10. tbl. 106. árg. 2020

Ritstjórnargrein

Nýjungar og áskoranir í læknanámi á tímum rafrænna stökkbreytinga. Engilbert Sigurðsson

Engilbert Sigurðsson geðlæknir á Landspítala forseti læknadeildar Háskóla Íslands.

10.17992/lbl.2020.10.599

Það er vel þekkt í heimi vísindanna að tækninýjungar leiða oft til örra breytinga. Nú eru 60 efstu próftakar í inntökuprófi læknadeildar teknir inn á fyrsta ár í stað 48 fyrir fjórum árum. Það hefur í för með sér ákveðnar breytingar á umgjörð námsins og á síðasta áratug hefur Háskóli Íslands stigið æ fleiri skref inn í heim rafrænna prófa og kennsluhátta. Það gerðist fyrst með námsumsjónarforritum eins og Uglu og Moodle, síðar með upptökuforritinu Panoptó og prófaforritinu Inspera. Nokkurrar tregðu gætti þó gagnvart notkun Panoptó og Inspera meðal kennara af ýmsum ástæðum.

Á fyrstu stigum COVID-19 heimsfaraldursins í vor breyttist þessi tregða tafarlaust í létti þegar nauðsynlegt reyndist að færa staðkennslu í skyndi í rafræna fjarkennslu. Miklu breytti að hópfundaforritin Zoom og Teams höfðu verið að ryðja sér til rúms til fjarfunda, miðlunar skjala í mynd og upptöku. Jafnframt þurfti að breyta námsmati vormisseris þar sem kennslustofum og lesstofum Háskólans var lokað á seinni hluta misserisins. Lokapróf voru því flest þreytt í opnu umhverfi í Inspera heima hjá nemendum. Ameríska CCSE-lokaprófið á 6. ári var til dæmis þreytt á heimilum nema með myndbandsvöktun. Að auki þurfti hluti nema að vinna verkefni í stað verklegra tilrauna, finna þurfti leiðir til að ræða við nemendur um klíník utan sjúkradeilda að loknum stofugangi og gera myndbönd um ákveðna þætti verknáms. Loks má nefna að í ágúst var námsumsjónarforritið Canvas innleitt í skólanum og eru kennarar og nemendur óðum að tileinka sér möguleika þess.

Á síðasta áratug hefur aðgengi að fjölbreyttu námsefni aukist hratt á veraldarvefnum. Því má segja að þörfin fyrir að nemar mæti í hefðbundna fyrirlestra sé minni en áður, nema þá helst til að glæða skilning þeirra á aðalatriðum og samhengi, gefa þeim kost á að spyrja og vitaskuld til að hittast og kynnast hvert öðru betur. Staðnám er því sérstaklega mikilvægt þegar nýnemar eiga í hlut. Í þessu samhengi er rétt að nefna að mikil áhersla er nú lögð á að læknanemar og aðrir nemar í heilbrigðisvísindum efli færni sína í samskiptum við sjúklinga, aðstandendur og samstarfsfólk.

Um þessar mundir eru 14% landsmanna fædd utan Íslands. Sjúklingar, þar á meðal einstaklingar frá framandi menningarheimum, kvarta sumir undan því að íslenskir heilbrigðisstarfsmenn gætu gert betur í samskiptum. Þar koma meðal annars upp atriði eins og að við mættum bera meiri virðingu fyrir eldra fólki, fólki með annan menningarbakgrunn, geðraskanir eða óljósar kvartanir sem þekki ekki kerfið hér og að notkun túlks sé í boði. Heitorð lækna áréttar að læknar skuli ávallt láta sér annt um alla sjúklinga sína án manngreinarálits. Samhliða kröfunni um aukna samskiptafærni og heildrænni nálgun, er skýrari krafa í heilbrigðisþjónustu um aukna stöðlun í vinnubrögðum, meiri afköst og hlutlægari leiðir til að öðlast færni, til að mynda með herminámi, beinu mati á frammistöðu og fleiri verkferlum fyrir algeng vandamál.

Ýmislegt fleira má telja til nýjunga. Nú er hægt að skrá sig í doktorsnám samhliða námi til kandídatsprófs að loknu þriðja námsári, í svokallaða -MD-PhD-doktorsnámsnámsleið. Nýr samstarfsvettvangur er orðinn til fyrir nema í rannsóknartengdu doktorsnámi í klínískri læknisfræði, erfðafræði, faraldsfræði og lýðheilsuvísindum til að efla innviði námsins. Þrír óvirkir gamlir sjóðir voru sameinaðir á síðasta ári og Menntasjóður læknadeildar stofnaður. Fimm læknanemar hlutu styrk úr honum á árinu vegna rannsóknarverkefna erlendis á 3. ári. Læknadeild á nú í spennandi samstarfi við læknadeild Hafnarháskóla og fleiri aðila um þróun opins netnámskeiðs fyrir 6. árs læknanema í einstaklingsmiðuðum lækningum (personalised medicine).

Læknanemar hafa sjálf staðið fyrir ýmsum nýjungum. Þau hófu í haust hlaðvarp, Dagál læknanemans, um algenga sjúkdóma og meðferð þeirra, og á Instagram-síðunni islenskirlaeknanemar kynna þau nú nám sitt í ýmsum löndum og dagleg störf lækna.

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn segir afrískt máltæki. Til að skapa góðan lækni þarf vissulega gott uppeldi, fjölbreytta færniþjálfun og margháttaða reynslu á starfsferlinum. Það skiptir miklu að temja sér auðmýkt í starfi, hafa áhuga á fólki og læra að meta mátt samtalsins. Ekki sakar að geta slegið á létta strengi þegar við á, maður er manns gaman. Að endingu vil ég nefna að réttlætiskennd, símenntun og þjálfun í gagnrýnni hugsun eru verðandi læknum ómetanlegt veganesti til að vinna gegn meðvirkni og hjarðhegðun.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica