10. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

„Ég fékk ekki að hætta.“ Lúðvík Ólafsson neitar að hætta

Nú er hann hættur. En þó ekki. Lúðvík Ólafsson heimilislæknir ætlaði að hætta
að vinna 2014 en var kallaður aftur út. Nú 76 ára er hann hættur að taka á móti
sjúklingum en ætlar að kenna enn um sinn

Lúðvík Ólafsson neitar að hætta. „Nei, það er misskilningur,“ segir Lúðvík og hlær. „Ég fæ ekki að hætta. Ég ætlaði að reyna að vera hættur fyrir löngu. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir því.“ Heimilislæknirinn hafi dregist inn í stjórnunarstörf en lofað sjálfum sér að taka á móti sjúklingum síðustu starfsárin. Hann er ánægður með að það skuli hafa tekist en hann var lækningaforstjóri heilsugæslunnar í rúm 13 ár, héraðslæknir Reykjavíkurlæknishéraðs í 4 ár og þar áður heimilislæknir í nær 17 ár.

Lúðvík Ólafsson starfaði vel á annan áratug sem lækningaforstjóri heilsugæslunnar. Hann er í þann veginn að hætta að vinna, en þó ekki alveg þótt hann sé kominn hátt á
áttræðisaldur. „Allt sem við gerum í þessum heimi er til að líða betur. Hafa góða heilsu. Hafa það gott,“ segir Lúðvík. Mynd/gag

„Ég hafði ákveðið að hætta 63 ára, taka sjö síðustu árin í klíník. En einhvern veginn upplifir maður sig ómissandi þar sem maður er, þannig að ég hélt áfram til sjötugs í stjórnunarstörfum. Ég hafði gefið yfirlækninum í Mjódd ádrátt. Hann gæti haft samband við mig ef illa gengi að manna. Svo hermdi hann þennan ádrátt upp á mig þegar ég hafði verið í fríi, hættur í hálft ár, og ég byrjaði að vinna í Mjóddinni haustið 2014. Ég ætlaði að hætta í hitteðfyrra, gekk ekki. Svo í fyrra, en núna hætti ég,“ segir Lúðvík þegar við hittumst í húsakynnum Læknafélagsins fyrstu vikuna í september.

Hann er þó ekki hættur. Er með námslækni í handleiðslu næsta árið. „Mér fannst rétt að halda áfram svo hún þyrfti ekki að skipta,“ segir Lúðvík sem nú leiðbeinir Önnu Daníelsdóttur síðasta spöl hennar í sérnámi til heimilislæknis.

Lúðvík segir að hann hafi nóg að gera. Golfið stundar hann á sumrin. „Það er nú samt ekki aðalatriðið.“ Nýtur lífsins í sumarbústað þeirra hjóna. „Já, það er gaman að vinna þar.“ Svo lærir hann spænsku. „Byrjaði á því fyrir einu og hálfu ári.“

Hjónin útskrifuðust saman

Hann er ekki einn því konan hans, Hildur Viðarsdóttir, hefur fylgt honum í gegnum lífið. Bæði læknar. Kynntust á menntaskólaárunum, en þó ekki í skólanum. „Við hittumst í bæjarvinnunni í Hljómskálagarðinum.“ Hófu bæði nám í læknadeildinni þar sem þau náðu saman. Þar fylgdust þau svo að og kláruðu 1971, giftingarárið. Tvö börn. Hvorugt þeirra læknir.

En af hverju varð hann læknir? „Ég hafði áhuga á náttúrufræði og eðlisfræði en einhvern veginn varð það úr að ég ákvað að fara í læknisfræði. Eftir fyrsta hlutann velti ég því mikið fyrir mér hvort ég ætti að vinda mér í lífeðlisfræði og ræddi það við kennara. Jón Steffensen prófessor sagðist aldrei hafa heyrt vitlausari hlut. Það væri svo gott að vera læknir,“ segir Lúðvík sem var ekki viss um stefnu þegar hann útskrifaðist.

„Ég var töluvert mikið á spítaladeildum og hugurinn hafði stefnt að vísindastarfi svo ég ákvað að verða veirufræðingur.“ Hann réð sig á Keldur og tók þar fyrstu skrefin þegar hann áttaði sig á því að mikilvægt væri að geta skrifað út resept. Þriggja mánaða héraðsskylda var á þeim tíma og sumarið 1973 fóru þau hjónin á Patreksfjörð til starfa.

„Þá opnaðist nýr heimur,“ segir Lúðvík sem hafði ekki hugnast spítalastarfið, hafði fundist það fábreytt. „Við sóttum um framlengingu og vorum í 9 mánuði samfleytt en urðum þá frá að hverfa því aðrir höfðu pantað plássið,“ segir hann. „En eftir þennan tíma varð ekki aftur snúið og ég hef ekki séð eftir því,“ segir Lúðvík.

„Jú, ég hef hugsað hvað ef ég hefði ekki farið á Patró, en þeirri spurningu verður aldrei svarað.“ Hann tók vaktirnar, hún sjúkraflugin. Á kandídatsárum voru þrískiptar vaktir á spítölunum sem þau skiptu á milli sín og vörðu þriðju hverri nótt saman.

Vildi ljúka störfum á læknastofu

Þau Hildur fóru til sérnáms í Kanada. Hún sérhæfði sig í heimilislækningum og endurhæfingu og starfaði síðan á öldrunarlækningadeild Landspítala í Hátúni, síðan Landakoti og hætti störfum sjötug. „Södd á læknisfræðinni.“ Hann sérhæfði sig í heimilislækningum og viðurkennir að hann sé ekki eins saddur. Hlær. „En það er nú komið nóg. Nú ætla ég bara að sjá um kennsluna og fræðsluprógrammið. Verð einn dag í viku í vinnu.“

Hvernig tilfinning er að hætta daglegum störfum eftir öll þessi ár? „Hún er ágæt.“ Hann hafi ekki saknað neins þegar hann hætti 2014 en fundist leitt að enda ekki í klíník. „Mér fannst því gott þegar Samúel yfirlæknir í Mjódd bað mig um að koma, taka eitt tvö ár sem urðu nærri sex. Ég finn engan tómleika, ég hætti 30. júní. Þetta hefur verið eins og langt sumarfrí. Það er engin höfnun í því að hætta að vinna. Það er sjálfval sem hefur gengið illa að framkvæma,“ segir Lúðvík og hlær.

Lúðvík var lækningaforstjóri heilsugæslunnar frá árinu 2001. Honum líst vel á þróun heilsugæslunnar og heilbrigðisstefnuna. „Heilsugæslan hefur verið að styrkjast. Fleiri starfsstéttir hafa komið inn. Réttast er að nefna sálfræðinga sem skipa mikilvægan sess,“ segir Lúðvík sem átti þátt í þeirri breytingu.

„Baráttan hefur verið mikil í gegnum tíðina að fá heilbrigðisyfirvöld til að viðurkenna mikilvægi heilsugæslunnar. Uppbygging hennar gekk hægt á höfuðborgarsvæðinu. Það voru átök um það í læknafélögunum hvað ætti að ýta mikið undir uppbygginguna á höfuðborgarsvæðinu þar sem við hefðum spítalann, en heilsugæsla og sérfræðiþjónusta er ekki alveg það sama,“ segir Lúðvík.

Stoltur af styrkveitingu til lækna

Lúðvík lítur til baka og nefnir að mikill kraftur hafi verið í fólki í heilsugæslunni í kringum 1980. Þá hafi verið unnið mikið uppbyggingarstarf. Miklar vangaveltur hafi verið um verkaskiptingu milli spítalans, sérgreinalækna og heilsugæslunnar. Minna sé um slíkar hugleiðingar nú.

„Það er miður. En allt fer í hringi og afskaplega vel gert fólk og hæfileikaríkt sem sækir um námsstöður í heimilislækningum, svo það er bjart framundan,“ segir Lúðvík sem hefur verið í inntökunefnd fyrir námið.

Spurður hverju hann sé stoltastur af á starfsferli sínum, hugsar hann sig um og dregur fram að hann sé stoltur að aðkomu sinni að því að koma á prófessorsstöðu í heimilislækningum við Háskóla Íslands. Árið 1976 hafi verið komið á stöðu lektors í hlutastarfi í greininni og önnur bættist við nokkrum árum síðar.

„Við vildum meira. Við vildum fleiri lektora og prófessorsstöðu,“ segir Lúðvík sem var formaður Félags íslenskra heimilislækna 1987-1991 sem gaf háskólanum prófessorsstöðu til tveggja ára árið 1991. Fé til þessa hafi komið frá hagnaði af Norrænu heimilislæknaþingi sem haldið var í Reykjavík og einnig vegna launaauka sem hugsaður var til fræðslustarfs.

„Heimilislæknar báru gæfu til að láta féð renna í sameiginlegan sjóð en ekki í vasa einstakra lækna,“ segir Lúðvík. „Háskólinn tók síðan við rekstri stöðunnar að tveimur árum liðnum.“ Hann nefnir líka að hann sé stoltur af að hafa þegar hann var sjálfur í sérnámi sínu í Western-háskólanum í London, Ontario í Kanada, komið á sambandi við Kellogg-sjóðinn bandaríska. Sjóðurinn hafi veitt Félagi íslenskra heimilislækna 750 þúsund dollara styrk til að kosta allt að 10 íslenska heimilislækna í mastersnám við háskólann. „Greitt var fyrir uppihald og skólagjöld. Sex íslenskir heimilislæknar nutu þessa styrks.“

Lúðvík nefnir einnig uppbyggingu ungbarnaeftirlits og mæðraverndar innan heilsugæslunnar. „Þrír læknar saman á heilsugæslunni í Efra-Breiðholti ásamt hjúkrunarfræðingum ákváðum við að bjóða þessa þjónustu,“ segir hann. „Þetta var litið hornauga af ýmsum og voru töluverð átök við að koma þessu á.“ Þungaðar konur hafi viljað koma og síðan með börnin sín í ungbarnaeftirlitið.

„Þetta gekk býsna vel og verður forsmekkurinn að því að áratugum seinna flyst mæðraverndin alfarið inn í heilsugæsluna eins og er núna. Þetta varð til þess að ýta fleiri stoðum undir starfið en starf heimilislækna á stofum var orðið heldur einhæft og án stuðnings annarra heilbrigðisstétta.“

Ekkert óviðkomandi heilsugæslunni

Lúðvík horfir fram á veginn og telur að krabbameinsskoðanir á heilsugæslustöðvum muni breyta töluvert miklu fyrir starfið. „Þá fáum við tækifæri til að sinna ákveðnum þætti sem er dottinn út úr heilsugæslunni og kemur aftur inn,“ segir hann. Á heilsugæslunni í Asparfelli í Efra-Breiðholti hafi verið skimað eftir krabbameini. „Ég á von á því að þessi umræða um Krabbameinsfélagið verði til þess að menn horfist í augu við þær staðreyndir að ekkert mannlegt er óviðkomandi heilsugæslunni,“ segir hann.

Spurður um hvernig sjúklingar hafi breyst í gegnum tíðina segir hann sálfélagsleg málefni hafa aukist. „Þau eru mjög þung. Og voru þó verulega þung í Efra-Breiðholti á sínum tíma, í hverfi sem var ungt og í mótun. Það leiðir hugann að greiðslukerfinu sem tekið var upp, láta peninginn fylgja sjúklingnum,“ segir hann og telur að í því felist ýmis vandamál, meðal annars freistnivandi svo reksturinn gangi betur, því greiningarnar séu misverðlagðar.

„Það láta allir freistast í heiminum. Það er sama hvaða menntun þeir hafa og siðferðislegar skyldur.“ Hann segir afleiðingarnar ekki aðeins fjárhagslegar heldur sé merkimiði settur á sjúklinginn sem hann á þá erfitt með að losna við.

„Heilbrigðisyfirvöld hafa lagt allt of mikla áherslu á afköst mæld í fjölda sjúklinga en ekki hvað er gert,“ segir Lúðvík. Hann vísar til danska kerfisins, sem sagt er skilvirkt með stífum tilvísanareglum.

„Í dönskum samningum er ætlast til að læknar taki á einu vandamáli í einu. Svo þarf að panta tíma fyrir það næsta. Það get ég ekki séð að henti heimilislækningum þar sem unnið er að því að tengja saman sjúkdóma og úrlausnir og vinna á breiddina,“ segir hann.

„Við heimilislæknar þurfum ekki að finna bestu meðferðina við hverjum sjúkdómi heldur bestu niðurstöðuna fyrir sjúklinginn. Við erum ekki að meðhöndla sjúkdóma heldur fólk í samstarfi við það sjálft.“

Myndi aftur verða læknir

En myndi hann velja sama starfsferil ef hann væri að byrja í dag? „Já, ég hugsa það,“ segir hann en hugsar sig um. „Ég veit það svei mér ekki. Það eru öðruvísi áskoranir og kannski væri meira freistandi að halda vísindavinnunni áfram. Það er erfitt að svara spurningum sem er ekki hægt að svara,“ segir hann.

„En ef ég vissi það sem ég veit núna: að mér myndi aldrei leiðast, þá er svarið já. Ég hef aldrei séð eftir þessu skrefi.“

Hugarfarið til heilbrigðiskerfisins áhyggjuefni

„Allt stefnir í rétta átt en ég hef vissar áhyggjur af umræðu um kostnað í heilbrigðisþjónustu. Menn hika ekki við að segja að skera þurfi niður og að enn sé hægt að hagræða, þótt skorið hafi verið niður. Jafnvel menn sem hafa sjaldan stigið inn á spítala og vita ekki hvernig spítalastarfsemi er,“ segir Lúðvík.

„Kannski er hin fullkomna hagræðing ekki til. Við sjáum hana ekki í viðskiptalífinu. Tökum verslunarrekstur sem dæmi. Það er ekki hagkvæmur rekstur. Ein manneskja inni í verslun að skoða föt eða skó, afgreiðslumenn einn eða tveir. Rýmið gríðarlega mikið. Enginn gagnrýnir það. Heilagar stærðir. En um leið og kemur að heilbrigðiskerfinu, sem gleypir mikinn pening, vissulega, hafa margir skoðanir á að hægt sé að gera miklu betur.“

Hann vill að horft sé á markmiðið. „Allt sem við gerum í þessum heimi er til að líða betur. Hafa góða heilsu. Hafa það gott,“ segir hann. „Við þurfum að standa vörð um heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfið.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica