04. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Doktorsvörn frá Háskóla Íslands: Tómas Andri Axelsson
Tómas Andri Axelsson varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands 17. mars 2023. Ritgerðin heitir: Árangur eftir kransæðahjáveituaðgerðir.
Andmælendur voru Ivy Modrau, dósent og hjartaskurðlæknir við Háskólasjúkrahúsið í Árósum, og Katrín Ragna Kemp Guðmundsdóttir, hjartalæknir á Landspítala og á Hjartamiðstöðinni. Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Tómas Guðbjartsson, prófessor, og auk hans sátu í doktorsnefnd Arnar Geirsson, prófessor við Yale, Karl Andersen og Sigurbergur Kárason, prófessorar við læknadeild Háskóla Íslands.
Úr ágripinu
Kransæðasjúkdómur er algengasta dánarorsök í heimi. Meðal alvarlegra fylgikvilla sjúkdómsins eru drep í hjartavöðva, hjartabilun, alvarlegar hjartsláttartruflanir og skyndidauði. Kransæðahjáveituaðgerð er talin besta meðferð við dreifðum kransæðasjúkdómi eða þrengslum í vinstri höfuðstofni. Doktorsverkefnið byggist á fjórum vísindagreinum sem lýsa rannsóknum sem höfðu það markmið að kanna árangur af kransæðahjáveituaðgerðum og afdrif skilgreindra undirhópa sjúklinga sem gangast undir slíkar aðgerðir.
Tómas Axel í anddyri Háskóla Íslands daginn sem hann varði doktorsritgerð sína. Mynd/Gunnar Sverrisson
Doktorinn
Tómas Andri er stúdent frá náttúrufræðibraut MR 2008 og lauk embættisprófi frá læknadeild HÍ 2014. Hann leggur stund á þvagfæraskurðlækningar á Danderyd-sjúkrahúsinu í Stokkhólmi.
Hvað segir nýdoktorinn?
Af hverju vildir þú verða læknir?
Ég hafði áhuga á líffræði og mannslíkamanum í gegnum skólagönguna. Eftir menntaskóla lá beinast við að þreyta inntökuprófið án þess að mér hafi fundist það vera stór ákvörðun þá. Fyrstu árin fannst mér ekkert svakalega gaman fyrir utan einstaka fög en þegar klínísku árin komu fannst mér þetta smella og ákvörðunin vera rétt.
Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?
Fyrir mig reyndi þetta mikið á, sérstaklega lokahnykkurinn þar sem ég var kominn djúpt í sérnám í allt öðru fagi (7/10).
Hvað yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?
Ég held það séu fá störf jafn erfið og að vera heilbrigðisráðherra. Heilbrigðiskerfið er svo margslungið og margt sem þarf að huga að. Þó ég hafi ekki unnið á Íslandi í 5 ár virðist uppsafnaður vandi með skort á leguplássum hrjá Landspítala. Ég myndi þess vegna reyna að gera allt til þess að auka fjölda leguplássa og flæði sjúklinga yfir á aðrar stofnanir en Landspítala eftir að meðferð þar er lokið. Einnig er nauðsynlegt að hafa gott samstarf milli sjálfstætt starfandi sérfræðinga og Landspítalans.
Hvaða bók, þættir, músík, líkamsrækt er best?
Af þeim bókum sem ég hef lesið á síðustu árum er Hyperion sú eftirminnilegasta, ég er hrifinn af vísindaskáldsögum. Seinfeld eru alltaf bestu þættirnir, Curb Your Enthusiuasm í öðru sæti.
Ég hlusta mest á Mac De Marco og Unknown Mortal Orchestra undanfarið.
Eina líkamsræktin sem ég hef tíma fyrir undanfarið er að hlaupa, þó mér finnist það ekki endilega það skemmtilegasta eða besta. Myndi heldur kjósa golf eða fótbolta ef ég hefði tíma.“
Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?
Hreyfa mig, eyða tíma með strákunum mínum og horfa á góða mynd eða þáttaröð. Það er því miður ekki meira spennandi en það! Hart rútínulíf þegar maður á tvö börn undir 5 ára aldri og bæði ég og sambýliskona mín í fullri vinnu.