01. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Læknablaðið í 110 ár. Frumkvöðlar í læknastétt. Helgi Valdimarsson og upphaf skipulegs rannsóknartengds náms í læknadeild. Engilbert Sigurðsson

Erlendir sérfræðingar gerðu síðast úttekt á læknadeild þegar þeir fóru yfir sjálfsmat deildarinnar í janúar 2021. Sjálfsmatið er eins konar reglubundið gæðamat vinnuhóps sem deildarforseti leiðir á stöðu deildarinnar, styrkleikum, veikleikum, ógnunum og tækifærum. Ein margra spurninga sem Stefan Lindgren, einn erlendu sérfræðinganna, bar þá upp var hvort slíkt nám þyrfti í raun að vera á háskólastigi og tengt rannsóknarverkefnum á bachelor-, meistara- og doktorsstigi? Gæti það ekki verið á fagháskólastigi þar sem horft væri til þess að nemar næðu sem fyrst tiltekinni færni sem væri skilgreind í hæfniviðmiðum. Spurningin kom mér talsvert á óvart sem deildarforseta á þeim tíma. Í henni fólst hins vegar í raun bæði ögrun og krafa um að fólk í vinnuhópnum hugsaði gagnrýnið um þekkingarsköpun og mikilvægi grunnrannsókna og klínískra rannsókna í læknanámi. Gæti farið saman að nýta nær heilt misseri í rannsóknaþjálfun en efla samt áfram nám í deildinni samhliða enn frekari fjölgun læknanema?

Forseti læknadeildar

 

  Helgi Valdimarsson (1936-2018)

 

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að Helgi heitinn Valdimarsson, prófessor í ónæmisfræði, var deildarforseti þegar ég hóf nám í læknadeild Háskóla Íslands haustið 1984. Helgi hafði farið í sérnám til Bretlands og náði að byggja þar upp rannsóknarferil sem Senior Lecturer á sínu sviði áður en hann sneri heim til Íslands. Námið fyrstu þrjú árin var þá að mörgu leyti byggt á utanbókarlærdómi á misþykkum textabókum, seinni þrjú árin voru biblíur lyf- og handlæknisfræða á þeim tíma, Cecil, Harrison og Sabiston, sannkallaðir doðrantar. Helgi var kappsamur maður og marksækinn. Hann lét verkin tala við mismiklar vinsældir úrtölumanna, þar á meðal nokkurra eldri prófessora sem töldu litla ástæðu til slíkra breytinga. Þegar ég var á öðru ári námsins 1986 mætti Helgi í árgangspartí til að spjalla við okkur nemana um nám og rannsóknir, sem var fáheyrt á þeim tíma. Þar heyrði ég líklega orðið þekkingarsköpun fyrst. Helgi spurði spurninga sem vöktu strax áhuga okkar: Hvers vegna ræðst ónæmiskerfið á heilbrigðar frumur í líkamanum í sjálfsofnæmissjúkdómum? Eru frumur ónæmiskerfisins mikilvægar í vörnum líkamans gegn stökkbreyttum krabbameinsfrumum? Af hverju hafnar leg móður ekki fóstri með framandi vækjum frá föður?

Ritgerð eða hefðbundið próf

Í dag er hægt að gúggla slíkar spurningar og fá svör um hæl um hvað rannsóknir hafa sýnt og í hvers konar tímaritum þær hafa birst. Vandinn er nú fremur fólginn í að leggja mat á ofgnótt misvandaðra upplýsinga og hvort ályktanir sem á þeim byggjast standast faglega skoðun. Aðgengi að slíkum upplýsingum var mun minna á níunda áratug síðustu aldar og þekkingin vitaskuld skemur á veg komin. Á þriðja námsári bauð Helgi okkur læknanemum að velja á milli þess að skrifa ritgerð um áhugavert rannsóknarefni eða taka hefðbundið próf. Valið var auðvelt í mínu tilfelli. Ritgerðin byggðist á eigin hugmynd um mögulega þróun meingerðar í sykursýki af flokki 1. Ritgerðin lagði grunn að leyfi frá klínísku námi á 5. ári veturinn 1988-89 til að leggja stund á svokallað BS-rannsóknarnám sem þá var í þróun. Rannsóknin var unnin í Danmörku á rannsóknarstofu sem um áratuga skeið hafði verið framarlega í grunnrannsóknum og klínískum rannsóknum á meingerð sykursýki, Hagedorn Forskningslaboratorium í Gentofte í útjaðri Kaupmannahafnar. Heimsókn þangað og stuðningur Helga opnaði þær dyr. Í Danmörku var ég eitt ár í alþjóðlegu rannsóknarteymi Steinunnar Bækkeskov. Það var gæfuspor og mótandi reynsla sem ég hef búið að síðan.

Helgi hafði sem deildarforseti verið lykilmaður í að opna þennan möguleika í náminu. Vilmundur Guðnason, nú prófessor hjá Hjartavernd, lauk fyrstur slíkri BS-rannsóknargráðu vorið 1985. Nokkrir læknanemar höfðu fetað í fótspor Vilmundar á næstu árum. Við vorum fimm úr mínum árgangi sem tókum þá ákvörðun að loknu þriðja námsári 1987 og fjórða námsári 1988 að freista þess að kynnast þekkingarsköpun innan læknavísinda af eigin raun. Í huga okkar allra vógu spennandi tækifæri sem þessu fylgdu þyngra en það að brautskráning okkar tefðist um eitt ár. Í BS-rannsóknarnáminu var lögð áhersla á vísindaleg vinnubrögð, úrvinnslu, skrif og birtingu rannsóknargreinar í fræðitímariti til að kynna niðurstöðurnar. Einnig þurfti að verja BS-ritgerðina í opinni vörn þar sem tveir andmælendur rökræddu niðurstöður og ályktanir við nemann. Þetta var í raun eins konar stytt útgáfa af doktorsvörn. BS-gráðan var svo formlega veitt við brautskráningu úr læknadeild vorið 1991.

Rannsóknamisserin frá 1992

Kristján Erlendsson, kennslustjóri læknadeildar um rúmlega þriggja áratuga skeið frá árinu 1988, rakti í yfirlitsgrein árið 2014 að miklar breytingar voru gerðar á skipulagi námsins í lok níunda áratugarins.1 Þá hafði námið verið endurskoðað af nefnd sem hann, Guðmundur Þorgeirsson og Sigurður Guðmundsson áttu sæti í og um svipað leyti var Kristján ráðinn sem kennslustjóri.1 Þá hafði BS-nefnd sem Guðmundur Þorgeirsson leiddi haft umsjón með BS-náminu í nokkur ár. Svokölluð Rannsóknarnámsnefnd var síðan stofnuð árið 1991 til að skipuleggja rannsóknarmisseri fyrir alla læknanema á fjórða námsári. Gunnar Sigurðsson veitti henni fyrstur forstöðu, en einnig naut sú vinna meðal annars aðkomu Helgu Ögmundsdóttur og Guðmundar Þorgeirssonar í nefndinni á næstu árum, auk Kristjáns Erlendssonar kennslustjóra.

Fyrsta formlega rannsóknarmisserið var haldið vorið 1992. Nemendur munu almennt hafa verið andsnúnir hugmyndinni áður en hún varð að veruleika,1 en afstaða þeirra snerist strax að loknu þessu fyrsta rannsóknarmisseri. Síðar var rannsóknarmisserið fært niður á vormisseri þriðja árs þegar kennsla í lyflæknisfræði og skurðlæknisfræði á 6. ári hafði alfarið verið færð niður á 4. námsár árið 2007. Þrátt fyrir að það hafi reynt talsvert á læknadeild að finna nægilega mörg rannsóknarverkefni fyrir læknanema við hverja fjölgun nema í deildinni, mun aldrei hafa komið til álita að fella þennan þátt námsins niður.1

Stórfjölgun læknanema

Nú hefur verið samþykkt að fjölga læknanemum sem hefja nám við læknadeild HÍ úr 60 í 75 á ári frá haustinu 2024. Fyrir veturinn 2026-27 mun því þurfa umtalsverða fjölgun rannsóknarverkefna. Í því samhengi þarf ef til vill að huga að því að nemum bjóðist fjölbreyttari tækifæri á rannsóknarmisserinu, til að mynda með kerfisbundinni þekkingarleit eða með því að reyna að skilja og túlka þróun sem lesa má úr heilbrigðisgögnum sem safnað hefur verið yfir lengri tímabil.

Eins og fram kemur í stuttu yfirliti Helgu Ögmundsdóttur um doktorsnám við læknadeildvar Helgi helsti hvatamaður þess að formlegu doktorsnámi var komið á við deildina árið 1994. Hann útskrifaði fyrsta doktorsnemann skömmu síðar og þann tólfta 2016.2 Helga átti hins vegar sjálf stærstan þátt í að þróa og móta umgjörð doktorsnámsins sem formaður Rannsóknarnámsnefndar læknadeildar í tvo áratugi, frá 1998 til 2018. Sú umgjörð var sambærilegum nefndum annarra sviða Háskóla Íslands mikilvæg fyrirmynd við þróun doktorsnáms við Háskólann. Framan af luku karlar fremur BS-rannsóknargráðu eða doktorsnámi en konur við læknadeild, en það hefur snúist við líkt og kynjahlutföllin í náminu. Konur hafa verið vaxandi meirihluti þeirra sem hafa lokið doktorsprófi frá læknadeild frá og með 2011. Til að teljast með hæfi til að vera skipaður í akademíska stöðu við Háskóla Íslands þarf umsækjandi annaðhvort að vera með doktorspróf eða sýna fram á að rannsóknarferill sinn teljist að minnsta kosti jafngildur doktorsprófi. Kynjahlutföll akademískra kennara læknadeildar munu því að mínu mati jafnast á næstu árum. Hins vegar er óvíst að það takist að manna slíkar stöður í öllum sérgreinum án þess að leita út fyrir landsteinana, nú þegar fjölga þarf kennurum í takt við nýsamþykkta fjölgun nemenda úr 60 í 75. Það er í reynd mikil áskorun fyrir smáþjóð lengst úti í Atlantshafi að laða til starfa nægan fjölda sérfræðilækna sem leggja stund á rannsóknir samhliða öðrum störfum.

 

Heimildir

 

1. Erlendsson K. Þróun kennslu læknanema á síðustu áratugum. Læknablaðið 2014; 100: 159-65.
 
2. Ögmundsdóttir H. Doktorsnám við læknadeild Háskóla Íslands. Læknablaðið 2017; 103: 169.
https://doi.org/10.17992/lbl.2017.04.129
PMid:28401872
 

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica