11. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Raddir lækna erlendis - COVID-19. Jón Atli Árnason klínískur prófessor í gigtlækningum í Wisconsin-ríki

Jón Atli segist sem betur fer vera við góða heilsu og hafa sloppið við COVID og allar vægari pestir líka, enda hafi hann verið með skurðgrímu fyrir vitunum síðustu 6 mánuði. „Kunningjar mínir hafa veikst en hafa náð sér aftur. Sjúklingar mínir líka. Ég hef hins vegar áhyggjur af afleiðingum faraldursins, bæði hvað varðar heilsu fólks, atvinnustarfsemi og efnahag. COVID hefur sett flest úr skorðum.“

Hann bætir við þetta að fólk sé einnig mun einangraðra en áður. Samskipti við fjölskyldu og vini séu minni og þau séu svo til öll án þess að fólk hittist. „Við ætluðum að vera talsvert á Íslandi í ár en þurftum að fresta því og höfum ekki hitt börnin okkar lengi, en hvorugt þeirra býr í Bandaríkjunum. Við höfum heldur ekkert ferðast hér innanlands, ekki farið á veitingastað, tónleika, leikhús eða söfn. Ég hef eiginlega ekki farið út fyrir Madison síðustu 6 mánuði nema í hjólatúra til heilsubótar.“

Alltaf með skurðgrímu og andlitshlíf

Hann segir álagið í starfi sínu vera eins og áður, en það hafi breyst mikið hvernig hann vinni, bæði við lækningar og kennslu. „Ég vinn að mestu á göngudeild en sinni ráðgjöf á háskólasjúkrahúsinu. Í upphafi var flestum göngudeildum lokað og einungis bráðamóttökur voru opnar. Ég var þá heima og talaði við sjúklinga í síma eða á netinu. Við höfðum verið að undirbúa fjarlækningar um hríð, en þurftum nú að setja þær í gang með nokkurra daga fyrirvara. Göngudeildin opnaði svo aftur í júní, en við sinnum samt enn um það bil helmingi sjúklinganna með fjarlækningum. Á dæmigerðum degi er ég með 10-12 sjúklinga í fjarlækningum og tek á móti jafn mörgum í viðtal og skoðun, ómskoðanir og liðástungur. Þegar ég hitti sjúklinga er ég alltaf með skurðgrímu og andlitshlíf.“

Mörg sjúkrahús komin að þolmörkum

Jón Atli segir alla almenna starfsemi nú fara fram á netinu, en hann kenni hins vegar einkum með beinni handleiðslu á göngudeild eða sjúkrahúsi á sama hátt og áður, nema hvað reynt sé að gæta þess að standa ekki of þétt og allir séu með grímur og andlitshlífar. „Hér var búist við holskeflu tilfella strax á vormánuðum, að spítalinn myndi yfirfyllast og fjöldi lækna veikjast. Því var á svipstundu gert nýtt vaktafyrirkomulag, þannig að alltaf væri einhver tiltækur ef einhver læknir veiktist. Auk þess var gerð áætlun um að kalla inn af göngudeildum þá sérfræðinga sem töldust enn nægilega vel að sér í sjúkrahúslækningum til geta gert gagn ef á þyrfti að halda. Ég er í þessum hópi og fékk smá upprifjun í sjúkrahúslækningum. Ég hef sem betur fer ekki enn verið kallaður til þeirra starfa, en það kann að breytast því nú er mikil aukning í tilfellum í Wisconsin-ríki og mörg sjúkrahús komin að þolmörkum.“

Faraldurinn afhjúpar veikleika

Spurður um hvaða hug hann beri til þess tíma sem liðinn er af árinu í ár og hvaða væntingar hann hafi til næsta árs, segir Jón Atli að til þess að ástandið batni þurfi gott bóluefni. „Þó það komi vonandi brátt mun taka marga mánuði að bólusetja nógu marga til að það skili árangri. Ég býst því ekki við að neitt breytist næsta árið. Faraldurinn hefur afhjúpað þá veikleika sem eru í heilbrigðiskerfinu og stjórnkerfinu, bæði hér og á Íslandi. Þegar allt verður um garð gengið vona ég náttúrulega að við verðum öll reynslunni ríkari og berjum í brestina, en því miður er ólíklegt að stjórnmál batni neitt að ráði fyrr en stjórnmálamenn læra að fara eftir leiðbeiningum fagfólks.“

Íhaldssamir hunsa lýðheilsufyrirmæli

Þegar Ísland og Bandaríkin eru borin saman segir Jón Atli að lengi vel hafi honum þótt aðdáunarvert hversu vel Íslendingar tóku á málum. „Ég sagði vinnufélögum og vinum mínum stoltur frá því hvernig stjórnmálamenn hefðu stigið til hliðar og látið fagfólk um að taka allar helstu ákvarðanir um viðbrögð við faraldrinum. Auðvitað var ég þarna líka að vísa til þess hvernig heimskir stjórnmálamenn hér gerðu hið gagnstæða, hundsuðu góð ráð og vísindi og gerðu illt verra. Reyndar voru viðbrögðin í mínu nánasta umhverfi, á háskólasjúkrahúsinu og háskólabænum Madison, líka allgóð og árangurinn svipaður og á Íslandi. Það er hins vegar ekki tilfellið í Wisconsin-ríki í heild, enda eru dreifbýlisbúar hér íhaldssamir og fara ekki eftir hollum lýðheilsufyrirmælum.“

Faraldurinn snertir stjórnmál og umhverfismál

Hvað telur hann að hefði verið hægt að gera betur í aðgerðum gegn veirunni? „Grípa fyrr til aðgerða og líka hvetja fólk til að nota grímur strax í upphafi. Það var líka alltof snemma slakað á höftum. Ef beðið hefði verið með að opna og koma á eðlilegri starfsemi fram á haust, væri ástandið sennilega miklu betra en það er nú. Lærdómurinn af þessu er hins vegar sá að það er hægt að fá almenning til að standa saman ef rétt er staðið að málum og jafnvel stórar stofnanir, eins og háskólasjúkrahús þar sem þúsundir vinna, geta brugðist hratt við og aðlagað starfsemina að breyttum aðstæðum. Fjarlækningarnar hafa gengið ótrúlega vel og ég býst við að þær haldi áfram í einhverri mynd. Við verðum þó að vera viðbúin því að svipaðir faraldrar geti komið á næstu árum. Við þrengjum að villtum dýrum og aukum þar með líkurnar á að við komumst í snertingu við sýkingavalda sem við höfum lítið ónæmi gegn. Þetta er því ekki bara læknisfræðilegt vandamál heldur snýst þetta um stjórnmál og umhverfismál líka.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica