04. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Bókin mín. Enginn er eyland. Halldór Jónsson

Hvaða bók hefur fylgt þér lengst, þú hefur lesið oftast eða haft mest áhrif á þig?

Þegar kom að því að velja „Bókina mína“ hvarflaði hugurinn að þremur bókum sem allar eru vel þekktar og margir hafa lesið: Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson er sjálfsævisaga sem lýsir uppvaxtarárum drengs sem elst upp í örbirgð og harðræði fyrir aðeins rúmum hundrað árum, fyrir daga jafnaðarstefnu og velferðarkerfis. Bókin er feikilega vel skrifuð og kaflinn „Ljósið í tóttinni“ er sá sem ég hef lesið oftast um dagana. Veröld sem var eftir Stefán Zweig er einnig sjálfsævisaga og gerist á svipuðum tíma en lýsir ævidögum rithöfundar sem ásamt vinum sínum býr við ótrúlega velgengni í fjölmenningarsamfélagi þar sem allir búast við enn meiri framförum. Hins vegar leiðir þjóðernisofstæki, útlendingaandúð og hernaðarhyggja til einræðis, heimsstyrjaldar og þjóðarmorðs. Loks skal nefna skáldsögu eftir José Saramago, Blindu, sem lýsir því hvernig siðmenntað samfélag hrynur í kjölfar heimsfaraldurs og siðblindingjar taka völdin.

 

Í þetta sinn er Bókin mín skáldsagan Brestir í Brooklyn eftir bandaríska rithöfundinn Paul Auster, sem er hans tólfta og kom út árið 2005 og ári síðar í ágætri þýðingu Jóns Karls Helgasonar. Auster kom á Bókmenntahátíð þetta sama ár og las upp fyrsta kaflann í bókinni og var flutningnum útvarpað. Ég heillaðist af fyrstu setningunni: „I was looking for a quiet place to die“. Sannarlega merkileg byrjun á fyrstu persónu frásögn á 270 blaðsíðum. Ég las hana fljótlega eftir þetta á frummálinu og síðari lestrar í þýðingu hafa ekki dregið úr hrifningu minni.

Bókin er frásögn Nathans Glass, tæplega sextugs fyrrum tryggingasala, sem er nýfráskilinn og þolir ekki einkadótturina. Að aflokinni krabbameinsmeðferð ákveður hann að verja síðustu dögum „síns sorglega og fáránlega lífs“ á frumbernskuslóðunum í Park Slope hverfinu í Brooklyn. Hann hefur engan áhuga á að kynnast meðborgurum sínum en vill frekar skrá bresti og ambögur þeirra og sjálfs sín. Engu að síður býr hann að eigin sögn yfir eðliskostum góðs sölumanns: Hann er næmur á fólk og góður að hlusta og hann veit hvernig á að heilla fólk.

Straumhvörf hljóta að koma og þau verða þegar hann rekst fyrir tilviljun á Tom, systurson sinn. Sá var efnilegur doktorsnemi við Michigan-háskóla í Ann Arbor en lauk aldrei við ritgerðina og hefur dagað uppi í fornbókaverslun, þunglyndur, akfeitur og uppgefinn. Í kjölfarið koma til sögunnar fleiri persónur sem hafa gefist upp á lífinu eða eiga við tilvistarvanda að stríða: Samkynhneigði bóksalinn Harry er heillandi persóna með skuggalega fortíð sem eltir hann uppi. Aurora, systir Toms, sem eftir feril í klámiðnaðinum er föst í ofbeldisfullu hjónabandi með ofsatrúarmanni. Lucy, níu ára dóttir Auroru, birtist heima hjá Tom en neitar að tala. „Fallega, fullkomna móðirin“ Nancy er ofmetin af einum og vanmetin af öðrum. Þetta er sagan af því hvernig þeir frændurnir finna aftur lífsneistann og með afskiptum sínum eða fyrir tilviljanir ná að smita samferðamenn sína af lífslöngun og -gleði. Höfundurinn hefur sagt að þetta sé eina skáldsaga sín þar sem meirihluti persónanna er ánægður í lokin.

Sagan gerist á rúmu ári eftir sumarið 2000 og í fjarlægum bakgrunni er kosningabarátta Als Gore og George Bush og síðan málaferlin í kjölfar kosninganna. Maður fær á tilfinninguna að höfundurinn vilji koma á framfæri frjálslyndi og umburðarlyndi. Í því skyni hikar hann ekki við að beita uppskrúfuðum stíl og tilfinningasemi, jafnvel væmni, sem heillaði ekki gagnrýnendur. Eins og oft hjá Auster, eru tilvísanir í heimspeki og bókmenntir; í þetta sinn meðal annars með sögum af Kafka og Wittgenstein og einræðu Toms um samanburð á Poe og Thoreau. Bókin endar reyndar með hvelli og óvissu um hvað framtíðin ber í skauti sér.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica