05. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Jafnréttisstofa vill funda með Landspítala

 Jafnréttisstofa undrast að Landspítali hafi fengið jafnlaunavottun með 20% vikmörkum. Formaður Læknafélags Íslands segir svo há vikmörk veita falskt öryggi fyrir jöfnum launum.

„Það kemur Jafnréttisstofu á óvart að aðilar notist við 20% vikmörk í greiningu útlaga og fái jafnlaunavottun á þeim grunni. Jafnréttisstofa mun því óska eftir fundi með fulltrúum Landspítala og viðkomandi vottunaraðila til að fara yfir málið,“ segir Katrín Björg Ríkarðsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu í svörum til Læknablaðsins.

Læknablaðið sagði frá því í apríl hvernig þrír kvenkyns læknar, ráðnir árið 2019 á Barnaspítalann, komust að því að fimm karlkyns barnalæknar sem ráðnir voru á eftir þeim fengu hærri laun en þær. Laun þeirra voru afturvirkt leiðrétt. Útlagagreining vottunarinnar hefði engan sérfræðilækni gripið. Vikmörkin 20% og stefnt sé á að lækka þau í 15%.

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, segir lækna verða að geta gengið út frá því að launasetningin á Landspítalanum sé rétt. „Við þurfum gagnsæi. Landspítali ætti að veita aðgang að tölfræði sem læknar geti skoðað. Laun á heilbrigðisstofnunum hins opinbera mega ekki vera feluleikur,“ segir hún, en um leið sé hægt að gæta persónuverndar. Hún hafi kynnst því í störfum sínum í Svíþjóð. „Jafnlaunavottun með 20% vikmörkum veitir ekkert nema falskt öryggi.“

Jafnréttisstofa bendir á að lög um að kynin eigi að njóta sömu kjara fyrir sömu og jafn verðmæt störf séu skýr. Jafnlaunavottun fáist að undangenginni úttekt vottunaraðila. „Það er því hlutverk vottunaraðila að tryggja að fyrirtæki og stofnanir uppfylli þær kröfur sem gerðar eru,“ segir Katrín Björg.

Gná Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Versa vottunar, bendir á að samkvæmt jafnlaunastaðli ÍST 85 sé það ekki hlutverk vottunaraðila að greina hvort um launamun sé að ræða hjá stofnunum. Þeirra sé eingöngu að meta hvort jafnlaunakerfið sem stofnanir setja sér uppfylli kröfur staðalsins; hvort stofnanirnar hafi sett sér áætlun um aðgerðir til að draga úr launamun, hafi komið í ljós að hann sé til staðar.

„Það er því okkar að sjá um að stofnanirnar setji sér viðmið, en ekki hvaða viðmið,“ segir hún. „Landspítalinn er með vottun og viðheldur henni, sem þýðir að hann uppfyllir kröfur staðalsins.” Almennt séu stjórnunarkerfi sett út frá staðli og þau svo þroskuð í ferlinu.

Læknablaðið óskaði eftir samanburði. Háskóli Íslands hefur ekki vikmörk heldur styðst við tvíþætta greiningu frávika. Skoðar árlega þá 50 starfsmenn sem skera sig úr. Einnig kerfisbundið þá sem skera sig mest úr í sérstöku smáforriti. Vikmörkin eru 10% hjá Fjársýslu ríkisins.

Gerða Björg Hafsteinsdóttir, verkefnastjóri á mannauðssviði Sóltúns heilbrigðisþjónustu, rannsakaði jafnlaunavottun í meistaranámi sínu og segir hana ákveðna skrautfjöður. Hún auki trúverðugleika atvinnurekenda í launamálum, sem fái með henni ákveðinn gæðastimpil um að launaákvarðanir þeirra séu teknar á hlutlægan og málefnalegan hátt án mismununar.

„En launamunur getur verið til staðar svo fremi sem hann er rökstuddur og fyrir honum liggja málefnalegar ástæður sem vottunaraðili svo samþykkir. En lítið sem ekkert er fylgst með vottunaraðilum og úttektaraðferðir þeirra eru jafnframt ólíkar,“ segir hún, en fjórir aðilar hafa vottunarleyfi.

„Já, jafnlaunavottun getur því veitt falskt öryggi, því þótt hún hafi meðal annars aukið yfirsýn og bætt skipulag launamála, þá geta skapast aðstæður sem leiða til þess að atvinnurekendur hljóti jafnlaunavottun þótt kynbundinn launamunur sé til staðar.“ Rétt eins og virðist hafa gerst á Barnaspítalanum.

Óleiðréttur launamunur karla og kvenna hér á landi var 9,1% árið 2022 og dróst saman um 1,1 prósentustig milli ára, samkvæmt Hagstofunni. Gerður segir ljóst að á þeim árum sem jafnlaunavottun hefur gilt, hafi sá munur ekki minnkað sem skyldi.

Læknablaðið óskaði eftir viðbrögðum jafnréttisráðherra, Bjarna Benediktssonar, en fékk ekki í tæka tíð.Þetta vefsvæði byggir á Eplica