02. tbl. 110. árg. 2024

Ritstjórnargrein

Fjölgun læknanema við læknadeild Háskóla Íslands: áskoranir og framkvæmd. Þórarinn Guðjónsson

Þórarinn Guðjónsson | prófessor | forseti læknadeildar | heilbrigðissviði Háskóla Íslands

doi 10.17992/lbl.2024.02.778

Mannaflaspá Læknafélags Íslands gerir ráð fyrir að fjölga þurfi læknum verulega á næstu árum.1 Stjórnendur læknadeildar Háskóla Íslands (HÍ) hafa ítrekað verið spurðir hvers vegna ekki sé hægt að fjölga tafarlaust læknanemum við deildina. Svarið er einfalt. Fjármagn og aðstaða hafa ekki gert það mögulegt. Það er stutt síðan læknanemum var fjölgað úr 48 í 60. Þeirri fjölgun fylgdi hvorki aukið fjármagn né betri aðstaða og því hefur verulega þrengt að. Það hefur verið krefjandi að koma 60 manna hópnum, sem nú er á fimmta ári, fyrir í klínískri kennslu án þess að það bitni á gæðum kennslunnar.

Frá haustinu 2022 hefur verið mikill þrýstingur frá stjórnvöldum að læknadeild taki við fleiri læknanemum og því lofað að fjármagn fylgi með. Stjórn deildarinnar hefur því unnið greiningu á því hvað þurfi til svo að hægt sé að fjölga nemum. Sú greining fór fram í gegnum samtöl við akademíska kennara deildarinnar og félag læknanema, gagnaöflun og nefndastörf. Auk þess fóru fram viðræður við yfirstjórn HÍ og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið (HVIN) sem lofuðu fjármögnun.

Á deildarfundi læknadeildar 11. október 2023 var samþykkt að fjölga nemum í 75. Eftirfarandi fyrirvari var gerður við samþykktina: „Deildarfundur læknadeildar samþykkir fjölgun læknanema í 75 haustið 2024 með þeim fyrirvara að staðið verði við þær fjárhagslegu skuldbindingar af hálfu HVIN og HÍ sem lofað hefur verið og kemur fram í minnisblöðum sem lögð hafa verið fram á fundum og í samtali læknadeildar með yfirstjórn HÍ og HVIN.“ Greiðslur hafa þegar borist til að hefja fjölgunarferlið.2 Þeim 75 sem verða efstir í inntökuprófunum í júní 2024 verður því boðið að hefja nám við deildina næsta haust. Eftirfarandi þættir eru forsenda þess að fjölgun læknanema gangi upp og eru nefndir í minnisblöðum til yfirstjórnar HÍ og ráðuneytisins.

1. Fjölgun akademískra kennara. Stöðugildum var ekki fjölgað þegar nemum var fjölgað úr 48 í 60. Þörf er á að fjölga um 12,5-13 akademísk stöðugildi á næstu árum til þess að mæta fjölgun nema í 75. Í klíníska verknáminu gæti aðkoma sérnámslækna að formlegri kennslu létt mikið undir og er nú verið að móta slíkt í samvinnu við framhaldsmenntunarráð (sem fellur ekki undir HÍ).

2. Kennsluhættir. Kennsluhættir hafa verið að breytast og þróast. Vendikennsla, hópavinna, lausnamiðuð kennsla, teymisnám og stafrænir kennsluhættir hafa sífellt meira vægi. Í nýju húsi heilbrigðisvísindasviðs við Hringbraut sem nýlega voru hafnar framkvæmdir við, verður stórbætt kennsluaðstaða. Fleiri og smærri vinnustofur fyrir hópavinnu og gott aðgengi að stærri fyrirlestrasölum.

3. Hermi- og færnisetur. Hermi- og færnisetur er öflugt verkfæri til að bæta menntun í heilbrigðisgreinum. Nú þegar er hafin uppbygging á hermi- og færnisetri í Eirbergi. Styrkur úr samstarfssjóði háskólanna hefur ýtt þessu verkefni úr vör og hefur styrkurinn verið nýttur í að þjálfa kennara, stækka núverandi aðstöðu svo hægt sé að auka þessa kennslu strax og kaupa búnað til slíkrar kennslu.

4. Aukið samstarf við heilbrigðisstofnanir. Í tengslum við fjölgun læknanema er brýnt að fjölga klínískum verknámsplássum og til þess þarf að skoða möguleika á að fjölga þeim einnig utan Landspítala, þar með talið á landsbyggðinni (svo sem á Akureyri, Selfossi, Akranesi og í Reykjanesbæ) og hjá sjálfstætt starfandi rekstrareiningum. Skilgreina þarf hæfni heilbrigðisstofnana til að sinna kennslu læknanema, tryggja fjármagn til kennslu innan þeirra og ganga frá samningum í samvinnu við stjórnvöld.

5. Yfirfara námsskrá. Kanna þarf hvort hægt sé að breyta og bæta kennslu með hliðsjón af breyttum kennsluháttum og þörfum nútímans um kröfur til nýútskrifaðra læknakandídata. Vinna við þetta er hafin en mun taka tíma. Afar brýnt er að vanda til verka og tryggja gæði kennslunnar. Mögulega mun samtal kennara þvert á námskeið og þvert á kennsluár skapa tækifæri til hagræðingar.

Heimildir

 

1. Ingvarsson IF, Þórðardóttir S. Mannaflagreining Læknafélags Íslands. Læknablaðið 2022; 108: 160-1.
 
2.  http://mbl.is/frettir/innlent/2023/12/07/fjolga_nemendum_i_laeknis_og_hjukrunarfraedi/ - janúar 2024.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica