10. tbl. 106. árg. 2020

Fræðigrein

Dagleg hreyfing og þunglyndiseinkenni eldra fólks í dreifbýli og þéttbýli á Norðurlandi: Lýðgrunduð rannsókn

Physical activity and depression among older community-dwelling adults in urban and rural areas: Population based study

 10.17992/lbl.2020.10.600

Ágrip

INNGANGUR
Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja daglega hreyfingu við mismunandi aðstæður (frístundir, heimilisstörf og vinnu), hjá eldri (≥65 ára) Norðlendingum sem búa heima, og rýna í tengslin á milli daglegrar hreyfingar og þunglyndiseinkenna. Einnig voru rannsökuð áhrif búsetu, kyns eða aldurshóps.

EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR
Gögnum var safnað í september 2017 til janúar 2018 í lýðgrundaðri þversniðsrannsókn með lagskiptu slembiúrtaki. Þátttakendur voru 175 (svarhlutfall 57,9%), á aldrinum 65-92 ára, 43% voru konur og 40% búsett í dreifbýli. Spurningalistinn Physical Activity Scale for the Elderly (PASE) var notaður til að meta daglega hreyfingu. Hann skiptist í heildarkvarða og þrjá undirkvarða sem meta hreyfingu við frístundir, heimilisstörf og vinnu sem reynir á líkamann. Spurningalistinn Geriatric Depression Scale var notaður til að meta þunglyndiseinkenni.

NIÐURSTÖÐUR
Heildarhreyfing tengdist ekki búsetu en karlar hreyfðu sig meira en konur og yngri aldurshópur (65-74 ára) meira en eldri (75-92 ára). Stærstur hluti heildarhreyfingar hjá öllum hópum tengdist heimilisstörfum. Karlar hreyfðu sig meira en konur við heimilisstörf, dreifbýlis­búar hreyfðu sig meira en þéttbýlisbúar við vinnu og yngri aldurshópur meira við vinnu en sá eldri. Aukin heildarhreyfing og aukin hreyfing samkvæmt undirkvörðum PASE tengdist minni þunglyndiseinkennum. Hreyfing í frístundum var þó eini undirkvarðinn sem hafði sjálfstæð tengsl við minni þunglyndiseinkenni þegar tekið var tillit til annarra undirkvarða PASE.

ÁLYKTANIR
Rannsóknin varpar mikilvægu ljósi á daglega hreyfingu eldri Norðlendinga og hvernig þunglyndiseinkenni á efri árum tengjast hreyfingu í mismunandi aðstæðum daglegs lífs. Niðurstöðurnar styðja alþjóðlegar rannsóknir sem hafa sýnt sterk jákvæð áhrif reglulegrar hreyfingar í frístundum á geðheilsu.

 Greinin barst til blaðsins 19. júlí 2020, samþykkt til birtingar 21. september 2020.

 

Inngangur

Hlutfall eldri borgara af heildarmannfjölda fer vaxandi með hverju ári sem líður.1 Einstaklingar í þessum aldurshópi eru líklegri en þeir sem yngri eru til að hafa langvinna sjúkdóma1 og færniskerðingar og því geta fylgt þunglyndiseinkenni sem draga úr lífsgæðum á efri árum.2 Fjöldi rannsókna styðja við kosti hreyfingar í glímunni við alla þessa þætti og ótímabæra öldrun. Í mörgum rannsóknanna hefur verið lögð áhersla á reglulega þjálfun í frístundum og niðurstöður meðal annars rennt stoðum undir það að meiri hreyfing, í þess konar aðstæðum, dragi helst úr líkum á þunglyndi hjá eldra fólki.3

Nútímaráðleggingar um hreyfingu ná yfir allar athafnir daglegs lífs sem kalla á líkamlega áreynslu og vöðvavinnu sem skilar sér í orkueyðslu umfram það sem þarf í hvíld.4 Þannig takmarkast fræðihugtakið „hreyfing“ (physical activity) ekki við frístundatíma heldur nær það einnig til daglegrar hreyfingar í annars konar aðstæðum eins og við heimilisstörf og atvinnu sem reynir á líkamann. Þótt þessi skilgreining á hreyfingu endurspeglist í mörgum rannsóknum á heilsu og hreyfingu eldra fólks5,6 vantar rannsóknir á heilsueflandi áhrifum hreyfingar í mismunandi aðstæðum daglegs lífs. Til dæmis vantar fleiri rannsóknir á því hvort hreyfing í öðru samhengi en frístundum geti dregið úr þunglyndi hjá eldri borgurum.7

Búseta er dæmi um umhverfisþátt sem getur tengst lífsstíl og heilsu íbúanna. Niðurstöður rannsókna á eldra fólki sem býr í heimahúsum benda til þess að miðað við þéttbýlisbúa glími dreifbýlisbúar frekar við þunglyndi, verri líkamlega færni og fleiri heilsutengd vandamál.5,8,9 Þá hafa rannsakendur hér á landi5 og víðar10 sýnt fram á að miðað við dreifbýlisbúa stundi þéttbýlisbúar frekar reglubundna hreyfingu í frístundum. Meðal eldri Norðlendinga voru hins vegar jákvæð tengsl á milli búsetu í dreifbýli og meiri líkamlegrar áreynslu við vinnu og meirihluti af heildarhreyfingu tengdist heimilisstörfum, óháð búsetu.5

Þörf er á frekari rannsóknum á heildarhreyfingu eldri Íslendinga, hreyfingu í mismunandi aðstæðum og hvers konar hreyfing getur dregið úr þunglyndi á efri árum. Meginmarkmið þessarar rannsóknar voru því: (1) að kortleggja heildarhreyfingu eldri Norðlendinga og hreyfingu í mismunandi aðstæðum (tengda frístundum, heimilisstörfum og vinnu), (2) að rýna í tengsl milli hreyfingar og einkenna þunglyndis og (3) rannsaka hvort niðurstöðurnar tengdust búsetu í dreifbýli eða þéttbýli, kyni eða aldurshópi.

Efniviður og aðferðir

Þetta rannsóknarverkefni var afmarkaður hluti af lýðgrundaðri þversniðsrannsókn á heilsu og aðstæðum eldri Norðlendinga. Gagnaöflun fór fram frá september 2017 til janúar 2018. Ítarlegri lýsing á rannsóknaraðferð hefur verið birt á öðrum vettvangi.11

Val á þátttakendum

Þátttakendur þurftu að vera að minnsta kosti 65 ára, að búa heima (utan stofnana) og hafa nægilega tjáskiptafærni til að geta ákveðið stund og stað fyrir rannsóknarviðtal og mælingar. Lagskipt slembiúrtak (aldur, kyn, búseta) með 395 einstaklingum var dregið úr Þjóðskrá Íslands. Af þessum 395 reyndist ekki mögulegt að ná í 73 einstaklinga og 20 uppfylltu ekki skilyrði um að búa heima. Alls 302 einstaklingar fengu sendar upplýsingar um rannsóknina og af þeim samþykktu 175 (57,9%) að taka þátt. Einstaklingar sem neituðu þátttöku voru svipaðir þátttakendum þegar litið var á aldur (p=0,77) og búsetu (p=0,55) en fleiri konur neituðu þátttöku en karlar (p=0,01). Algengustu ástæður þess að vilja ekki taka þátt voru að vera of upptekin(n) og að hafa nýlega tekið þátt í öðrum rannsóknum.

Rannsóknarsvæði

Rannsóknarsvæðin á Norðurlandi voru valin með hliðsjón af skilgreiningu á þéttbýlis- og dreifbýlisbúsetu á Íslandi.12 Þátttakendur sem bjuggu í þéttbýli komu frá Akureyri og þátttakendur í dreifbýli voru úr Skagafirði (ekki Sauðárkróki) og Þingeyjarsýslum (ekki Húsavík).

Staðlaðir spurningalistar fyrir hreyfingu og þunglyndi

Mat á líkamsvirkni aldraðra (Physical Activity Scale for the Elderly, PASE) er stuttur staðlaður spurningalisti13 sem var notaður til að meta hreyfingu liðinnar viku. Hann er bandarískur að uppruna, er til í íslenskri þýðingu14 og er sá spurningalisti sem einna helst er mælt með á alþjóðavísu.15 Spurningalistinn er sniðinn fyrir faraldsfræðilegar rannsóknir á eldri einstaklingum (≥ 65 ára) sem búa heima og til að nema grunnþætti hreyfingar: (1) tegund hreyfingar og aðstæður, (2) tíðni, (3) hve lengi í einu og (4) ákefð. Spurningarnar 12 beinast að líkamlegri áreynslu í þrennskonar aðstæðum sem er grunnurinn fyrir undirkvarða PASE. Frístundasamhengið (PASE-frístundir) nær yfir göngu utan heimilis; létta, miðlungserfiða og erfiða hreyfingu í íþróttum og öðrum frístundum (til dæmis dans, sund, hjólreiðar og golf). Heimilissamhengið (PASE-heimili) nær yfir margvísleg létt og erfið heimilisstörf, viðhald á heimili, garðvinnu, snjómokstur og það að vera í hlutverki óformlegs umönnunaraðila. Atvinnusamhengið (PASE-vinna) nær yfir líkamlega erfiða vinnu sem getur verið launavinna eða sjálfboðavinna. Í rannsókninni var fylgt stöðluðum leiðbeiningum fyrir PASE, reiknuð út stig fyrir einstaka undirkvarða og heildarstig fyrir hreyfingu (PASE-heild). Heildarstigin geta verið frá núll til 400 og jafnvel fleiri hjá ofurvirkum einstaklingum. Að auki reiknuðum við sérstaklega út stig fyrir PASE-göngu til að geta rýnt í þessa algengu tegund hreyfingar í frístundum.

Þunglyndismat fyrir aldraða (Geriatric Depression Scale, GDS)16,17 var notað til að meta þunglyndiseinkenni. Í þessum staðlaða sjálfsmatslista eru gefin 0 eða 1 stig fyrir hvert atriði og samanlögð stig geta spannað kvarðann frá núll til 30 (fleiri stig meiri þunglyndiseinkenni).16 Byggt á rannsókn á upprunalegri bandarískri útgáfu GDS voru sett fram viðmið um að 11 eða fleiri stig bentu til þunglyndis18 en byggt á íslenskri rannsókn var viðmiðið hærra, eða 14 stig.17


Gagnaöflun

Fjölfaglegt teymi leiddi rannsóknina og þjálfaði fjóra starfsmenn sem sáu um gagnaöflun. Þátttakendur gátu valið um að fá starfsmann heim eða hitta hann á rannsóknarstöð í grennd við heimili sitt. Rannsóknin var samþykkt af Vísindasiðanefnd (VSN-16-100) og allir þátttakendur skrifuðu undir upplýst samþykki áður en gagnaöflun hófst. Þátttakendur svöruðu bakgrunnsspurningum um menntun, sjúkdómsgreiningar, lyf, sambúðarform, atvinnu og notkun hjálpartækja. PASE,13 GDS16 og grunnhreyfifærniprófið Tímamælt upp og gakk (Timed Up and Go, TUG),19 voru lögð fyrir þátttakendur samkvæmt stöðluðum leiðbeiningum.

Tölfræði

Jamovi-forritið var notað við tölfræðiútreikninga og miðað var við 95% öryggismörk (ÖM) og 5% marktektarmörk (p<0,05). Þátttakendum var skipt í tvo aldurshópa, yngri (65-74 ára) og eldri (75-92 ára) og tvo GDS-hópa, ekki þunglyndi (0-10 stig) og mögulegt þunglyndi (11-30 stig).18 Fáir einstaklingar voru með 11 eða fleiri stig og því var þessi tvennubreyta ekki notuð frekar í tölfræðigreiningu. Lýsandi tölfræði var notuð á breyturnar og þær síðan bornar saman eftir búsetu, kyni og aldurshópi með t-prófi óháðra hópa (samfelldar breytur), Mann-Whitney U-prófi (raðbreytur) og Pearson‘s kí-kvaðrat prófi (tvennubreytur). Línuleg aðhvarfsgreining (einföld og fjölþátta) var notuð til að rannsaka sambandið á milli PASE-kvarða og GDS. PASE-heild og PASE-heima uppfylltu skilyrði fyrir greininguna en umbreyta þurfti PASE-frístundir og GDS með lógaritma. PASE-vinna var það mikið skekkt að henni var skipt í tvennubreytu (líkamleg vinna, engin líkamleg vinna) og samband hennar við GDS rannsakað með tvíkosta lógístískri aðhvarfsgreiningu (einfaldri og fjölþátta).

Niðurstöður

Þátttakendur (N=175) voru á aldrinum 65-92 ára, fleiri voru í yngri aldurshópi (59%, n=104) en þeim eldri og þéttbýlisbúar voru í meirihluta (60%, n=105). Karlar voru fleiri (57%, n=100) en konur. Í töflu I eru upplýsingar um bakgrunn þátttakenda og samanburður eftir búsetu, kyni og aldurshópi. Eldra fólk í þéttbýli var líklegra til að hafa meiri menntun, vera hætt að vinna, hafa fleiri sjúkdóma og nota fleiri lyf en eldra fólk í dreifbýli. Karlar voru líklegri en konur til að vera ennþá starfandi á vinnumarkaði. Eldri aldurshópur var líklegri til að hafa minni menntun, lýsa fleiri þunglyndiseinkennum, vera hættur að vinna, nota hjálpartæki utandyra, nota fleiri lyf og hafa skertari grunnhreyfifærni (mæld með TUG) en yngri aldurshópur.

Í töflu II eru niðurstöður úr PASE eftir búsetu, kyni og aldurshópi. Enginn munur var á PASE-heild eftir búsetu en karlar hreyfðu sig meira í heildina en konur og yngri aldurshópur hreyfði sig meira en sá eldri. Þegar litið var á hreyfingu við mismunandi aðstæður kom í ljós að PASE-frístundir og PASE-ganga voru sambærileg eftir búsetu, kyni og aldurshópi. Í dreifbýli var eldra fólk með fleiri stig á PASE-vinna en þéttbýlisbúar og karlar fengu fleiri stig á PASE-heimili en konur. Yngri aldurshópurinn var líklegri til að fá fleiri stig tengd PASE-vinnu en þeir sem voru eldri. Stærstur hluti hreyfingar tengdist heimilisstörfum (meðaltal 58%) hjá öllum hópum í rannsókninni.

Í töflu III eru niðurstöður fjölþátta aðhvarfsgreiningar sem lýsa sambandinu á milli þriggja bakgrunnsbreyta (búseta, kyn og aldurshópur) og hvers og eins PASE-kvarða fyrir sig. Þar kom í ljós að breyturnar kyn og aldurshópur höfðu sjálfstæð tengsl við PASE-heild og PASE-heimili, en búseta tengdist hvorugri af þessum PASE-breytum. Engin af bakgrunnsbreytunum hafði sjálfstæð tengsl við PASElog-frístundir eða PASElog-göngu (niðurstöður ekki í töflu, p=0,127-0,559). Allar bakgrunnsbreyturnar voru með sjálfstæð tengsl við PASE-vinnuflokkar. Að teknu tilliti til annarra bakgrunnsbreyta, voru einstaklingar búsettir í dreifbýli því marktækt líklegri til að stunda vinnu sem reynir á líkamann en þeir sem voru búsettir í þéttbýli, yngri aldurshópur marktækt líklegri en þeir í eldri aldurshópi og karlar marktækt líklegri en konur.

Í töflu IV eru niðurstöður einfaldrar línulegrar aðhvarfsgreiningar sem lýsa sambandi GDSlog við hvern PASE-kvarða fyrir sig og niðurstöður fjölþátta línulegar aðhvarfsgreiningar sem varpa ljósi á sama samband þegar tekið er tillit til þriggja bakgrunnsbreyta (búsetu, kyns og aldurshóps). Meiri hreyfing samkvæmt PASE-heild, PASElog-frístundir, PASE-heimili, PASE-vinnaflokkar og PASElog-ganga tengdist í öllum tilfellum minni þunglyndiseinkennum. Þegar tekið var tillit til bakgrunnsbreytanna búsetu, kyns og aldurhóps hélst áfram sambandið á milli minni þunglyndiseinkenna og fleiri stiga á PASE-heild, PASElog-frístundir og PASE-heimili.

Í töflu V eru niðurstöður úr fjölþátta línulegri aðhvarfsgreiningu sem sýna hvernig meiri hreyfing í frístundum hafði sjálfstæð tengsl við minni þunglyndiseinkenni, að teknu tilliti til hreyfingar við heimilisstörf og í vinnu. Þetta sjálfstæða samband milli hreyfingar í frístundum og þunglyndiseinkenna veiktist lítillega þegar tekið var tillit til búsetu, kyns og aldurshóps.

Umræður

Niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á hreyfingu í daglegu lífi eldri Norðlendinga sem búa í heimahúsum í dreifbýli og þéttbýli, og hvernig hreyfingin byggir á líkamlegri áreynslu í frístundum, við heimilistörf og vinnu. Búseta, kyn og aldur höfðu áhrif á það hversu mikið þátttakendur hreyfðu sig við heimilisstörf, í vinnu og í heildina. Hins vegar tengdist hvorki búseta, kyn né aldurshópur því hversu mikið þátttakendur hreyfðu sig í frístundum. Aukin heildarhreyfing yfir daginn og hreyfing við mismunandi aðstæður tengist minni þunglyndiseinkennum, en niðurstöðurnar benda til þess að hreyfing í frístundum hafi enn meira að segja fyrir geðheilsu en hreyfing tengd heimilisstörfum og vinnu.

Meðal þátttakenda voru fleiri karlar en konur. Þetta er óvenjulegt í lýðgrunduðum rannsóknum á eldra fólki þar sem konur lifa að jafnaði lengur en karlar. Skýringa má leita í því að fleiri konur en karlar höfnuðu beiðni um að taka þátt í rannsókninni, fleiri eldri konur en karlar búa inni á hjúkrunarheimilum20 (og voru þar af leiðandi ekki í rannsóknarúrtakinu) og hluti úrtaksins kom úr dreifbýli þar sem gjarnan er hærra hlutfalli karla en kvenna.21 Varðandi bakgrunn þátttakenda var munur eftir kyni og aldurshópi almennt samhljóma fyrri rannsóknum en þó lýstu þéttbýlisbúar fleiri sjúkdómsgreiningum en dreifbýlisbúar, sem er andstætt eldri íslenskri rannsókn22 og andstætt niðurstöðum úr útlendum rannsóknum þar sem horft var sérstaklega til þessa aldurshóps.8,9,23 Það að lyfjanotkun var meiri meðal þéttbýlisbúa en dreifbýlisbúa er hins vegar samhljóða niðurstöðum rannsóknar á eldri Norðlendingum frá 2004.22 Almennt lýstu þátttakendur fáum þunglyndiseinkennum en aðeins 16 af 175 (9%) fóru yfir viðmið á GDS sem benda til þunglyndis (11 eða fleiri stig af 30)18 og enginn fór yfir 20 stig á GDS. Þetta er til dæmis mun lægra en GDS-niðurstöður úr rannsóknum sem sýndu frá 12% og upp í 50% algengi þunglyndis meðal eldri borgara frá mismunandi löndum og úr ólíkum þjóðfélagshópum.24

Niðurstöðurnar sem snúa að daglegri hreyfingu eftir búsetu, kyni eða aldurshópi eru um margt sambærilegar niðurstöðum rannsóknar frá árinu 2004 á eldri Norðlendingum.5 Í hvorugri rannsóknanna var búsetutengdur munur á heildarhreyfingu og í báðum rannsóknum voru heimilisstörfin stærsta uppspretta líkamlegrar áreynslu. Í báðum rannsóknum var meira um hreyfingu við vinnu í dreifbýli en í þéttbýli, og þátttakendur sem komu úr dreifbýli voru margir hverjir starfandi bændur og reyndu líkamlega á sig við þær aðstæður. Gagnaöflun beggja rannsókna náði yfir tímabil í lífi bænda sem einkennast af lengri törnum í líkamlegri áreynslu eins og slætti, göngum og sláturtíð. Það að þátttakendur sem bjuggu í dreifbýli hreyfðu sig jafn mikið og þéttbýlisbúar í frístundum er hins vegar í andstöðu við niðurstöður fyrri rannsókna þar sem eldra fólk í dreifbýli hreyfði sig minna.5,10 Þessar niðurstöður geta bent til þess að eldri dreifbýlisbúar séu að verða meðvitaðri um mikilvægi daglegrar hreyfingar í frístundum og breyttra aðstæðna sem gefa tækifæri til frístundaiðju og hreyfingar. Í mörgum sveitarfélögum á Íslandi er nú reynt að styðja við hreyfingu eldra fólks í frístundum, meðal annars með fríu aðgengi í sund, framboði á hreyfingu í þjónustumiðstöðvum og vetraraðgengi að íþróttahúsum.25

Það er þekkt að eldri karlar hreyfa sig meira en konur í heildina og tengt atvinnu,5,6 en óvenjulegra er að sjá karla hreyfa sig meira en konur í tengslum við heimilisstörf. Niðurstöðurnar benda til þess að þeir eldri karlar sem tóku þátt í rannsókninni hafi verið nokkuð hraustir þar sem þeir sem hreyfðu sig mikið við heimilisstörf og hreyfðu sig einnig mikið í frístundum og vinnu. PASE-heimili byggir á spurningum um það hvort viðkomandi hafi sinnt viðhaldi á heimili og hirt lóðina, og við útreikninga á PASE-stigum vega þessir þættir þungt. Mögulegt er að karlar sinni þessum athöfnum frekar en konurnar ásamt því að taka þátt í öðrum heimilisverkum. Þótt konur fengju færri PASE-heimili stig en karlar þá tengdist stærra hlutfall af heildarhreyfingu kvenna heimilisstörfum. Niðurstöður okkar eru samhljóða öðrum um að heimilisstörf skipi stóran og mikilvægan sess í daglegri hreyfingu eldra fólks.5,26-28

Það að 75-92 ára aldurshópurinn hreyfði sig minna en sá yngri, að teknu tilliti til kyns og búsetu, er í samræmi við aðrar rannsóknir þar sem eldri þátttakendum hefur verið skipt í tvo aldurshópa.5,26 Óvenjulegra er að sjá að 75-92 ára hópurinn hreyfði sig jafnmikið í frístundum og þeir sem voru á aldrinum 65-74 ára. Mögulega erum við að sjá fram á tíma þar sem nýjar kynslóðir af fólki eldra en 75 ára eru farnar að venjast því að hreyfa sig í frístundum. Einnig er mögulegt að fyrrnefndar aðgerðir sveitafélaganna25 séu að skila sér og efli slíkan lífsstíl.

Niðurstöðurnar styðja við þekkt samband á milli betri útkomu á GDS og meiri heildarhreyfingar annars vegar7,29 og hreyfingar í frístundum hins vegar,3,30 og þessi tengsl héldust stöðug þegar tekið var tillit til áhrifa búsetu, kyns og aldurshóps. Áhugavert er að sjá betri útkomu á GDS tengjast bæði meiri hreyfingu við heimilisstörf og vinnu, en GDS missti þessi tengsl við hreyfingu í vinnu þegar tekið var tillit til bakgrunnsbreytanna. Stærra úrtak hefði þurft til að rannsaka mögulega gagnverkun og leita skýringar á þessum niðurstöðum. Hreyfing í frístundum (þar með talið ganga) reyndist hafa sterkustu sjálfstæðu tengslin við minni þunglyndiseinkenni þegar allir undirkvarðar PASE voru settir saman í eitt og sama líkanið, sem rímar við rannsóknarniðurstöður á 65-75 ára New York-búum þar sem hreyfing tengd frístundum (íþróttir og ganga) hafði sterkari tengsl við minni þunglyndiseinkenni en hreyfing tengd heimilisstörfum eða vinnu.7 Undir hreyfingu í frístundum fellur meðal annars markviss þjálfun en sýnt hefur verið fram á að hreyfing sem ætlað er að reyna markvisst á líkamann hefur jákvæð tengsl við geðheilbrigði og vinnur gegn vægu þunglyndi, til dæmis á þann hátt að endorfín, líkamshiti og myndun hvatbera eykst.31 Enn er minna vitað um áhrif hreyfingar við heimilisstörf og atvinnu á þessa lífeðlisfræðilegu þætti og hvort breytileiki í hreyfingu sem tengist heimilisstörfum og vinnu sé allajafna nægur til að hægt sé að greina möguleg tengsl við vægt þunglyndi.

Við túlkun á niðurstöðum rannsóknarinnar er mikilvægt að hafa eftirfarandi takmarkanir og styrkleika í huga: Þar sem um þversniðsrannsókn er að ræða var ekki hægt að alhæfa um orsakasambönd og smæð úrtaksins jók líkur á villu af gerð II og takmarkaði möguleika á tölfræðigreiningum. Með því að nota mælitæki sem byggja á ígildi samfelldra mælikvarða (PASE og GDS) nýttum við vel það tölfræðiafl sem mögulegt var að ná miðað við stærð úrtaksins. Rannsókn á próffræðilegum eiginleikum PASE meðal eldra fólks í dreifbýli sýndi góðan áreiðanleika endurtekinna mælinga (Intraclass Correlation Coefficient 0,91)32 en ekki hefur verið rannsakað hvort þunglyndi hefur áhrif á það sjálfsmat sem krafist er í PASE og þar með á áreiðanleika niðurstaðna. Þátttökuhlutfall (58%) var ásættanlegt en 21 prósentustigi lægra en í lýðgrundaðri rannsókn á heilsutengdum högum eldri Norðlendinga frá 2004 (79%).5 Þessi breyting á þátttökuhlutfalli er rannsóknarefni en hún gæti endurspeglað rannsóknaþreytu meðal einstaklinga sem sögðust hafa tekið þátt mörgum rannsóknum og skoðanakönnunum upp á síðkastið og tregara aðgengi að einstaklingum í síma, en fyrir 15 árum voru öll símanúmer aðgengileg í símaskrá og símnúmerabirting var takmörkuð. Einnig er hætta á því að þunglyndari einstaklingar hafi síður áhuga, einbeitingu eða orku til að taka þátt í svo umfangsmikilli rannsókn, sem gæti skekkt niðurstöðurnar. Styrkleiki rannsóknarinnar liggur í lagskiptu lýðgrunduðu slembiúrtaki, notkun á stöðluðum alþjóðlegum mælitækjum til að nema lykilbreytur og því að starfsmenn rannsóknarinnar hittu alla þátttakendur, sem auðveldaði þátttöku eldri einstaklinga með skerta sjón, heyrn og fínhreyfingar.

Ályktun

Heilsueflandi hreyfing á sér margskonar rætur en markviss hreyfing í frístundum virðist tengjast geðheilsu meira en hreyfing við aðrar aðstæður. Mikilvægt er að vera vakandi fyrir því að eldra fólk sem glímir við þunglyndi heldur sig mögulega frá frístundatengdri og markvissri hreyfingu. Þessar niðurstöður, og það að þekkja hvernig eldri einstaklingar hreyfa sig í daglegu lífi, geta nýst læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum sem ráðleggja um viðeigandi heilsueflandi hreyfingu. Þekking sem þessi skiptir máli fyrir stefnumótun stjórnvalda, heilbrigðisyfirvalda og sveitarstjórna þar sem markmiðið er að efla heilsu eldri borgara og veita þeim viðeigandi þjónstu sem vilja eldast heima.

Þakkir

Bestu þakkir til þeirra sem tóku þátt í rannsókninni. Starfsmönnum rannsóknarinnar, þeim Ölmu Dröfn Vignisdóttur, Pálu Sigríði Tryggvadóttur, Sigríði Atladóttur og Telmu Ýr Sigurðardóttur, eru þökkuð vel unnin störf við söfnun gagna. Aðilum úr rannsóknarhópnum, þeim Elínu Díönu Gunnarsdóttur, Jóni Árna Steingrímssyni, Sonju Stelly Gústafsdóttur og Stefáni B. Sigurðssyni er þakkað fyrir þeirra framlag til rannsóknarinnar. Rannsóknin var styrkt af Byggðarannsóknasjóði, Rannsóknasjóði Háskólans á Akureyri, Vísindasjóði Sjúkrahússins á Akureyri og B-hluta vísindasjóðs Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Heimildir

1. Christensen K, Doblhammer G, Rau R, et al. Ageing populations: The challenges ahead. Lancet 2009; 374: 1196-208.
 
2. Alexopoulos GS. Depression in the elderly. Lancet 2005; 365: 1961-70.
 
3. Strawbridge WJ, Deleger S, Roberts RE, et al. Physical activity reduces the risk of subsequent depression for older adults. Am J Epidemiol 2002; 156: 328-34.

PMid:12181102

 
4. Bangsbo J, Blackwell J, Boraxbekk CJ, et al. Copenhagen Consensus statement 2019: Physical activity and ageing. Br J Sports Med 2019; 53: 856-8.

PMid:30792257 PMCid:PMC6613739

 
5. Arnadottir SA, Gunnarsdottir ED, Lundin-Olsson L. Are rural older Icelanders less physically active than those living in urban areas? A population-based study. Scand J Public Health 2009; 37: 409-17.

PMid:19237433

 
6. Notthoff N, Reisch P, Gerstorf D. Individual characteristics and physical activity in older adults: A systematic review. Gerontology 2017; 63: 443-59.

PMid:28675889

 
7. Joshi S, Mooney SJ, Kennedy GJ, et al. Beyond METs: types of physical activity and depression among older adults. Age Ageing 2016; 45: 103-9.

PMid:26764399 PMCid:PMC4711656

 
8. Baernholdt M, Yan G, Hinton I, et al. Quality of life in rural and urban adults 65 years and older: Findings from the National Health and Nutrition Examination survey. J Rural Health 2012; 28: 339-47.

PMid:23083080 PMCid:PMC3615459

 
9. Fogelholm M, Valve R, Absetz P, et al. Rural-urban differences in health and health behaviour: A baseline description of a community health-promotion programme for the elderly. Scand J Public Health 2006; 34: 632-40.

PMid:17132597

 
10. Deng Y, Paul DR. The relationships between depressive symptoms, functional health status, physical activity, and the availability of recreational facilities: A rural-urban comparison in middle-aged and older Chinese adults. Int J Behav Med 2018; 25: 322-30.

PMid:29498014

 
11. Sigurdardottir AK, Kristófersson GK, Gústafsdóttir SS, et al. Self-rated health and socio-economic status among older adults in Northern Iceland. Int J Circumpolar Health 2019; 78: 1697476.

PMid:31783724 PMCid:PMC6896473

 
12. Sindradóttir JI, Harðarson O. Endurskilgreining Hagstofu Íslands á þéttbýlisstöðum og byggðakjörnum. Hagtíðindi 2015; 2.
 
13. Washburn RA, Smith KW, Jette AM, et al. The Physical Activity Scale for the Elderly (PASE): Development and evaluation. J Clin Epidemiol 1993; 46: 153-62.
 
14. Árnadóttir SÁ. Mat á líkamsvirkni aldraðra. Sjúkraþjálfarinn 2007; 4: 11-3.
 
15. Sattler MC, Jaunig J, Tösch C, et al. Current evidence of measurement properties of physical activity questionnaires for older adults: An updated systematic review. Sports Med 2020; 50: 1271-315.

PMid:32125670 PMCid:PMC7305082

 
16. Yesavage JA, Brink TL, Rose TL, et al. Development and validation of a geriatric depression screening scale: a preliminary report. J Psychiatr Res 1982;17(1):37-49.
 
17. Valdimarsdóttir M, Jónsson JE, Einarsdóttir S, et al. Þunglyndismat fyrir aldraða - íslensk gerð Geriatric Depression Scale (GDS). Læknablaðið 2000; 86: 344-8.
 
18. Brink TL, Yesavage JA, Lum O, et al. Screening tests for geriatric depression. Clin Gerontol 1982; 1: 37-43.
 
19. Podsiadlo D, Richardson S. The timed "Up & Go": A test of basic functional mobility for frail elderly persons. J Am Geriatr Soc 1991; 39: 142-8.

PMid:1991946

 
20. Embætti landlæknis. Aldraðir á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Talnabrunnur - Fréttabréf landlæknis um heilbrigðisupplýsingar. 2016; 10: 1-4.
 
21. Sigbjörnsdóttir HB, Eiríksdóttir VH. Lýðheilsuvísar eftir heilbrigðisumdæmum - Umfjöllun og skilgreiningar. Embætti landlæknis, Reykjavík 2020.
 
22. Sigurðardóttir ÁK, Árnadóttir SÁ, Gunnarsdóttir ED. Lyfjanotkun eldri Íslendinga sem búa heima. Lýðgrunduð rannsókn í dreifbýli og þéttbýli. Læknablaðið 2011; 97: 675-80.

PMid:22133526

 
23. Monnat SM, Beeler Pickett C. Rural/urban differences in self-rated health: Examining the roles of county size and metropolitan adjacency. Health Place 2011; 17: 311-9.

PMid:21159541

 
24. Mui AC, Kang SY, Chen LM, et al. Reliability of the Geriatric Depression Scale for use among elderly Asian immigrants in the USA. Int Psychogeriatr 2003; 15: 253-71.

PMid:14756161

 
25. Snæfríðar- og Gunnarsdóttir H, Tryggvadóttir G, Gústafsdóttir G. Kortlagning á þjónustu við aldraða. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík 2020.
 
26. Tsunoda K, Soma Y, Kitano N, et al. Age and gender differences in correlations of leisure-time, household, and work-related physical activity with physical performance in older Japanese adults. Geriatr Gerontol Int 2013; 13: 919-27.

PMid:23441752

 
27. 27. Mooney SJ, Joshi S, Cerda M, et al. Patterns of physical activity among older adults in New York City: A latent class approach. Am J Prev Med 2015; 49: e13-22.

PMid:26091927 PMCid:PMC4546879

 
28. Murphy MH, Donnelly P, Breslin G, et al. Does doing housework keep you healthy? The contribution of domestic physical activity to meeting current recommendations for health. BMC Public Health 2013; 13: 966.

PMid:24139277 PMCid:PMC4016571

 
29. Aktürk Ü, Aktürk S, Erci B. The effects of depression, personal characteristics, and some habits on physical activity in the elderly. Perspect Psychiatr Care 2019; 55: 112-8.

PMid:30171700

 
30. Schuch FB, Vancampfort D, Rosenbaum S, et al. Exercise for depression in older adults: A meta-analysis of randomized controlled trials adjusting for publication bias. Braz J Psychiatry 2016; 38: 247-54.

PMid:27611903 PMCid:PMC7194268

 
31. Mikkelsen K, Stojanovska L, Polenakovic M, et al. Exercise and mental health. Maturitas 2017; 106: 48-56.

PMid:29150166

 
32. Dinger MK, Oman RF, Taylor EL, et al. Stability and convergent validity of the Physical Activity Scale for the Elderly (PASE). J Sports Med Phys Fitness 2004; 44: 186-92.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica