02. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Læknablaðið í 110 ár. Kynsjúkdómar þá og nú. Anna Margrét Guðmundsdóttir
Brot úr greininni Um varnir gegn kynsjúkdómum eftir M. Júl. Magnús
– Að eg hafi vakið máls á þessu efni hér í félaginu, kemur af því, að eg hefi saknað þess aðhalds, sem lög um varnir gegn þessum sjúkdómum í öðrum löndum veita læknum þar, til þess að geta haldið þessum sjúklingum nægilega lengi undir sinni hendi til þess, að þeir ekki væru hættulegir öðrum mönnum, og til þess, að þeir heldur ekki yrðu það í framtíðinni.
– Eg fæ ekki betur séð, en að það sé fyllilega kominn tími til þess, að hér á landi séu einhverjar ráðstafanir gerðar til varnar útbreiðslu þessara sjúkdóma. Þó ekki hefðist upp úr þeim annað en það, að sveitirnar yrðu varðar, þá margborgaði það sig.
– Til dæmis um það, hvað mikið er gert til varnar gegn syfilis í öðrum löndum má nefna uppeldisstofnanirnar fyrir börn með syfilis congen.
– Til þess að geta gert sér glögga hugmynd um þörfina á sérstökum vörnum gegn þessum sjúkd., er nauðsynlegt að vita, hvað algengir þeir eru í landinu og hvað útbreiðslan er ör. Ritarinn okkar hefir gert mér þann greiða, að gefa mér útdrátt úr skýrslum um þessi efni fyrir árið 1911 og 1912, sem nú er verið að vinna að. Einnig hafa bæjarlæknarnir sýnt mér þá velvild, að skýra mér frá þeim sjúklingum, sem þeir hafa séð hér í bænum á árinu 1914, svo að með því móti fæst nokkru betra yfirlit yfir, hvað útbreiðslan er ör.
– Orsakir prostitutionarinnar eru alstaðar hinar sömu: ýmsar skekkjur í þjóðlífinu, sem gera að verkum, að karlmennirnir geta ekki gifst snemma, og ef til vill tilhneiging þeirra til fjölkvænis. Enn fremur fátækt og ill vinnukjör kvenna, einnig oft tilhneiging þeirra til sællífis og hóglífis.
– Prostitution í sinni upphaflegu merkingu hefir aldrei þekst hér á landi og þekkist ekki, svo eg viti, enn. Má þakka það því, hvað kjör manna til þessa hafa verið jöfn, og engin fátækt til í samanburði við önnur lönd. Og þessu má svo aftur þakka, að við svo lengi höfum sloppið við kynsjúkdómana. Prostitution í nútíðarmerkingu er ekkert keppikefli, og auk þess óframkvæmanlegt hér á landi, að því er eg fæ bezt séð.
– Í hinu fyrirkomulaginu, með ókeypis læknishjálp, er aðalkjarninn þessi: Allir sjúkl. með kynsjúkd. eru skyldir að leita sér lækninga. Þeir mega fara til hvaða læknis sem er, en ef þeir ekki hafa efni á að borga lækni, þá eru í öllum stærri bæjum sérstakar klinikur, sem veita þeim ókeypis læknishjálp - og meðul, ef þeir hafa ekki heldur efni á að borga þau.
Kynsjúkdómar þá og nú
Greinin sem ég ætla að spegla birtist 1915 og fjallar um kynsjúkdóma. Höfundurinn, Maggi Júlíusson Magnús (1886-1941), sérfræðingur í húð- og kynsjúkdómum, bjó á Klömbrum og starfaði í Reykjavík frá árinu 1913, meðal annars á vegum ríkisins við að veita ókeypis lækningar við kynsjúkdómum frá 1923-1934 og síðar yfirlæknir Holdsveikispítalans í Laugarnesi. Segja má að ef Maggi væri uppi í dag byggi hann í Hlíðunum og væri hugsanlega sóttvarnalæknir. Hann vill með þessari grein „vekja athygli háttvirtra stéttarbræðra á þessu máli sem honum finnst mikilsvert og hvernig landinu verði forðað frá því böli sem kynsjúkdómar ávalt eru.“
Höfundur hefur verið víðsýnn og aflað sér þekkingar frá öðrum löndum. Hann fjallar um einkenni og faraldsfræði sýfilis (sárasótt), vekur athygli á aukningu lekanda og sýfilis og mikilvægi þess að halda skrá yfir algengi og útbreiðslu. Kominn er vísir að smitsjúkdómaskrá, svokallaðar Landhagsskýrslur (með undirflokkun: sýktur Íslendingur/útlendingur og héruð). Í dag er vöktun og umsjón skráa yfir skráningar- og tilkynningarskylda sjúkdóma hjá sóttvarnalækni.
Höfundur hefur sömu áhyggjur og eru nú af hugsanlegum vangreiningum og aukningu á sjúkdómunum og vill umræður um að verja meira af opinberu fé í forvarnir. Töluverð umfjöllun er um „prostitution“ (vændi) og þá einkum um þátt kvenna sem stunda vændi („lauslætis-kvendi“) en lítið um þátt kaupenda vændis. Vitað er í dag að kynsjúkdómar tengjast ekki eingöngu vændi eða hjúskaparstöðu, heldur kemur fleira til. Höfundur telur að prostitution hafi aldrei þekkst á Íslandi og verði ekki í framtíðinni. Þessi spá rættist ekki því vændi er stundað á Íslandi og samkvæmt lögum í dag má selja vændi en ólöglegt er að kaupa vændi.
Ýmsar staðhæfingar og hugmyndir í greininni lýsa tíðarandanum, en myndu líklega í dag kallast fordómar gagnvart fólki af erlendum uppruna og kynlífsverkafólki. Á þessum árum er talið að meirihluti kynsjúkdóma berist erlendis frá (aðallega með útlendum sjómönnum) og minna sé um innanlandssmit. Höfundur kallar eftir lögum um varnir gegn þessum sjúkdómum og sýnist mér að sumar tillögur hans í greininni séu grunnur að lögum um varnir gegn kynsjúkdómum (1978) og síðar sóttvarnarlögunum 19/1997. Vekur hann athygli á að það þurfi ókeypis læknishjálp fyrir alla með kynsjúkdóma. Það sýnir framsýni höfundar, en í dag er greining og meðferð kynsjúkdóma einstaklingum að kostnaðarlausu. Maggi gat á þessum tíma ekki séð fyrir þá framþróun sem hefur orðið í læknisfræði. Um 1930 var farið að framleiða smokka úr latex. Á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar komu fram ný lyf og eru sárasótt og lekandi vel læknanleg í dag. Áhyggjur lækna í dag snúa þó meðal annars að vaxandi sýklalyfja-ónæmi lekandabakteríunnar.
Tafla sem sýnir fjölda kynsjúkdóma á öllu landinu 1881-1912 sýnir eitt tilfelli sýfilis 1881. Næstu 12 árin helst fjöldi lekanda og sýfilis lágur. Stöðug aukning verður, sem nær hámarki 1911 en þá eru skráð 165 tilfelli lekanda og 27 tilfelli sýfilis í 20 héruðum landsins.
Tafla yfir fjölda kynsjúkdóma í Reykjavík 1885-1914 sýnir fá tilfelli fyrstu árin en þeim fer fjölgandi um aldamótin 1900. Árið 1914 eru skráð 149 tilfelli lekanda og 22 tilfelli sýfilis. Sama ár greinist congenit sýfilis hjá einu barni og eitt barn deyr vegna meðfæddrar sárasóttar. Virðast tilfellin fyrstu árin vera mest hjá útlendingum en eftir 1900 komið meira innlent smit.
Árið 2022 greindust 158 manns með lekanda á Íslandi og aukning var hjá bæði konum og körlum. Bráðabirgðatölur sóttvarnalæknis fyrir árið 2023 sýna að kringum 340 manns greindust með lekanda í fyrra og er það mikil aukning milli ára. Tæplega 75% þeirra sem greindust með lekanda í fyrra voru karlmenn og 75% með íslenskt ríkisfang. Árið 2022 greindust 50 á Íslandi með sárasótt, tæplega helmingur með íslenskt ríkisfang. Karlmenn voru í miklum meirihluta, eða 82%. Fyrstu 7 mánuði ársins 2023 eru komin jafnmörg tilfelli og allt árið 2022. Sjúkdómurinn hefur greinst að stórum hluta hjá körlum sem stunda kynlíf með körlum en ljóst er að hann er einnig að ná til annarra hópa.
Þrátt fyrir að fjölmargt hafi áunnist á þeim rúmlega 100 árum sem liðin eru síðan Maggi skrifaði greinina og sumt af þeim tillögum sem hann lagði til í baráttunni við kynsjúkdóma sé orðið að veruleika, er staðreyndin sú að nýgengi sárasóttar á Íslandi í dag hefur ekki verið hærra síðan á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og nýgengi lekanda ekki verið hærra síðustu 30 ár. Fleiri sýni eru þó tekin í dag, sem skýrir að hluta til aukningu greininga.