02. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Læknadagar 2024. Mistök að fækka úrræðum segir Sigurður Páll Pálsson, yfirlæknir á réttaröryggisdeild Landspítala
Stefnt er að nýrri deild á Kleppi fyrir ósakhæfa fanga með alvarleg geðræn veikindi. Þetta segir yfirlæknir réttaröryggisdeildarinnar sem bendir á brotalamir í kerfinu. Hér hafi plássum fækkað. Þau séu nú helmingi færri en í Noregi
„Horfast verður í augu við að plássum hefur verið fækkað á geðsviðinu. Það eru mikil mistök,“
Sigurður Páll hélt erindið Þjónusta geðsviðs Landspítalans við fanga með alvarleg geðræn veikindi á málþinginu Geðheilbrigðisþjónusta við fanga á Læknadögum þann 17. janúar. Hann ræddi við Læknablaðið í aðdragandanum og nefnir til að mynda að það hafi verið mistök að leggja niður Gunnarsholt fyrir langt leitt fólk með fíknisjúkdóma en starfsemin hafi þá verið komin í nýtískuhúsnæði á Kjalarnesi.
Sigurður Páll Pálsson, yfirlæknir réttaröryggisdeildar Landspítala, talaði á Læknadögum um þjónustu geðsviðs Landspítala við fanga með alvarleg geðræn veikindi. Mynd/gag
„Þessi þróun gerði ráð fyrir að félagsmálayfirvöld og sveitarfélög myndu sinna þessum hópi en við vitum að þeim fjölgar sem eru heimilislausir. Við höfum leyft okkur að samþykkja fækkun úrræða. Bara það voru mistök. Nú veit ég að fólk sér að það þarf að gefa í. Við stefnum að því að bæta við deild á Kleppi. Það veitir ekki af, því þeir sem þurfa langan tíma til að ná bata þurfa að vera á endurhæfingardeildum í lengri tíma.“ Róðurinn sé þungur.
Sigurður Páll segir engu skipta hver komi á réttar- eða öryggisdeildina, fangar eða fólk frá öðrum stofnunum. „Þetta eru einstaklingar sem verða veikir. Greina þarf þá rétt og veita bót meina sinna.“
Hann segir að rætt hafi verið um nýju deildina á Kleppi í mörg ár. „En núna er loksins búið að samþykkja hana en hætta er á að hún verið ekki tilbúin fyrr en í fyrsta lagi eftir ár. Sú deild mun hjálpa en það þarf líka að gefa í varðandi þjónustuna sem sveitarfélögunum ber að veita fyrir hópa sem eru í þörf fyrir sérstakan stuðning við búsetu sína,“ segir hann. „Góð búseta með stuðningi er mikilvægur kjarni í bata geðsjúkra.“
Sigurður segir vanrækslu víða sjáanlega í heilbrigðiskerfinu. Hvort sem litið sé til öldrunarþjónustu eða geðheilbrigðisþjónustu. Jákvætt hafi verið að réttargeðdeildin að Sogni hafi flust inn á Klepp í endurhannað húsnæði fyrir rúmum áratug.
„Við erum með helmingi færri pláss per/100.000 á réttargeðdeildum en Norðmenn. Við erum líka með helmingi færri pláss á almennu geðdeildinni en Norðmenn. Við erum langt á eftir. Þar liggur partur vandans.“
Hann segir að keðja þjónustunnar þurfi að halda frá greiningu að bata en nú sé staðan sú að reynt sé að útskrifa fólk eins hratt og hægt er. „Við værum að tala um allt annað líf ef við myndum tvöfalda plássin. Þá væri lengri vistunartími á geðsviðinu og betri stöðugleiki myndi nást hjá mörgum hópum sem eru veikir,“ segir hann.
„En samhliða yrði að efla og fjölga úrræðum úti í samfélaginu sem rekin eru af sveitarfélögum. Þar hefur verið lítil sem engin uppbygging síðasta áratug.“
Fíknivandinn skotist fram úr öðrum geðrænum vanda
Mikil aðsókn er á fíknideild Landspítala og umferðin þar í gegn er hröð, því það er ásókn í að komast þar að, segir Sigurður Páll Pálsson, yfirlæknir á réttaröryggisdeild Landspítala síðustu fimmtán ár.
Sigurður Páll segir fíknisjúkdóma fyrirferðarmeiri á geðsviði Landspítala en fyrir 30 árum þegar mest fór fyrir sjálfskaðahugsunum, þunglyndi, kvíða eða geðrofi.
„Hópur sem notar fíkniefni hefur orðið meira áberandi, fleiri eru komnir á götuna. Hópurinn sækir hingað og þangað til að komast í skjól,” segir Sigurður Páll. Bæði fangelsiskerfið og geðheilsukerfið glími við sama vanda. Aðstöðuleysi.
„Það vantar fleiri úrræði og mannauð. Fíklar í mikilli neyslu eiga á hættu að þróa viðvarandi geðklofa einkenni sem meðhöndla þarf. Það þarf að vera hægt að bjóða lengri og betri þjónustu.” Allt heilbrigðiskerfið hafi verið vanrækt.