02. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Hugleiðingar um menntun. Inga Sigurrós Þráinsdóttir

Allt frá fyrstu námsárunum hef ég verið áhugasöm um kennslu, svo mjög að í fyrstu ætlaði ég mér að verða kennari. Ber mikla virðingu fyrir kennurum. Ég hóf skólagöngu mína í Melaskóla sex ára gömul, líkt og reglur kveða á um. Full tilhlökkunar mætti ég, spennt fyrir framtíðinni. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum og sóttist námið ágætlega. Félagslega gekk einnig vel og á ég enn kærar vinkonur frá fyrstu árum skólagöngunnar. Námsefnið höfðaði til okkar og við fengum aukaverkefni ef þurfti, undir handleiðslu okkar frábæra umsjónarkennara, Dúu Stefaníu Hallgrímsdóttur. Við sáum einnig að þeir sem áttu undir högg að sækja virtust fá aðstoð við hæfi. Ætli megi ekki segja að um einstaklingsmiðað nám hafi verið að ræða.

Í lok síðasta árs voru birtar niðurstöður PISA-könnunarinnar. Þar komu í ljós slakar niðurstöður fyrir okkar besta fólk. Lesskilningi var sérstaklega ábótavant. Svo virðist sem námsárangursmati íslenskra grunnskóla hafi farið hnignandi mörg undanfarin ár.

Inga við ómtækið á Reykjalundi um daginn. Andrea Hlín Harðardóttir hjúkrunarfræðingur tók myndina.

Hermundur Sigmundsson prófessor hefur í mörg ár skrifað greinar í dagblöð um að við Íslendingar værum á rangri leið hvað varðar lestrarkennslu og hefur bent á úrbótaleiðir. Eftir síðustu könnun getum við væntanlega öll tekið undir að Hermundur hafi haft á réttu að standa. Kann það til dæmis að vera að hljóðlestrarkennsla geti hentar betur en ætlað hefur verið? Hentar Byrjendalæsi síður til lestrarkennslu? Getur verið að mat með lestrarhraða sé óhentugt og gefi neikvæð skilaboð til nemenda um eigin lestrargetu? Erum við kannski ekki að ná til grunnskólanemenda í dag? Líklega ekki. Ályktun árangursmatsins hlýtur að vera að endurskoða þurfi lestrarkennslu og bæta lesskilning á hverju námsstigi.

Gæðamat hefur sýnt góðar forsendur fyrir framtíðina; nemendum líður yfirleitt vel í skólunum. Framþróun hefur einnig orðið í lestrarkennslu fyrir þá sem eiga við lestrarörðugleika að etja og er það frábært. Því virðist einstaklingsmiðað nám mjög mikilvægt og það, auk vellíðunar, forsenda námsárangurs og námsgleði.

Sonur minn lauk grunnskólanámi nýverið. Í lok skólagöngunnar kynntu nemendur lokaverkefni sín fyrir aðstandendum. Nemendurnir voru bæði kvíðnir og spenntir fyrir því. Sumum hópum gekk ágætlega en öðrum síður. Hreinskilnislega var íslenskukunnátta margra slök, svo mjög að mig grunar að almennt eigi sum þeirra erfitt með að tjá sig á íslensku. Í þessum hópi skilst mér að séu nemendur frá 10 þjóðlöndum að Íslandi meðtöldu. Sum nýkomin til landsins á meðan ég veit að önnur hafa verið búsett hér mest alla grunnskólagönguna. Því vakna spurningar. Hvers vegna eru börn á grunnskólaaldri sett beint inn í hefðbundinn grunnskóla við komuna til landsins. Þau hvorki tala né skilja tungumálið og hljóta að eiga mjög erfitt með að tileinka sér námsefnið sem farið er yfir. Þeim hlýtur líka að líða illa með þetta og vera hrædd. Sitja þau þá mörg hver ekki uppi með að vera eftir á, skilja og kunna tungumálið ekki nægilega vel og verða þar af leiðandi síður með sjálfstraust eftir grunnskólagönguna.

Danir eru með sérstaka móttökuskóla fyrir grunnskólanemendur sem flytja til landsins. Þar er áhersla fyrst og fremst á að kenna þeim dönsku. Danskan verður þar með samnefnari þessara barna sem koma alls staðar að úr heiminum. Þegar þau eru metin með grunnkunnáttu í dönsku færast þau í hefðbundnu grunnskólana og taka þar þátt á jafnréttisgrunni. Líður börnum ekki betur ef skólaganga þeirra er skipulögð þannig?

Það eru ansi margar spurningar sem hafa vaknað í mínum huga um skipulag grunnskólanáms. Við getum gert svo mikið betur og ég vona að menntamálayfirvöld, bæjaryfirvöld og skólastjórnendur beri gæfu til að láta nú verða af breytingum og setja vandamálin ekki bara í nefnd. Framtíð barnanna og þeirra grunnstoða sem þau munu mynda í samfélaginu er í húfi.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica