03. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Á þriðja hundrað lækna í sérnámi hér á landi segja kennslustjórarnir

„Við erum að tryggja mönnun til framtíðar,“ segir Gunnar Thorarensen, yfirlæknir sérnáms lækna á Landspítala. Um 180 læknar stunda sérnám á Landspítala og vel á þriðja hundrað á landinu öllu. Gunnar og Elínborg Bárðardóttir, kennslustjóri í heimilislækningum, benda á að allflestir þessara lækna væru erlendis væri sérnám hér á landi ekki í boði. Staðan er gjörbreytt á tæpum áratug

Aldrei hafa jafn mörg stundað sérnám í lækningum hér á landi, eða um 240, þar af 180 á Landspítala. Flest eru í sérnámi í heimilislækningum, eða um 100. Um 40% þeirra á spítalanum hverju sinni.

Gunnar Thorarensen, yfirlæknir sérnáms lækna á Landspítala, segir meðvitaða stefnumörkun fyrir tæpum tíu árum marka þessa stökkbreyttu stöðu. Áður hafi meginþorri lækna sótti sérnám utan landsteinanna.

Elínborg Bárðardóttir og Gunnar Thorarensen segja læknastéttina standa styrkari eftir því sem fleiri sækist í sérnám hér á landi í stað þess að menntast utan landsteinanna. Mynd/gag

„Við erum að tryggja mönnun til framtíðar, því ákveðinn hluti þeirra sem fara erlendis í sérnám skilar sér ekki heim,“ segir hann. „Við minnkum spekilekann þegar við bjóðum sérnám hér heima.“

Elínborg Bárðardóttir, kennslustjóri í sérnámi í heimilislækningum, segir um 20 lækna útskrifast sem heimilislæknar hvort ár á næstu tveimur árum. Stefnt sé að því að þeir séu að jafnaði 15 á ári.

„Ég veit ekki hvar við værum ef þetta væri ekki staðreyndin. Við erum í rauninni að uppskera núna,“ segir hún. Heimilislækningar hafi verið kenndar hér á landi frá aldamótum. Prógrammið sé í fremstu röð á Norðurlöndunum.

Gunnar segir heilbrigðisþjónustuna betri og starfsumhverfið bæði skemmtilegra og öruggara með sérnámslæknum. Landslagið í læknastéttinni hafi breyst mikið síðasta áratug. Nú fylli hana ekki aðeins almennir læknar og reynsluboltar komnir heim eftir veru sína og nám erlendis. Læknum í sérnámi á spítalanum hafi fjölgað úr 120 árið 2016 í 180 á þessum átta árum.

„Það njóta allir góðs af þessu módeli. Sérstaklega þeir sem þiggja þjónustuna en líka læknar sem geta nú fengið frábæra menntun hér heima,“ segir hann. Undir það tekur Elínborg. Þau segja hæfnisdreifinguna innan stéttarinnar meiri. „Já, og eðlilegri starfsþróun í boði,“ segir Gunnar og mikilvægt sé að tryggja gæði námsins.

„Við tökum alvarlega að hér sé veitt sérnám í hæsta gæðaflokki,“ segir hann. „Við höfum unnið í nánu samstarfi við alþjóðlega aðila.“ Erlendir eftirlitsaðilar taki námið út sem og þá sem handleiði.

„Það er afar mikilvægt að við veitum þeim sem mennta sig hér á landi loforð um vottuð handtök.“ Fyrirkomulagið hafi vakið áhuga erlendra lækna sem nú sækist í meira mæli eftir því að komast hingað í sérnám. „Færri komast að en vilja í mörgum sérgreinum,“ segir hann.

Auk þeirra 100 sem stunda fullt sérnám í heimilislækningum segir Gunnar að um 45 á hverjum tíma séu í sérnámi í almennum lyflækningum, sem sé það stærsta á spítalanum. Fullt sérnám sé einnig í boði bráðalækningum, geðlækningum, barna- og unglingageðlækningum.

„Þá er nú í fyrsta sinn í boði fullt sérnám í bæklunarskurðlækningum en auk þess er hlutasérnám í boði í 10 öðrum sérgreinum,“ bendir hann á. Bæði fagna þau því að íslenska heilbrigðiskerfið fái nú að njóta starfskrafta lækna á blómaskeiði sínu.

„Þessi þróun hér er mikill fengur fyrir Ísland og sérnámslækna,“ segir Gunnar.

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica