11. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Dagur í lífi krabbameinslæknis. Sigurður Böðvarsson

15.10.2020

06:45 Vindasöm nótt í Hafnarfirði. Karlinn hefur alltaf verið svefnstyggur en nú hélt ég nokkrum sinnum að þakið ætlaði að fjúka af húsinu. Teygi mig í símann, byrja þennan dag eins og aðra daga á að skima ruv.is, mbl.is og visir.is. Þarna er mynd af Barron Trump sem er kominn með COVID. Sá hefur stækkað, ber nú höfuð og herðar yfir foreldra sína. Snarast fram í morgunsturtuna og stíg á baðvogina. Allar tölur í rétta átt, þessi dagur byrjar vel!

 

07:30 Legg af stað til vinnu. Léttir við að sjá að veraldlegar eigur mínar eru á sínum stað eftir rokið í nótt, – bílarnir, hjólið og kerran. Svíf nú austur á „Töfrateppinu“, – Nissan Leaf rafmagnsbíl. Falleg er morgunbirtan og morgunroðinn yfir Heklu og Eyjafjallajökli. Í útvarpinu Morgunvaktin, rabb um styrjaldarárin og siglingar milli Íslands og Danmerkur. Hugurinn hvarflar til Laufeyjar ömmu minnar sem bjó á þessum skelfingarárum í Danmörku. Minnist þess nú að ég hafði lofað Védísi hjá Læknablaðinu að skrifa og senda henni stuttan pistil um „líf í degi læknis“ fyrir 19. október. Ákveð að segja bara frá deginum í dag eins og hann kemur af skepnunni.


Framkvæmdastjórn HSU (Cissý B.H. Björgvinsdóttir mannauðsstjóri, Díana Óskarsdóttir forstjóri, Baldvina Ýr Hafsteinsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar, Ari Sigurðsson fjármálastjóri, Sigurður framkvæmdastjóri lækninga).

8:15 Keyri yfir Ölfusárbrúna. Nýi miðbærinn á Selfossi sprettur upp, nánast nýtt hús á hverjum degi! Ég hugsa til þess að gaman væri að eiga hér penthouseíbúð, en átta mig á því fljótlega að slíkar vangaveltur eru óþarfar enda sveitasetur mitt, Búrfell í Grímsnesi, í aðeins 15 mínútna fjarlægð frá Selfossi!

8:20 Renni inn á bílaplanið við sjúkrahúsið á Selfossi. Gaman til þess að hugsa að í bígerð sé að veita okkur 3,1 milljarð til að endurnýja og stækka húsnæðið.

8:25 Mættur í mötuneytið. Fæ mér kaffi og lýsi að venju. Fer yfir stöðu heimsmála með Bjarna Birgissyni bryta.

8:30 Funda með deildarstjórunum Bergdísi Gunnarsdóttur og Birnu Gestsdóttur. Ræðum uppsetningu á COVID-legudeild ef á þarf að halda.

9:30 Fyrsti sjúklingur á göngudeild. Maður á sextugsaldri með dreift lungnakrabbamein. Er að svara nýju ónæmislyfjunum eins og best verður á kosið. Hress og kátur.

10:00 Kona á fimmtugsaldri með dreift brjóstakrabbamein kemur í lyfjameðferð. Allt gengur vel nema hvað heimiliskötturinn er kvefaður.

10:30 Kona á áttræðisaldri með nýgreint dreift lífhimnukrabbamein kemur í lyfja-meðferð. Nú minna þanin, laus við ógleðina og líður vel.

11:00 Tæplega áttræð kona með brjóstakrabbamein kemur í lyfjameðferð. Var í endurstigunarrannsóknum í gær og tölvusneiðmynd sýnir verulegan regress. Við erum bæði ánægð með það.

11:30 Tæplega áttræður Eyrbekkingur með vélindakrabbamein kemur í lyfjameðferð. Allt gengur vel. Ræðum listalífið á Bakkanum.

11:45 Afgreiði 3 símtöl frá sjúklingum.

12:00 COVID-stöðufundur. Staðan á Suðurlandi. 8 ný smit. Góðar kvenfélagskonur ætla að styrkja okkur um eina og hálfa milljón til kaupa á súrefnismælum og súrefnissíum. Mikill er velvilji þeirra.

12:30 Fer yfir nokkra netpósta framkvæmdastjórnar vegna tveggja nýsköpunarverkefna sem eru á döfinni.

12:50 Hádegismatur, lambalæri. Eldamennska Bjarna bryta er að mestu leyti ábyrg fyrir hinum auknu byrðum sem baðvogin mín hefur þurft að bera að undanförnu.

13:00 Fer inn á legudeild og fer yfir inni-liggjandi krabbameinssjúklinga með aðstoðarlæknum.

13:30 Áfram heldur göngudeildin. Maður á sextugsaldri með carcinoid og essential thrombocytosis. Enginn afsláttur á sandostatini og Hydrea hér.

14:00 Hitti nýjan sjúkling, konu á áttræðisaldri með brjóstakrabbamein. Ræðum lyfja-meðferð og bóndi hennar segir mér frá spilamennsku sinni með langafa mínum Böðvari Magnússyni á Laugarvatni hér á árum áður!

14:30 Annar nýr sjúklingur. Tæplega áttræður maður nýgreindur með myelodysplastískt syndrome. Hressum svolítið uppá merginn hans með Aranesp.

15:00 Bið mitt góða skrifstofugengi að ganga frá ráðningu ungs aðstoðarlæknis sem ætlar að koma til okkar í haust.

15:30 Flettifundur fyrir bakvaktina ásamt mínum góða kollega Birni Magnússyni lungnalækni og aðstoðarlæknunum Lindsey English og Andreu Eggertsdóttur.

16:30 Skima nýjustu emaila. Skipulegg morgundaginn.

17:00 Flýg heim úr vinnu á Töfrateppinu. Vörubíll á hliðinni rétt fyrir austan Hveragerði. Sérkennilegt hvernig hægt er að velta bíl á jafnsléttu.

17:45 Kem heim. Svangur. Næ einni lófafylli af salthnetum áður en frúin kemur heim úr vinnu og rennir í hlað.

18:00 Við hjónin tökum okkar hefðbundna 30 mínútna göngutúr um miðbæ Hafnarfjarðar. Milt og fallegt veður, spegilsléttur sjór.

18:40 Karlinn lagar „Parmesanhjúpaðar kjúklingabringur“. Heimilismenn eiga vart nógu sterk lýsingarorð til að lýsa ánægju sinni með eldamennskuna.

20:30 Komnir eru í hús utankjörstaðaratkvæðaseðlar okkar hjóna vegna kosninganna í Bandaríkjunum. Gott er að vera bandarískur ríkisborgari og geta lagt sitt lóð á vogarskálarnar til að enda þá firringu sem heltekið hefur okkar annað föðurland undanfarin fjögur ár.

21:00 Tek tvo þætti um Jim Comey fyrrum forstjóra FBI á Síminn-Premium. Feikna góðir þættir.

23:00 Tími til að skríða í koju.Þetta vefsvæði byggir á Eplica