12. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Lena Rós Ásmundsdóttir skrifar um Spænsku veikina eftir Gunnar Þór Bjarnason

Um miðjan nóvembermánuð 1918 náði spænska veikin hámarki í Reykjavík, 15.000 manna höfuðstað lands á þröskuldi sjálfstæðis. Sóttin gekk á land í Reykjavíkurhöfn eins og flóðbylgja stuttu eftir að Katla byrjaði að gjósa. Talið er að tæplega tveir af hverjum þremur bæjarbúum hafi veikst og einungis um 12 læknar hafi sinnt þessum sjúklingum. Útbreiðsla veikinnar var hröð og innan 6 vikna lágu um 500 manns í valnum, rúmlega helmingur þeirra í Reykjavík. Flestir í blóma lífsins.

Lena Rós Ásmundsdóttir sérfræðingur í sýklafræði


Bók Gunnars Þórs Bjarnasonar sagnfræðings er langþráð verk þar sem þessum hörmungaratburðum, sem mörkuðu djúp spor í minni þjóðarinnar, eru gerð verðug skil. Frásögnin byggir á umfangsmikilli heimildavinnu, þar með talið blaða- og minningargreinum, sendibréfum, dagbókarfærslum, viðtölum, sagnfræðiritum, ársskýrslum lækna og heilbrigðisskýrslum, sem höfundi tekst á lofsverðan hátt að flétta saman í samfellda sögu sem veitir einstaka og eftirminnilega innsýn í líf fólks á þessum tíma. Í bókinni er brugðið upp leiftrandi og átakanlegum svipmyndum af atvikum og aðstæðum; örþreyttir og örvæntingarfullir læknar í sjúkravitjunum, hjúkrunar- og yfirsetukonur sem lina þjáningar dauðvona mæðra og feðra, fádæma samhjálp borgarbúa, örtröð í Reykjavíkurapóteki, munaðarlaus ungmenni á leið út í lífið. Í bókinni er jafnframt fjallað á greinargóðan hátt um heiftúðugar deilur um aðgerðir, aðallega aðgerðarleysi, heilbrigðisyfirvalda og eftirmál þeirra, en spænska veikin hafði margvísleg áhrif á framþróun sóttvarna og heilbrigðisþjónustu hér á landi.

Hér er því um að ræða mikilvægt og afburðavel unnið verk sem á erindi við alla, bæði heilbrigðisstarfsfólk og aðra, sérstaklega nú þegar barátta okkar gegn COVID-19 stendur sem hæst og umræður um sóttvarnir eru í algleymingi. Upp á okkur stendur að læra af sögunni.Þetta vefsvæði byggir á Eplica