvorttveggja í I pct. styrkleika.

Það er enginn smáræðis vinningur að hafa fengið þetta meðal. Nú má oftast lækna þennan hættulega sjúkdóm með augndropum einum saman, ef nógu snemma er byrjað að brúka þá, þar sem áður þurfti oft vandasama skurði. Sjónin verður miklu betri heldur en með brunaaðferðinni, eins og auðskilið er, því að alt af varð að brenna nokkuð út í það heilbrigða, sem gerði örið á sjáaldri stærra og þykkara, og oft eyðilagðist augað alveg, engin leið að stöðva sjúkdóminn. En optochinið læknar þó aðeins þau skriðsár, sem orsakast af pneumokokkum, meðalið verkar drepandi á þá eina.

 

María Soffía Gottfreðsdóttir, augnskurðlæknir og lektor við Háskóla Íslands:

Sýkingar í hornhimnu fyrr og nú

U10-Maria-Soffia-Gottfredsdottir„Augnveiki” virðist hafa verið afar algeng meðal almennings fyrr á tímum. Eitt aðal meðalið við augnveiki var að baða augun með jurtaseyði. Helstu heimildir um augnsjúkdóma á Íslandi á 19. öld er að finna í ársskýrslum héraðslækna til landlæknis. Í skýrslum sínum greina þeir nær eingöngu frá sjúkdómum í augnlokum og augnslímhúð. Þeir minnast ekki á gláku, drer eða aðra alvarlega augnsjúkdóma. Þeir greina frá augnangri (sem í dag er kallað slímhimnubólga eða conjunctivitis) oft samfara glærubólgu (keratoconjunctivitis) sem virðist hafa verið algengur sjúkdómur. Ástæðan fyrir því að héraðslæknar vissu lítil deili á augnsjúkdómum var sú að augnsjúkdómar voru ekki kenndir við íslenska læknaskólann fyrr en í lok 19. aldar. Björn Ólafsson (1862-1909) var fyrsti sérfræðimenntaði læknirinn á Íslandi en hann nam augnlækningar í Kaupmannahöfn 1889-1890. Eftir andlát Björns, tók Andrés Fjeldsted við störfum hans en hann hafði sérmenntað sig í augnlækningum í London, Kaupmannahöfn, Edinborg, Osló og Vínarborg.1

Í fyrsta árgangi Læknablaðsins í apríl 1915, birtist grein eftir Andrés Fjeldsted sem ber heitið Ulcus cornea serpens. Optochin.

Íðorðasafn lækna skilgreinir ulcus sem löskun á yfirborði húðar eða slímu vegna vefjataps, oft samfara bólgu. Læknisfræðiorðabók Stedmans er þó enn nákvæmari: Meinsemd í yfirborði húðar eða slímhúðar sem stafar af yfirborðslægu vefjatapi, oftast með bólgu. Íðorðasafn lækna tilgreinir sömu íslensku heitin: sár, særi.2

Ulcerative keratitis er hugtak í augnlæknisfræði sem tekur yfir sjúkdómaflokk í hornhimnu augans þar sem yfirborðsþekjan er rofin með bólgu samfara rofi á hornhimnubandvef (keratolysis) og getur ef ómeðhöndlað leitt til rofs á hornhimnu (corneal perforation) og blindu. Í hornhimnubólgu (keratitis) sjást hvítir blettir á yfirborðinu sem eru tilkomnir vegna íferðar hvítra blóðkorna.3

Hugtakið í grein Andrésar, ulcus cornea serpens (skriðsæri á glæru; serpens er latína og þýðir bogadregnar línur) kemur fyrir í eldri kennslubókum og heimildum um augnsjúkdóma. Sýkingar í hornhimnu virðast hafa verið algengar en í dag er þetta hugtak ekki lengur notað en vísar til sýktrar hornhimnubólgu með greftri í forhólfi, líka kallað hypopyonkeratitis. Sáramyndandi hornhimnubólga (central ulcerative keratitis), eins og lýst er í greininni, orsakast yfirleitt af ýmsum bakteríum, sveppum og veirum en amöbusýkingar sjást einnig.

Horfur ráðast af því hversu svæsin sýkingin var í upphafi og hvort mikil töf hefur orðið á réttri greiningu.

Í grein Andrésar lýsir hann sjúkdómsgreiningunni með spegilmynd af hornhimnunni og „þegar sárið fer að éta sig greinilega út til randanna einhversstaðar, svo holbekkt verður röndin, sárið fer að skríða, gröftur kemur í fremra augnahólf (hypopyon) og lithimnubólga, þá er vandalaust að þekkja sjúkdóminn. Á þessum tíma höfðu augnlæknar aðgang að smásjá í Læknaskólanum og gátu greint bakteríur úr graftarútferð. Á þessum tíma stóð læknisfræðin á tímamótum, bæði hvað varðar þróun nýs tækjabúnaðar og byltingakenndra meðferða við sýkingum. Andrés lýsir nýrri meðferð með lyfinu optochin (ethylhydrocupreine hydrochloride) sem er kínín-afleiða og kom á markað 1911 og var notað til að meðhöndla pneumokokka- sýkingar. Lýsir hann lyfinu sem „kraftameðali” í meðhöndlun skriðsára af völdum pneumokokka en áður var brunameðferð beitt þar sem sjúkur og heilbrigður vefur var brenndur en einnig var stundum framkvæmd ástunga ef gröftur var í forhólfi (hypopyon). Þá var gefið atrópín og joðóform en einnig var calomel (hydrargyrum chloratum) notað við meðhöndlun á glærusárum. Horfur voru slæmar og gat sjúkdómurinn leitt til blindu.

Mjög mikið hefur breyst á þeim 110 árum sem liðin eru. Í greininni er skoðun á fremri hluta augans lýst og er hún framkvæmd með því að láta glugga speglast í sjáaldrinu þannig að misfellur sjáist á yfirborðinu á spegilmyndinni.

Alvar Gullstrand (1862-1930) hannaði rauflampa (slit- lamp biomicroscopy) og fékk Nóbelsverðlaun árið 1911 fyrir „Work on diffraction of light by lenses as applied to the eye”. Það var hins vegar ekki fyrr en 1958 að rauflampi framleiddur af Haag Streit kom á markað og var tilkoma hans bylting í greiningu augnsjúkdóma. Í dag er varla nein augnskoðun framkvæmd án þess að nota rauflampaskoðun. Sýkt hornhimnusár eru greind með því að skoða fremri hluta augans í rauflampa og eru sýni/skaf tekin úr sárinu og sýninu sáð beint á agarskál. Eftir að sýni hafa verið tekin og send til frekari greiningar á sýklafræðideild er ráðlagt að hefja meðferð með breiðvirkum sýklalyfjum. Yfirleitt er meðferð hafin með flúorókínólón-augndropum og síðan hugsanlega breytt eftir niðurstöðum ræktunar. Ef vísbendingar eru um að sýking sé einnig í hvítu eða mjúkvefjum kringum augað er einnig hafin kerfisbundin sýklalyfjameðferð.3

Gríðarlegar framfarir hafa orðið á öllum sviðum í greiningu og meðferð augnsjúkdóma á síðastliðnum áratugum. Þrátt fyrir veikburða tækni og fá meðferðarúrræði fyrir 110 árum er aðdáunarvert hversu sjúkdómsgreiningar frá þessum tíma bera vott um mikinn lærdóm og seiglu við erfið vinnuskilyrði. Notuð var smásjá til greiningar og þess freistað að beita markvissari lyfjameðferð við sýkingum en áður tíðkaðist. Þessi tími markar því einnig upphaf nútímalegri og vísindalegri vinnubragða í læknisfræði.

Heimildir

1. Björnsson G. Brugðið upp augum. Saga augnlækninga á Íslandi frá öndverðu til 1987. Reykjavík 2001; 87-201.
 
2. Jóhannsson JH. Nokkur orð um sár. Læknablaðið 2005; 91: 697.
 
3. American Academy of Ophthalmology. BCSC 2020-2021. External disease and cornea. San Francisco 2020: 266-73.

 

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica