11. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Læknafélagið setur sér jafnréttisstefnu

Kynjahlutfall í stjórnum, nefndum og ráðum félagsins árið 2020 er 53%, körlum í vil. Karl fer með formennsku stjórna, nefnda og ráða í 75% tilvika og kona í 25% þeirra. Tölurnar eru birtar í fyrsta sinn og koma fram í ársskýrslu félagsins, en konur eru tæp 43% félagsmanna LÍ, karlar tæp 57%.

„Ég lít svo á að það sé eðlilegur þáttur að varpa ljósi á þennan halla og fylgja eftir að það verði breytingar,“ segir Ólöf Sara Árnadóttir, handaskurðlæknir og formaður samskipta- og jafnréttisnefndar.

Stjórn Læknafélagsins hefur samþykkt jafnréttisstefnu fyrir félagið. Hún er komin á heimasíðuna og var kynnt á rafrænum aðalfundi félagsins 29. október. Nefndin leiddi vinnuna við jafnréttisstefnuna en hún var skipuð haustið 2018 í kjölfar #metoo-yfirlýsingar lækna. Öll aðildarfélög LÍ eiga tvo fulltrúa í henni.

„Við erum stolt af því að hafa komið jafnréttisstefnunni til leiðar. Hún á að vera lifandi skjal og laga sig að breyttum tímum. Vonandi sjáum við hana í framtíðinni verða að alhliða mannréttindastefnu, því þetta fléttast allt saman,“ segir Ólöf Sara.

Ívið fleiri karlar sitja í stjórnum, nefndum og ráðum hjá Læknafélaginu en konur. Þeir veljast frekar í forystuhlutverk þeirra, eða í 75% tilvika.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica