11. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Í sóttkví eftir að hafa sinnt stríðshrjáðum hermönnum, segir Hilmar Kjartansson

Hilmar Kjartansson, bráðalæknir og einn stofnenda Kerecis, segir að hann geti vel hugsað sé að snúa alfarið á bráðamóttökuna aftur ef ævintýrið í kringum líftækni- og lækningafyrirtækið klárist.

„Það var með blendnum hug þegar ég sagði upp yfirlæknisstöðunni á bráðamóttöku Landspítala til að geta sinnt Kerecis meira. Bæði af því að mér finnst mjög gaman að vinna á bráðamóttökunni og gaman að því að vera í teymi þar og sjá sjúklinga,“ segir Hilmar Kjartansson, bráðalæknir og einn stofnenda Kerecis.

Jeffery með armenskum starfssystkinum sínum sem þeir kenndu aðferðirnar við að meðhöndla sárin með vestfirska sáraroðinu.

Hann ákvað að grípa tækifærið og freista þess að breyta því hvernig þrálát sár eru meðhöndluð á heimsvísu. Hann sinnir nú hlutastarfi á bráðamóttökunni. „Það er afar góð tilhugsun að geta hugsanlega haft áhrif á læknisfræði framtíðarinnar.“

Kerecis hóf starfsemi árið 2013 en fyrirtækið framleiðir afurðir byggðar á affrumuðu þorskroði, sem hafa jákvæð áhrif á frumuvöxt og eru notaðar til meðhöndlunar á þrálátum sárum og brunasárum. Kerecis hefur sprungið út síðustu misseri. Starfsmenn eru 130, þar af 50 hér á landi, bæði í Reykjavík og Ísafirði, 6 í Sviss og Þýskalandi og aðrir 6 í Arlington í Texas í Bandaríkjunum. Rekstrartekjur fyrirtækisins námu hátt í 3 milljörðum króna í fyrra sem var tvöföldun milli fjárhagsára.

Í sóttkví eftir Armeníuför

Hilmar er í sóttkví þegar Læknablaðið ræðir við hann eftir að hafa sinnt stríðshrjáðum mönnum sem börðust um Nagorno-Karabakh í Suður-Kákasus; svæði sem er bitbein Armena og Asera. Hilmar fór ekki einn. Með í för var Stephen Jeffery, lýtalæknir og undirofursti í breska hernum. Þeir meðhöndluðu bæði bruna- og sprengjusár með roðgræðlingum Kerecis, sáraroði unnu úr þorskroði, sem lagt er í sárið og aldrei tekið af. Svokölluð gjafahúð.

„Það er sorglegt og átakanlegt að sjá alla þessa ungu menn í blóma lífsins með þessa alvarlegu áverka,“ segir Hilmar sem flaug til Jerevan í Armeníu í gegnum Varsjá og Minsk í Hvíta-Rússlandi. Hann kom heim í gegnum Beirút og London. Tilgangur ferðarinnar var að kenna armenskum læknum rétta notkun á sáraroðinu. Þeir Jeffery störfuðu í þrjá daga við aðgerðir á tveimur spítölum ytra og sinntu alvarlegum áverkum armensku hermannanna.

2.-Hilmar-og-sarid-tilbuid-3

Hér má sjá hvernig roðgræðlingurinn er saumaður í sárið. Hilmar segir að framförin hafi verið mikil á aðeins einni viku. Myndir aðsendar

„Þarna sáum við 90 hermenn með sprengjuáverka, opin beinbrot og skaða á mjúkvefjum á öðrum spítalanum og brunadeild annars spítala var svo full af brenndum og særðum hermönnum,“ segir hann. „Ég hef séð viðlíka áverka í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og hér á landi í þjálfun minni en ekki í þessum mæli.“

Rætur ferðarinnar liggja í heimsókn Armena hingað til lands í janúar, þar sem sáraroðið var kynnt fyrir fulltrúum þaðan. Þeir hafi síðan kallað eftir roðinu þegar stríðið skall á. Hann hafi ekki séð tilgang með því nema að þeir fengju kennslu í meðferðinni.

„Ég fékk því leyfi hjá konunni minni og Jóni Magnúsi, yfirmanni mínum á bráðamóttökunni. Bráðalæknirinn í mér er víst alltaf tilbúinn að bregðast við.“

Vöruþróun skilar árangri

Hilmar segir það hvetja þá til dáða hve vel hafi gengið með vöruþróun fyrirtækisins.

Vörulína Kerecis sé nú í þróun og henni sé meðal annars ætlað að styrkja sinar, hlúa að taugum og hjálpa til eftir aðgerðir í munnholi. Þannig sé margt nýtt á teikniborðinu. Hann segir að Kerecis hafi notið góðs af íslensku styrkjakerfi og straumhvörf hafi svo orðið þegar bandaríski herinn hafi veitt fyrirtækinu styrki, fyrst árið 2014 fyrir útlimaáverka, 2016 fyrir brunarannsóknir og svo þann þriðja í þessum mánuði fyrir frekari þróun meðferðar við alvarlegum útlimaáverkum.

„Þetta eru þær sáragerðir sem við Stephen Jeffery hjálpuðum armensku læknunum við. Ég hef fengið að sjá myndir nú viku síðar og það er ótrúlegt að sjá hvað sárin hafa brugðist vel við.“ Jeffery er farinn aftur út og fylgir sjúklingunum eftir og þjálfar lækna á fleiri sjúkrahúsum.

„Við höfum fengið Evrópustyrk fyrir stórar klínískar rannsóknir í Svíþjóð, Þýskalandi, Frakklandi og á Ítalíu.“ Rannsóknin sé farin af stað í Frakklandi og stefnt að því einnig í hinum löndunum fyrir áramót. Þá má nefna að Kerecis stendur einnig að þannig rannsókn hér á landi með COVID-göngudeildinni með nærri 130 þátttakendum.

„Það vita allir orðið um Kerecis,“ segir hann og við snúum talinu aftur að sáraroðinu. „En það hefur kostað talsverðan tíma, þátttöku í ráðstefnum síðastliðinn áratug í Bandaríkjunum og birtingu fjölmargra vísindagreina til að ná á þann stað.“ Vísindaleg gögn sýni að sáraroðið virki umfram viðlíka vörur. Þegar hafi 50 þúsund manns verið meðhöndluð í Bandaríkjum.

„Ég hef hitt sjúklinga með þrálát sár sem hafa fengið gróanda eftir stundum áralanga baráttu.“ Hann hafi hitt konu sem hafi eftir flókna mjaðmaaðgerð fengið fitutappa í fót og drep í kjölfarið. Þorskroðið hafi hjálpað henni til bata sem aftur hafi bægt frá henni sjálfsvígshugsunum.

„Þrálát sár eru faraldur sem liggur í leynum,“ segir Hilmar. „Þau eru skerðing á lífsgæðum og saga konunnar endurspeglar þessa miklu þörf til þess að finna lausnir á þessum vanda sem Kerecis vinnur að.“

En hvað verður svo um Armeníusamstarfið nú í framhaldinu? „Vonandi leysa þeir vandann og semja um frið í kringum Nagorno-Karabakh. Þá sé ég fyrir mér að þeir geti farið að meðhöndla sykursýkissár og áverka og sjúkdóma af eðlilegum orsökum frekar en stríðsátökum. Við sjáum fyrir okkur að Armenía geti leitt okkur inn á nýja markaði.“

Ævintýrið hófst í Nýja-Sjálandi

Hilmar stundaði sérnám sitt í bráðalækningum á Nýja-Sjálandi árin 2004-2009 og var fyrstur íslenskra lækna til að fá þar lækningaleyfi. Þar kynntist hann Guðmundi Fertram Sigurjónssyni, framkvæmdastjóra Kerecis, sem vantaði ráðgjafa með bakgrunn í læknisfræði, en Guðmundur vann þá hjá nýsjálensku fyrirtæki sem þróaði sáravörur úr keratíni úr ull, enda kindur ær og kýr þess lands.

„Það voru fyrstu kynni mín af nýsköpun,“ segir Hilmar. Guðmundur hafi svo aftur haft samband við hann fyrir rúmum áratug kominn heim með þá hugmynd að vinna með þorskroð og hann slegist í hópinn með þeim Baldri Tuma Baldurssyni húðlækni og Ernest Kenney, lögfræðingi í Bandaríkjunum, og þeir stofnað fyrirtækið 2009. „Ég hef verið með í öllum rannsóknum sem við höfum gert, hvort sem það hafa verið frumurannsóknir eða dýratilraunir,“ segir Hilmar í sóttkvínni.

Síðan hann kom heim frá Nýja-Sjálandi hafi hann farið þangað aftur út með sáraroðið. Hann fór þegar gaus á Whakaari-eyju sem er tæpum 50 kílómetrum norðnorðaustur af Norðurey landsins. Alls lést 21 í gosinu og meginþorri þeirra 26 sem voru á eyjunni og lifðu brenndist illa.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica