11. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Bent á úrræði – en hvað tekur við? – rætt við Önnu Björgu Jónsdóttur yfirlækni á Landakoti og kennslustjóra í öldrunarlækningum við Háskóla Íslands

Anna Björg Jónsdóttir öldrunarlæknir var ráðin yfirlæknir dag-, göngu- og samfélagsdeildar á Landakoti fyrir tveimur árum. Hún er einnig kennslustjóri öldrunarlækninga í hlutastarfi, en sérnám í öldrunarlækningum var nýlega sett á laggirnar. Hún hefur lagt áherslu á að auka tengsl deildarinnar við aðrar deildir Landspítala en ekki síður við heilsugæsluna og einnig heimahjúkrun.

Öldruðum fjölgar og sumir eru hissa

,,Það er ekkert óvænt við að fjölgað hafi í hópi aldraðra, það hefur lengi verið vitað hvert stefndi. Svolítið fyndið hvað það virðist koma sumum í opna skjöldu og því miður hafa margir sofið á verðinum.“

Anna Björg í stiganum á Landakotsspítalanum. Mynd/aób

Anna Björg var áður kennslustjóri í almennum lyflækningum og undir þær féllu öldrunarlækningar þá. ,,Öldrunarlækningar eru sérgrein sem sérhæfir sig í hrumum, fjölveikum öldruðum með færniskerðingu. Sú sérgreinaskipting sem varð til fyrir 50 árum hentaði þá en kerfið var ekki búið undir að fjöldi einstaklinga, einkum aldraðir, gæti verið með vandamál í fleiri en einu líffærakerfi. Öldrunarlæknar þurfa öðrum fremur að horfa á manneskjuna í heild, við getum ekki lokað okkur af í sílóum. Við þurfum að geta sinnt hrumu, fjölveiku fólki með bráð veikindi og getum ekki leyft okkur að horfa á það með sérgreinagleraugum. Það krefst teymisvinnu að finna bestu lausnina fyrir hvern einstakling. Þar þurfa læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfar, iðjuþjálfar, sálfræðingar og fleiri heilbrigðisstéttir að koma að.“

Við höfum lausnir

,,Okkar hlutverk á Landakoti er ekki síst að sjá til þess að aldraðir fái greiningu og benda á hvers konar þjónusta hentar best fyrir hvern og einn. Þar með er ekki sagt að fólk fái þá þjónustu. Verulegur skortur er til dæmis á plássum í almennri dagþjálfun og hana vantar alveg í fjölmennum hverfum í austanverðri borginni og flestum nágrannasveitarfélögunum. Þetta er tiltölulega ódýr starfsemi sem gæti gagnast mjög mörgum sem nú fá enga eða ófullnægjandi úrlausn. Það skiptir svo miklu máli að fólk fái þjónustu í nærumhverfinu. Víða út um land er unnt að veita fólki einstaklingsbundnari þjónustu en hér á höfuðborgarsvæðinu. Lengi hefur vantað að samræma margvíslega þjónustu og ákveðinn aðila til að kynna hana fyrir öldruðum og aðstandendum og það getur valdið pirringi. Fólk þyrfti að geta snúið sér til einnar manneskju sem setti saman samræmda þjónustu byggða á þeirri greiningu sem við leggjum til. Sem betur fer er verið að vinna að slíku verkefni nú innan heilsugæslunnar. Lausnirnar sem henta hverjum og einum eru margbreytilegri en þær sem nú eru í boði en sums staðar þarf fyrst og fremst að tryggja að fleiri komist að og ég tek ekki afstöðu til þess hverjir eigi að sjá um þjónustuna, opin-berir eða einkaaðilar. Það er sorglegt að vera búin að finna út hvaða einstaklings-áætlun hentar sjúklingi en sjá svo fólk bíða mánuðum saman á biðlista og hraka hratt á þeim tíma. Því getur hrakað svo að það þurfi á mun dýrari lausnum að halda, svo sem innlögn á bráðadeild með tilheyrandi útskriftarvanda og svo hjúkrunarheimili. Fyrst og fremst er þetta þó spurning um lífsgæði aldraðra. Ég fékk smá menningarsjokk þegar ég kom úr sérnámi í Danmörku og fann hvað við stóðum Dönum langt að baki í mörgu. Svo vantar sárlega einhver millistig milli heimaþjónustu og hjúkrunarheimila, ný og betri búsetuúrræði. Stað þar sem fólk getur búið heima hjá sér í öruggu umhverfi með stuðningi, gjarnan í sambýli við fleira fólk.“

Einmanaleikinn ekki aðeins á tíma kórónuveirunnar

,,Í vetur, þegar COVID-19 kom upp, urðum við vör við að töluvert margir aldraðir upplifðu mikinn einmanaleika og kvíða, vandamál sem var þegar til staðar varð alvarlegra. Afar og ömmur búa ekki lengur inni á heimilum afkomendanna, það er löngu liðið. Augu fólks beindust að þessum vanda út af COVID og ástandið var erfitt í vor. Við þurftum að loka okkar deild, en nú í haust höfum við ákveðið að hafa opið og nýta allar þær varúðarráðstafanir sem unnt er að grípa til og þær eru gríðarlegar. Í upphafi faraldursins var lögð mest áhersla á að verja fólk fyrir líkamlegum áhrifum COVID, en andleg líðan og einangrun geta líka verið heilbrigðisvandamál. Fólk tapar færni, fer ekki úr út húsi, hreyfir sig ekki, einangrast heima, nærist ekki, hittir ekki vini og ættingja og koðnar niður. Sums staðar var dagþjálfun lokað í vor en annars staðar ekki. Við sáum merkjanlegan mun á hópunum sem nutu dagþjálfunar og þeirra sem gerðu það ekki. Sáum fólk sem hafði lést gríðarlega, misst færni til venjubundinna athafna og var skelkað. Tölvufærni margra aldraðra er takmörkuð eða engin og það eykur bæði á einangrunina og útilokar þá frá því að sækja sér ýmsa þjónustu, svo sem að geta pantað sér mat gegnum netið. Öryggið skiptir enn sem fyrr mestu máli en á þessu ástandi þarf að finna lausn og búseta á sambýlum aldraðra hefði getað komið í veg fyrir einangrun.

Hjá okkur er staðan sú að hér mynduðust biðlistar og ásóknin jókst, tilvísunum fjölgaði. Það mun taka tíma að vinda ofan af þessu.

Við ákváðum að gera örkönnun meðal skjólstæðinga okkar til að fá staðreyndirnar á borðið og staðfesta þá tilfinningu sem við höfum fyrir ástandinu. Við sjáum til dæmis að næstum því 70% segja að COVID hafi breytt þeirra daglegu rútínu og um 80% segja að COVID hafi haft áhrif á líðan þeirra til hins verra. Um 95% segjast hitta vini og ættingja minna en áður. Mér finnst það skylda mín að leggja fram upplýsingar um hvert ástandið er hjá öldruðum, það er fyrsta skrefið til breytinga.

Í sjálfu sér vitum við margt um hvernig má bæta stöðu aldraðra. Þar skiptir bæði máli aðgangur að aðila sem er tengiliður og samhæfir þjónustuna, vaxandi teymisvinna milli ólíkra aðila heilbrigðis- og félagsþjónustu og fjölbreyttari búsetuform. En okkur vantar alltaf fleira heilbrigðisstarfsfólk í öldrunarþjónustu. Ég bind miklar vonir við sérnámið í öldrunarlækningum, þetta er ein besta sérgrein sem hægt er að læra, fjölbreytt, kostur á sérhæfingu og auk þess eitt helsta framtíðarviðfangsefni heilbrigðisþjónustunnar.“

Snögg umskipti á Landakoti

Frá því viðtalið við Önnu Björgu Jónsdóttur var tekið hafa orðið snögg umskipti á Landakoti. Umskipti sem ekki sér fyrir endann á er þetta er ritað, 25. október 2020. Alvarleg hópsýking var staðfest á spítalanum 22.10. Fjöldi sjúklinga og starfsmanna hefur þurft að fara í sóttkví auk þess sem veikustu sjúklingarnir hafa verið færðir á Landspítala í Fossvogi. Landspítalinn hefur vegna þessa ástands í fyrsta sinn verið færður á neyðarstig.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica