02. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Læknablaðið í 110 ár. Frumkvöðlar í læknastétt. Að setja bólu – upphaf fyrirbyggjandi læknisfræði. Haraldur Briem

Með því að flytja vessa úr bólu bólusóttarsjúklings yfir á ósýktan einstakling – að setja bólu - má framkalla ónæmi fyrir bólusótt. Þessi aðferð er forn og ekki hættulaus. Gat leitt til dauða og valdið útbreiðslu bólusóttar.

Sveinn Pálsson

Árið 1786 barst bólusótt til Íslands og herjaði á Suðurlandi. Jón Sveinsson var þá landlæknir og hefur haft spurnir af því hvernig mætti setja bólu. Tækifærið nýtti hann þegar bólan barst til landsins og setti bólu á um 20 manns með óljósum árangri. Sveinn Pálsson, læknanemi hjá Jóni í Nesi, fylgdist með honum af áhuga og sendi föður sínum efni úr bólu með pósti norður í land, fólki til varnar. Einhver áhöld voru um það hvort þetta uppátæki hafi flýtt fyrir útbreiðslu bólusóttarinnar þar. Allavega kærði Stefán Þórarinsson amtmaður athæfið til stiftamtmanns. Jón Sveinsson varði nemanda sinn af þunga en þegar kom að því að Sveinn ætti að taka opinbert læknapróf skyldi það gert í nærveru amtmanns 1787. Ekki hefur Sveini litist á það og hélt til Kaupmannahafnar í læknis- og náttúrufræðinám. Hann lauk ekki læknanáminu en varð meðal okkar fremstu náttúrufræðinga.1

  Sveinn Pálsson (1762-1840)

Ekki leið á löngu þar til sýnt var fram á gagnsemi kúabólusetningar til varnar bólusótt. Árið 1802 ákváðu dönsk heilbrigðisyfirvöld að kúabólusetning skyldi hefjast hér á landi. Stundum var slegið slöku við bólusetningarnar á 19. öld en engum sögum fer af andstöðu við beitingu þeirra hér á landi eins og gerðist á Bretlandi.

Alla 19. öldina og þá næstu riðu yfir landið ýmsar alvarlegar og mannskæðar farsóttir eins og mislingar, barnaveiki og kikhósti, svo nokkrar séu nefndar. Eftir að ákvörðun var tekin um að hefja kúabólusetningu allra landsmanna gerðist ekkert frekar hvað varðar ónæmisaðgerðir í 125 ár. Framfarir í sýklafræði í lok 19. aldar og veirufræði á 20. öld leiddu til þess að þróuð voru bóluefni gegn ýmsum alvarlegum smitsjúkdómum.

Níels Dungal

Níels Dungal læknir fór ungur utan til náms í meina- og sýklafræði á þriðja áratug 20. aldar. Hann öðlaðist þar þekkingu á að búa til bóluefni gegn kikhósta. Hér á landi gengu kikhóstafaraldrar yfir á 6-7 ára fresti, stóðu í yfir í 6-12 mánuði með miklum barnadauða en hurfu þess á milli. Þegar nýr faraldur braust út 1926-1927 reyndi Níels að framleiða bóluefni með því að rækta kikhóstabakteríuna, gera hana skaðlausa og nýta í bóluefni sem vakti ónæmissvar gegn henni. Árangrinum af bólusetningunum er lýst í Heilbrigðisskýrslum frá 1927 af nokkru innsæi. Óljós árangur í Reykjavík var rakinn til þess að kikhóstafaraldurinn hafi þegar náð allmikilli útbreiðslu áður en bólusetningarnar hófust. Jafnframt var bent á að bólusetningarnar í mörgum héruðum landsins virtust vernda vel gegn kikhóstanum enda var faraldurinn seinna á ferðinni þar en í Reykjavík og bóluefnið fékk tíma til að virka. Smám saman varð ljóst að bóluefnið var árangursríkt og birti Níels vísindagrein um það sem birtist í Læknablaðinu 1942 og Ameríska læknablaðinu 1944.2

  Níels Dungal (1897-1965)

Enn kemur Níels Dungal við sögu þegar ráðist var gegn barnaveikinni. Vorið 1935 var í fyrsta sinn bólusett gegn henni. Áður hafði Rannsóknarstofa Háskólans í meinafræði, sem Níels veitti forstöðu, rannsakað tilvist mótefna gegn barnaveiki hjá börnum hér á landi, sem reyndist ófullnægjandi og líklegt talið að faraldur væri yfivofandi.3 Rannsóknarstofan hafði milligöngu um að útvega bóluefni en heilbrigðisyfirvöld stóðu að bólusetningarátakinu.Enginn stór faraldur kom og barnaveikin fjaraði smám saman út eftir að bólusetningar urðu almennar og þær gefnar með bóluefnum gegn kikhósta og stífkrampa.

Björn Sigurðsson

Á 4. og 5. áratug síðustu aldar jókst skilningur manna á veirusýkingum hröðum skrefum. Björn Sigurðsson hóf ungur störf á Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði, stundaði framhaldsnám í Danmörku og Bandaríkjunum og varð forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskólans í meinafræði að Keldum frá árinu 1947. Björn var frumkvöðull veirurannsókna á Íslandi og beindust rannsóknir hans meðal annars jöfnum höndum að veirusýkingum manna og dýra.

  Björn Sigurðsson (1913-1959)

Um miðja síðustu öld rannsökuðu Björn og félagar áhrif bólusetningar gegn inflúensu. Niðurstöður rannsóknanna bentu til þess að bóluefnið gæti verndað alveg eða að hluta til. Sumarið 1957 skall á heimsfaraldur inflúensu, Asíuinflúensan. Reyndist þá ekki unnt að fá neitt bóluefni erlendis frá. Því var gipið til þess ráðs að framleiða það á Keldum enda var þekkingin til staðar þar. Vegna takmarkaðrar framleiðslugetu þurfti að forgangsraða bólusetningunum. Af þessu má draga þann lærdóm að þegar nýr heimsfaraldur inflúensu ríður yfir með alveg nýjum mótefnavökum verður barist um hvern skammt af bóluefnum á heimsvísu og ekkert verður eftir fyrir okkur. Þá sýndi faraldurinn hvers við vorum megnug með okkar frábæru vísindamenn að Keldum. Rétt er að benda á hlut Júlíusar Sigurjónssonar, síðar fyrsta prófessorsins í heilbrigðisfræðum – fyrirbyggjandi læknisfræði – við Háskóla Íslands, við skipulag bólusetninga gegn barnaveiki og inflúensu.

Margrét Guðnadóttir

Margrét Guðnadóttir hóf sérfræðinám í veirufræði að Keldum hjá Birni Sigurðssyni og beindust rannsóknir þeirra að mænusótt og árangri mænusóttarbólusetninga sem hófust 1956. Mænusóttin hafði verið mikill skaðvaldur hér á landi sem annars staðar á 20 öld. Eftir að bólusetning hófst gegn mænusótt 1956 hvarf hún nánast eins og dögg fyrir sólu.

  Margrét Guðnadóttir (1929-2018)

Margrét kom á fót Rannsóknarstofu Háskólans í veirufræði við Landspítala, fylgdist með árangri bólusetninga gegn veirusóttum og veitti heilbrigðisyfirvöldum ráðgjöf. Árið 1977 hófst átak með bólusetningum sem miðaði að því að koma í veg fyrir sýkingu af völdum rauðra hunda hjá þunguðum konum og koma þannig í veg fyrir fósturskaða af völdum sjúkdómsins. Þessum bólusetningum var ekki ætlað að útrýma rauðum hundum eða faröldrum af völdum þeirra heldur að ná til þeirra 12 ára stúlkna sem ekki höfðu fengið náttúrulegt ónæmi gegn sjúkdómnum og hindra þannig fósturskaða af völdum rauðra hunda. Færði Margrét rök fyrir því að þessi háttur væri efnahagslega hagkvæmari en að bólusetja alla.5 En ekki er þó allt sem sýnist. Með því að láta faraldra af völdum rauðra hunda ganga yfir hjá börnum skapaðist iðulega óvissa um hvort ónæmi fyrir sjúkdómnum væri fullnægjandi. Einnig vaknaði sú spurning hvort það væri siðferðilega verjandi að láta faraldra rauðra hunda ganga yfir hér þegar okkar nágrannaþjóðir reyndu að bægja sjúkdómnum frá með almennum bólusetningum. Niðurstaðan varð sú að hafin var almenn bólusetning gegn rauðum hundum, mislingum og hettusótt 1989.

  Kristín E. Jónsdóttir (1927-2008)

Á síðari hluta 20. aldar og byrjun þeirrar 21. urðu framfarir í gerð bóluefna gegn bakteríusýkingum. Kristín E. Jónsdóttir lyflæknir og sýklafræðingur á sýkladeild Landspítala rannsakaði sýkingar af völdum Haemophilus influenzae hjúpgerð B (Hib) sem voru skæðar hér á landi hjá börnum yngri en 5 ára. Hófst bólusetning hér á landi 1989 gegn Hib og sýnt var fram að sú aðgerð nánast útrýmdi sjúkdómnum sem olli blóðsýklun og heilahimnubólgu.6

Nútíminn og bóluefni

Eftir aldamótin 2000 voru bóluefni boðin út í samræmi við lög og reglur. Á heimsvísu voru fá lyfjafyrirtæki sem þróuðu og framleiddu bóluefni enda kostnaðarsamt ferli. Þegar kom að því að framleiða bóluefni vegna heimsfaraldra af völdum nýrra stofna sýkla sem lítil sem engin mótstaða er fyrir, reyndist erfitt að fá lyfja-iðnaðinn til að taka þátt í áhættusömu ferli í þróun og framleiðslu með óvissu um virkni og hugsanlega skaðsemi bóluefnanna. Þegar óttinn um að fuglainflúensa gæti valdið skæðum heimsfaraldri um miðjan 10. áratuginn ráðgerðu Norðurlönd að hefja opinbera framleiðslu á bóluefna gegn heimsfaraldri inflúensu vegna aðgerðarleysis lyfjaiðnaðarins en sú samvinna rann út í sandinn. Var farin sú leið að gera framvirka kaupsamninga við lyfjafyrirtæki og greiða fyrir sæti í framleiðslulínu þeirra. Í samvinnu við dönsk stjórnvöld var hér á landi gengið frá framvirkum kaupsamningi við lyfjafyrirtæki árið 2007, sem kom til framkvæmda þegar heimsfaraldur af völdum svínainflúensu skall á árið 2009. Þessi samningur rann út 2022. Þegar COVID-19 heimsfaraldurinn reið yfir árið 2020 fengum við aðgang að sameiginlegum innkaupum ESB á bóluefnum gegn sjúkdómnum fyrir milligöngu Svía. Við getum ekki, líkt og árið 1957, framleitt okkar eigin bóluefni vegna strangra krafna sem lyfjastofnanir fyrir vestan haf og austan gera um slíka framleiðslu. Mikilvægt er fyrir íslensk stjórnvöld að huga vel að því hvernig við getum brugðst við áður en til næsta heimsfaraldurs kemur.

Heimildir

 

1. Jónsson V. Bólusetning ekki kúabólusetning. Lækningar og saga. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík, 1969: 79-91.
 
2. Dungal N, Thoroddsen S, Ágústsson H. Bólusetningar gegn kíghósta 1942. Læknablaðið 1943; 29: 33-6. JAMA 1944; 125: 200-2.
https://doi.org/10.1001/jama.1944.02850210022005
 
3. Dungal N. Rannsóknir á ónæmi fyrir barnaveiki í Reykjavík. Heilbrigðisskýrslur. Landlæknisembættið 1930.
 
4. Sigurjónsson J. Skýrsla um bólusetningu gegn barnaveiki í barnaskólum Reykjavíkur skólaárið 1934-35. Heilbrigðisskýrslur. Landlæknisembættið 1935.
 
5. Gudnadottir M. Cost-effectiveness of different strategies for prevention of congenital rubell infection: a practical example from Iceland. Rev Inf Dis 1985; 7: S200-S209.
https://doi.org/10.1093/clinids/7.Supplement_1.S200
PMid:3923594
 
6. Jónsdóttir KR, Hansen H, Arnórsson VH, et al. Ungbarnabólusetning á Íslandi gegn Haemophilus influenzae af hjúpgerð b. Árangur eftir sex ára notkun PRP-D (ProHIBIT). Læknablaðið 1996; 82: 32-8.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica