05. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Breyting á Læknablaðinu: Védís kveður

Áralöngu starfi Védísar Skarphéðinsdóttur ritstjórnarfulltrúa lýkur nú með birtingu þessa blaðs.

Védís hefur verið ritstjórnarfulltrúi Læknablaðsins í 22 ár og er því flestum íslenskum læknum vel kunn. Læknar hafa fengið góða aðstoð við birtingu síns efnis, hvort sem um var að ræða fræðilegt efni eða annað hefur Védís með fagmennsku sinni gert gott efni betra. Þegar Læknablaðið undir ritstjórn Vilhjálms Rafnssonar innleiddi samstarf við gagnabanka alríkislæknisfræðibókasafnsins Medline (National Library of Medicine) árið 2005 og komst þannig í leitarvél Pub-Med sá Védís um þá innleiðingu og uppsetningu ScholarOne sem læknar og aðrir sem birt hafa fræðigreinar í Læknablaðinu, sem og ritrýnar blaðsins þekkja vel. Hún hefur verið okkur sýnileg á ýmsum fundum Læknafélags Íslands og átt þátt í að flytja efni af þeim og myndir í Læknablaðinu sem og ýmislegt annað efni sem hún hefur tekið saman og birt í blaðinu í gegnum árin. Við starfi Védísar tekur nú Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir sem hefur verið blaðamaður Læknablaðsins síðustu ár.

Fyrir hönd Læknafélags Íslands, ritstjórna og ritstjóra fyrr og nú er Védísi þakkað fyrir langvinnt og faglegt starf hjá Læknablaðinu og óskað heilla með allt sem framtíðin ber í skauti sér henni til handa.

Megi vorið og sumarið taka vel á móti Védísi.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica