10. tbl. 106. árg. 2020
Umræða og fréttir
Óútskýrðum dauðsföllum fjölgar, viðtal við Pétur G. Guðmannsson réttarmeinafræðing
Pétur Guðmann Guðmannsson réttarmeinafræðingur á Landspítala hefur krufið nærri 190 lík vegna óútskýrðra dauðsfalla hér á landi í ár, álíka mörg og krufin voru allt árið í fyrra. Embætti landlæknis hefur ekki birt bráðabirgðatölur úr dánarmeinaskrá í ár þar sem skýrslugerð vegna andlátanna hefur dregist vegna álagsins
„Ég reyni að forgangsraða,“ segir Pétur. Hann fær brátt liðsauka fjóra daga í mánuði. Snjólaug Níelsdóttir, sem er einnig sérmenntuð í réttarmeinafræði, flýgur frá Danmörku og kryfur með honum líkin.
Pétur Guðmann Guðmannsson, réttarmeinafræðingur, hefur krufið hátt í 190 lík það sem af er ári. Hann hefur útvíkkað starfsemina og gerir einnig áverkavottorð í fjölda ofbeldismála hér á landi. Hér er hann í kjallara húss meinafræðideildarinnar á Barónsstíg rétt að fara að kryfja lík ungs manns með aðstoð læknanema. Mynd/gag
„Við vissum ekki af henni fyrr en nýlega. Ég hélt ég væri einn og varð því afar ánægður þegar Snjólaug dúkkaði upp. Það er ánægjulegt að hafa kollega. Þetta starf getur verið einangrandi. Það er ekki gott að vera einn, aleinn í fagi,“ segir Pétur sem kryfur líkin í kjallara meinafræðideildarinnar við Barónsstíg. Þar hefur verið krufið undanfarna áratugi. „Aðstaðan endurspeglar svolítið afstöðuna til greinarinnar,“ segir Pétur kíminn.
Embætti landlæknis hefur ekki birt bráðabirgðatölur úr dánarmeinaskrá fyrir 2020 þar sem vinna við niðurstöður úr krufningum hefur dregist. Þessar upplýsingar leiddu Læknablaðið að Pétri. „Ég kryf strax,“ segir hann. „Geri bráðabirgðaskýrslu og lokaskýrslu um leið og tækifæri gefst.“ Margt hafi áhrif á vinnslutímann. „Niðurstöður frá eiturefnafræðingum. Niðurstöður vefjasýna í smásjá sem stendur stundum á og tefur vinnu við lokaskýrslu.“ Hann eigi enn ólokið skýrslum vegna tuga þeirra 186 krufninga sem hann hafi gert á árinu. Þær elstu frá lokum maí.
Einn í krufningum frá áramótum
Pétur hefur starfað einn að krufningunum allt þetta ár. Hann segir skyndidauðsföllum af óútskýrðum ástæðum hafa fjölgað í ár. „Tilfinningin er að þeim hafi fjölgað verulega.“ Pétur kryfur aðeins þau sem látast skyndilega; verða fyrir slysi, láta lífið fyrir eigin hendi eða eru myrt. „Réttarkrufningar eru óvænt dauðsföll, engin sjúkdómssaga,“ lýsir hann.
Hann segir um 8-10% þeirra sem deyja hér á landi fara í réttarkrufningu. „Um 200 á ári, stöðug tala, en í ár eru þau rétt að verða 190 og þrír og hálfur mánuður eftir af árinu. Það hefur verið mikið að gera,“ segir Pétur. „Tilfinningin er að sjálfsvígum fjölgi.“
Pétur segir að frá því að hann kom heim frá Rättsmedicinalverket í Linköping í Svíþjóð fyrir um tveimur árum hafi starfið þróast í takt við þekkingu hans. „Ég hef kynnt meiri klíníska réttarmeinafræði og tekið að mér að skoða áverka í líkamsárásarmálum. Því vandist ég í Svíþjóð,“ segir hann.
„Ég skoða þá í tengslum við heimilisofbeldi og ef grunur er um misþyrmingar á börnum.“ Það sé betra en ef einstaklingar fái útgefið áverkavottorð frá mismunandi læknum á bráðamóttöku jafnvel vikum eftir að skoðunin átti sér stað. Hann hafi sérþekkingu í málinu, réttarlæknisfræðina.
Vinnur að því að auka gæðin
„Ef við réttarmeinafræðingar gerðum meira af þessum vottorðum myndu gæðin klárlega aukast,“ segir hann. „Að baki ákæru um tilraun til manndráps liggur oft skýrsla lækna með mismikinn áhuga og þekkingu á áverkatúlkun, sem sett er á fínan pappír.“ Hann segir að enn sé hægt að bæta áverkavottorðagerð. „Það er leiðinlegt að bægja því frá sér nú þegar álagið er svona mikið.“
Pétur ber saman aðbúnaðinn hér heima og í Svíþjóð. „Greinin er sú sama en stofnunin hér er ekki til staðar,“ segir hann og lýsir því nánar. „Hér heyrum við réttarmeinafræðingar undir meinafræðideildina.“ Yfirbyggingin sé lítil og fátt til staðar sem styðji við starfsemina, eins og gæðastjórnun, sem sjá megi á stærri stofnunum. „Ég hef því verið að byggja upp gæðakerfi. Það er nauðsynlegt,“ segir hann. „Maður hefur sama fræðilega og faglega metnað. Hér er maður einn að sýsla í öllu en í Svíþjóð er fólk sem heldur utan um gæðahandbækur og skráningar og annað sem tilheyrir utanumhaldinu.“
En hvers vegna kaus hann að koma heim frá Svíþjóð? „Klassískar ástæður,“ segir hann. „Landið mitt, fjölskyldan mín, tengslin. Svo var þetta ástand hér. Síðustu 10-12 ár hafa verið reddingar frá ýmsum löndum sem hafa verið til skamms tíma. Sebastian Kunz var hérna til síðustu áramóta. Hann gat verið aðra hverja viku. Hér var laus staða. Það dró mig heim,“ segir Pétur.
Líffærafræði og handavinna
„Þetta er svo áhugavert, bæði starfið og uppbyggingin. En það sem liggur að baki er áhugi á anatómíu; líffærafræði, og handavinnu. Ekki beint áhugi á glæpum heldur að vinna í friði með höndunum. Ef maður er þannig lundaður er þetta tilvalið starf,“ segir hann.
„Þessi sérgrein er óvinsæl. Fáir velja hana og erfitt að fá nemendur til leiks en ég hef unnið af krafti að því að fá unga lækna til að prófa, kveikja í þeim og finna kandídata til að læra fagið.“ Opið sé fyrir tvær stöður á spítalanum. „En enginn bítur almennilega á agnið,“ segir hann og lýsir starfinu sem fjölskylduvænu.
Pétur var einmitt að fá 3. árs læknanema á leið í sína fyrstu krufningu í heimsókn þegar Læknablaðið kíkti á hann. Látinn karlmaður lá á borðinu undir dúknum. Krufningin rétt að byrja. „Þetta er ótrúlega þægileg sérgrein. Sjálfstæði og einangrun frá þessu klíníska. Einn og einn sérlundaður smellpassar í hana.“