10. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Læknar hugi að heilsu sinni

Skurðlæknir getur fundið fyrir meiri streitu við matarinnkaupin en við skurðarborðið. Mikilvægt er að þekkja einkennin og geta miðlað þeim til skjólstæðinganna ásamt því að þekkja mörkin í eigin lífi og starfi, segir Erla Gerður Sveinsdóttir, einn leiðbeinenda á námskeiði sem er sérsniðið til að auka þekkingu lækna á streitu

„Læknar fást ekki aðeins við streitu sjúklinga sinna heldur einnig sína eigin, “ segir Erla Gerður Sveinsdóttir, heimilislæknir og lýðheilsufræðingur sem hefur sérhæft sig í offitumeðferðum. Sú vinna hefur meðal annars vakið áhuga hennar á streitu og svefnvanda sem hefur veruleg áhrif á heilsu og lífsgæði.


Gyða Dröfn lýðheilsufræðingur, Kristín slysa- og bráðalæknir og Erla Gerður heimilislæknir. Mynd/gag

„Áhuginn hefur ekki síður beinst að því hvað gerir okkur fær um að takast á við áskoranir í daglegu lífi,“ segir hún. Læknar takist ekki aðeins á við streitu skjólstæðinga sinna heldur einnig sína eigin. Könnun sem var gerð fyrir tveimur árum á líðan lækna sýndi að 65% þeirra höfðu fundið fyrir streitueinkennum síðustu 6 mánuði eða lengur. Erla, Kristín Sigurðardóttir, slysa- og bráðalæknir, og Gyða Dröfn Tryggvadóttir, lýðheilsufræðingur og sérfræðingur í áfalla- og uppeldisfræðum Piu Mellody, hafa sérhannað námskeið fyrir lækna, meðal annars um streitu, seiglu, meðvirkni í tengslum við samskipti, svefn og líkamsklukkuna. Námskeiðið er haldið í samvinnu við Læknafélag Íslands.

„Með námskeiðinu auka læknar þekkingu á því hvernig þeir geta aðstoðað skjólstæðinga sína við að takast á við erfiðleika og breytingar sem fylgja líkamlegri og andlegri vanheilsu. Sú þekking nýtist án efa til að bæta eigin líðan.“ Fyrsta námskeiðið verður haldið í byrjun nóvember.

Læknar eru í lykilstöðu þegar kemur að því að greina veikindi. „Það er mikilvægt að þeir þekki vel hinar ýmsu hliðar streitu. Hún getur til að mynda lagst þungt á fólk með mikinn metnað, og aukið hættuna á að skynja ekki vel eigin mörk og annarra.“ Erla segir það stöðu sem margir læknar þekki á eigin skinni. Hún bendir á að þekktir innri- og ytri streituvaldar hafi áhrif á líðan og heilsu fólks. Mikilvægt sé fyrir lækna að geta veitt skjólstæðingum sínum góða aðstoð við að auka seiglu og streituþol.

„Það getur verið gagnlegt og fróðlegt að skoða bernsku sína og fjölskyldumynstur; hvernig við mótuðumst sem einstaklingar, í tengslum við streitu og álagsþol. Einnig að skoða heildarmynstrið bæði í lífi og starfi,“ segir hún. Með því myndist aukinn skilningur á eigin atferli.

Erla segir hvern og einn bera ábyrgð á eigin heilsu en sú staðreynd fríi þó hvorki vinnustaðinn né samfélagið ábyrgð. „Maður getur leitt hestinn að vatninu en ekki neytt hann til að drekka.“

Fyrst þurfi að skoða hvað er á valdi einstaklingsins að breyta og hvað liggi í aðstæðunum. „Stundum er flókið að finna hver raunverulegur vandi er því hann getur legið að hluta til í löngu liðnum atburðum sem ekki hafa augljósa tengingu við viðbrögðin sem fram koma í daglegu lífi,“ segir hún og tekur lýsandi dæmi. „Skurðlæknir sem kemur úr flókinni aðgerð getur fundið meiri streitu í samskiptum við samstarfsfólkið eða í Bónus en við skurðarborðið.“

Athyglinni verður beint að streitu og seiglu, meðvirkni, einkennum og áhrifum á líf og líðan, sambönd og samskipti. „Námskeiðið er tækifæri til að draga sig út úr skarkalanum, staldra við og læra nýja hluti til að geta staðið sterkar með skjólstæðingunum,“ segir Erla að lokum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica