01. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Augnlækningar. Blanda af lyflækningum og skurðlækningum. Birna Sigurborg Guðmundsdóttir

Það var á augnlæknisfræðikúrsinum á fimmta ári sem áhugi minn kviknaði á faginu. Augað er svo fallegt og heillandi líffæri. Í verklega hlutanum fékk ég að fara í augnaðgerð í fyrsta skipti. Búið var að dúka allt upp þannig að einungis augað sást. Þetta er eina skiptið í náminu sem ég hef þurft að snúa mér undan, draga djúpt andann og telja upp að tíu. Síðan var það gengið yfir og ég varð alveg heilluð af þessu.

Á valtímabilinu á sjötta ári var ég tvo mánuði á augndeildinni og fékk einnig að fara á augnlæknastofur úti í bæ. Það var mjög skemmtileg reynsla og opnaði heldur betur heim augnlæknisfræðinnar. Augnlæknisfræði er mjög fjölbreytt fag. Hún er blanda af lyflækningum og skurðlækningum með miklum möguleikum í undirsérhæfingu. Þetta er líka mikið tækjafag sem er stöðugt í mikilli þróun og heldur manni á tánum.

Ég útskrifaðist úr læknadeild Háskóla Íslands 2010 og að kandídatsári loknu hóf ég störf sem sérnámslæknir á augndeild Landspítalans haustið 2011. Fyrstu mánuðirnir voru krefjandi enda margt nýtt að læra en ég fann strax að ég væri á réttri hillu. Áhuginn á augnskurðaðgerðum jókst með árunum og reyndi ég að komast í allar þær aðgerðir sem hægt var.

Meðfram klínískri vinnu var í ég rannsóknum með Einari Stefánssyni prófessor sem var þá einnig yfirlæknir deildarinnar. Það var mjög spennandi að taka þátt í því og fá að fara með niðurstöður á eina stærstu ráðstefnu í heimi um augnrannsóknir, eða ARVO (Association and Research in Vision and Ophthalmology).

Eftir tvö ár á augndeildinni lá leiðin til Svíþjóðar. Með aðstoð Eydísar Ólafsdóttur augnlæknis komst ég samband við augndeildina í Örebro. Haustið 2014 hóf ég sérnám í augnlæknisfræði við háskólasjúkrahúsið í Örebro og lauk því haustið 2019. Vorið 2019 kláraði ég einnig Evrópska sérfræðiprófið í augnlæknisfræði (European Board of Ophthalmology diploma). Meðfram sérnáminu bauðst mér að hefja undirsérhæfingu í augnlýtalækningum (oculoplastics and reconstructive surgery) og skjálgisskurðlækningum (strabismus surgery).

Af hverju valdi ég þessa undirsérhæfingu?

Mér finnst mjög gaman að vinna með höndunum og augnlýtalækningar krefjast oft ákveðins föndurs. Þetta er fjölbreytt með margskonar aðgerðum á augnlokum, táragöngum og augntótt. Í starfinu felst einnig skemmtileg samvinna við aðrar sérgreinar eins og háls-, nef- og eyrnalækna, heila- og taugaskurðlækna og lýtalækna í erfiðum krabbameinum, brunasjúklingum og augntóttartilfellum. Skjálgisskurðlækningar eru ekki svo frábrugðnar augnlýtalækningunum hvað varðar aðgerðartækni og fannst mér það því passa vel saman. Einnig eru skjálgisskurðlækningarnar smá nördafag sem hentar mér ágætlega. Tilfellin geta stundum verið snúin og krafist flókinnar uppvinnslu. Líklega hefur handleiðarinn minn í Svíþjóð haft einhver áhrif á valið en hún var með þessa undirsérhæfingu og síðan hafði ég einnig haft flottar fyrirmyndir á Íslandi eins og Harald Sigurðsson augnlýtalækni og Elínborgu Guðmundsdóttur barnaaugnlækni og skjálgisskurðlækni.

Við fjölskyldan fluttum aftur til Íslands haustið 2021 en þá bauðst staða í augnlýta- og skjálgisskurðlækningum við augndeild Landspítala. Auk þess starfa ég við mín sérsvið hjá Augnlæknum Reykjavíkur og Handlæknastöðinni. Eftir heimkomu hef ég stundað rannsóknir með Haraldi Sigurðssyni á sviði augnlýtalækninga.

Augnlæknisstarfið er gífurlega skemmtilegt og gefandi og get ekki annað sagt en ég sé mjög sátt við val mitt á sérgrein.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica