02. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Stendur vörð um lækna í veikindum: FOSL er styrktarsjóður þeirra

Veikindastyrkir til lækna hækkuðu um 77% milli áranna 2021 og 2022. Þá var mánuði bætt við réttindin. Stjórn Fjölskyldu- og styrktarsjóðs lækna lækkaði um áramót aðra styrki til að mæta auknum útgjöldum sjóðsins. Formaður sjóðsins segir þó flesta styrki stéttarfélagsins hærri en gengur og gerist

Ekki var hreyft við reglum um veikindastyrki lækna og fjölskyldna þeirra þegar styrkir úr Fjölskyldu- og styrktarsjóði lækna, FOSL, voru lækkaðir nú í upphafi árs.

„Við leggjum mikla áherslu á að viðhalda veikindastyrknum, því það er stuðningur við lækna sem takast á við langvinn alvarleg veikindi,“ segir Gerður Aagot Árnadóttir, formaður sjóðsins FOSL og heimilislæknir. „Rétturinn var rýmkaður í byrjun árs 2022 og lengdur úr þremur mánuðum í fjóra og við vildum standa vörð um hann. Það kemur best þeim sem eru í viðkvæmustu stöðunni.“

Staðan var svört á Landspítala í upphafi árs. Hátt í 90 sjúklingar lágu á göngum spítalans og fjöldi sjúklinga var fastur á bráðamóttökunni og beið innlagnar á deildir spítalans. Már Kristjánsson, yfirlæknir og framkvæmdastjóri lyflækninga- og bráðasviðs, sagði þá í fjölmiðlum fjölda innlagna langt umfram viðmið. Mikið væri um veikindi starfsfólks. „Við höfum ekki séð það svartara,“ sagði hann við fréttamiðilinn Vísi. Már sagði við Læknablaðið að ástandið hefði batnað þegar leið á mánuðinn þegar pestirnar fóru að ganga niður. Mynd/Þorkell

Samkvæmt ársreikningi má sjá að útgjöld sjóðsins hækkuðu úr tæpum 90 milljónum í 118 milli áranna 2021 og 2022, um rúm 30%, en iðgjöld hækkuðu um 10 milljónir, í tæpar 105 milljónir króna og um 10%.

„Síðustu tvö ár hefur verið halli á sjóðunum og útgjöld meiri en iðgjöld. Sjóðurinn hefur þolað það ágætlega en það gengur ekki til lengri tíma litið,“ lýsir hún. Komið hafi verið að þeim tímapunkti að koma jafnvægi á sjóðinn.

Gerður segir meginmarkmiðið að standa vörð um lækna í veikindum og jukust veikindastyrkir verulega, eða um rúmar 19 milljónir, 77%, milli 2021 og 2022. Einnig sé ein helsta áherslan að standa þétt við bakið á ungum læknum. Þeim fjölgi nú hratt í félaginu með meira framboði sérnáms hér á landi og fleiri útskrifuðum læknum hér heima og erlendis.

Styrkir vegna fæðinga lækkuðu um 3,5 milljónir króna milli áranna 2021 og 2022 og voru 47,3 milljónir árið 2022. „Það hefur orðið heilmikil fjölgun fæðingarstyrkja, litið til lengri tíma,“ segir Gerður og að þau jákvæðu tíðindi sjáist á sjóðnum.

Gerður Aagot Árnadóttir heimilislæknir er formaður styrktarsjóðs Læknafélagsins, FOSL. Styrkir úr sjóðnum verða nú lækkaðir en þeir hafa aukist umfram iðgjöld á síðustu árum. Mynd/gag

Gerður segir stjórn FOSL hafa vissar áhyggjur af því að veikindastyrkurinn sé nýttur í meira mæli en áður. „En þó er gott að sjá að ekki virðist hafa orðið hlutfallsleg aukning á veikindum lækna, sem betur fer,“ segir hún en bendir þó á að tölur sveiflist á milli ára. „Við sjáum þó vísbendingar um aukin álagsleg einkenni. Það hafa allir áhyggjur af því.“

Þak var sett við áramót á hversu háa fjárhæð hver læknir getur fengið ár hvert úr sjóðnum. Upphæðin nemur ekki meiru en 400.000 krónum á ári. Sjóðfélagi sem hefur fengið fæðingarstyrk getur þó hæst fengið 500.000 krónur. Gerður bendir á að hvorki veikinda- né fæðingarstyrkur hafi áhrif á upphæðina.

„Það skiptir okkur máli að fjárhæðin úr sjóðnum dreifist en fari ekki til fárra,“ segir hún. „Það er réttlætismál að einstaka aðilar fái ekki hærri upphæðir en aðrir.“ En hvernig stendur þá félagið miðað við önnur? „Flestir þessara styrkja eru hærri en gerist meðal annarra stéttarfélaga.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica