09. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Íslenskan flækti málið - rætt við Svanheiði Lóu Rafnsdóttur sérfræðing í brjóstaskurðlækningum

Svanheiður Lóa Rafnsdóttir, sérfræðingur í brjóstaskurðlækningum, segir að það hafi verið auðveldara að flytja frá Þýskalandi til Svíþjóðar en frá Svíþjóð og heim. Hún sé enn að bæta í orðaforðann enda fagmál íslensku læknastéttarinnar allt annað en það sem þekkist í nágrannalöndunum

Læknablaðið · Svanheiður Lóa Rafnsdóttir, viðtal í september 2020

viðtal

„Það eru forréttindi að fá að búa á Íslandi. Það sést á því hvað okkar fólk hefur staðið vel að baráttunni við heimsfaraldurinn. Ástandið er allt annað erlendis en hér. Ég er fegin að vera heima,“ segir Svanheiður Lóa sem flutti heim haustið 2018. Hún bjó áður í áratug í Svíþjóð. Hún stundaði sérnám við Sahlgrenska-sjúkrahúsið í Gautaborg í almennum skurðlækningum með undirsérgrein í uppbyggingu brjósta eftir krabbameinsaðgerð.

„Kaffi?“ spyr hún þar sem við setjumst niður á heimili hennar í Kópavogi. Hún er nú í fæðingarorlofi, hellir kaffi í bollann með annarri og ruggar litlu 6 vikna dótturinni í svefn í vagninum með hinni. Við ræðum brjóstaskurðlækningar í tengslum við COVID-19 og lífið en hún er nú teymisstjóri brjóstaskurðlækningadeildar Landspítala.

 

Svanheiður hvetur konur hér á landi til að mæta í brjóstaskimun. Hjá íslenskum konum finnast stærri æxli en í Svíþjóð því þau uppgötvast seinna en ef þær kæmu reglulegar í skimun. Hér er Svanheiður með börnin sín. Mynd/gag

 

Lærði í Þýskalandi

Svanheiður lærði til læknis í Hamborg Þýskalandi og útskrifaðist 2007. „Ég fór á menntaskólaþýskunni til Hamborgar í nám. Mig langaði að prófa eitthvað nýtt og hafði fjölskyldutengsl út. Það var frábær reynsla að búa í stórborg á við Hamborg. Ekta heimavistarlíf fyrir stúdenta,“ segir hún og mælir hiklaust með námi þar ytra, en þar var hún í 6 ár.

Hún segir að þótt það sé krefjandi að hefja nám á þýsku sé góð þýskukunnátta ekki endilega lykilatriði að árangri, þar sem stuðst sé við alþjóðleg heiti í fagmálinu. „Það er ekki eins og hér þar sem fundin eru íslensk heiti yfir flestallt. Ég er enn að læra að tala fagmálið mitt á íslensku,” segir hún og hlær. Auðveldara hafi verið að fara frá Þýskalandi til Svíþjóðar en að koma heim.

„Maður er eiginlega mállaus fyrst í eigin landi, en sem betur fer hafa sjúklingarnir mínir mjög góðan skilning á þessu,“ segir hún og hlær.

 

Kann að meta tengslin

Þegar Svanheiður er beðin um að bera saman starfsemina hér heima og í Svíþjóð bendir hún á að á Sahlgrenska sé ein stærsta eining um brjóstakrabbamein í Evrópu. „Þar eru rúmlega 1000 brjóstakrabbameinsaðgerðir gerðar árlega. Það er því aðallega munur á stærðinni úti og hér heima. Aðbúnaðurinn og starfsaðstaðan er þar einnig betri,“ segir hún. Ekki sé hægt að líkja húsnæði spítalanna saman. Hér sé það löngu sprungið.

„Mér þykja persónulegu tengslin hér heima skipta máli. Úti er færibandavinnan mikil. Hér er þjónustan persónulegri og við fáum tækifæri til að fylgja sjúklingum eftir frá upphafi til enda og í endurkomu,“ segir hún. „Það gefur vinnunni meira gildi.“

Svanheiður segist ekki endilega hafa séð fyrir sér að koma heim eftir námið úti. „Nei, í rauninni ekki. Ég hef búið svo lengi erlendis og er Evrópubúi í mér. En svo gerðist það sem kemur fyrir flesta. Ég fékk allt í einu heimþrá.“ Fjölskyldan og foreldrarnir toguðu í hana.

Hún tók þátt í uppbyggingu á þverfaglegri brjóstamiðstöð á Sahlgrenska. Með kynslóðaskiptum á deildinni var starfsemin endurskipulögð, ferlar einfaldaðir og deildin nútímavædd.

„Hlutverk mitt þar sem skurðlæknir var meðal annars að koma inn með onkoplastíska hugsun, þróa uppbyggingarbrjóstaaðgerðir og styrkja tengsl milli Gautaborgarháskólans og Sahlgrenska akademíunnar,“ segir hún.

 

Hvetur konur í skoðun

„Þar er ég enn í rannsóknarhóp og stefni á náið samstarf við okkar deild hér heima,“ segir hún, en uppbygging brjósta gengur út á að sameina lýtaaðgerðir og krabbameinsskurðaðgerðir brjósta. „Það er gaman að koma með þessa þekkingu og reynslu heim,“ segir hún.

Svanheiður lýsir yfir áhyggjum sínum yfir því að konur hér á landi skili sér illa í krabbameinsskimanir. Brjóstakrabbamein í Svíþjóð greinist almennt fyrr. „Hlutfallið af snemmkomnum krabbameinum er hærra í Svíþjóð en hér,“ segir hún.

„Þátttaka í brjóstaskimunum hefur verið dræm síðustu ár hér á landi. Það sést þegar konurnar koma til okkar. Æxlin eru stærri,“ segir hún. Lífslíkurnar séu þó ekki minni enda meðferðin góð.

„En skurðmeðferðin sem slík er önnur. Umfangsmeiri skurðaðgerðir þarf til að taka stærri æxli,“ segir hún og hvetur konur til að mæta í skimanir. Hún vonar að breytingarnar framundan á skimunarferlinu verði til bóta, en stefnt er að því að Landspítali taki við þeim.

Svanheiður segir erfitt að vera krabbameinssjúklingur í heimsfaraldri. „Það hefur verið áskorun að endurskipuleggja greiningar, meðferðir og eftirlitsferla sjúklingahóps okkar með það í huga að verja bæði starfsfólk og sjúklinga gegn smiti,“ segir hún, og að þau fylgist náið með þróuninni erlendis.

 

Krabbamein í skugganum

„Við höfum setið fjarfundi til að fylgjast með breytingum á alþjóðlegum klínískum leiðbeiningum nú þegar meðferðarröðun brjóstakrabbameins hefur raskast vegna COVID-19,“ segir hún. Tímarnir taka á sjúklingana. „Mér finnst hafa gleymst að tala um það hvernig er að vera krabbameinssjúklingur á COVID-19 tímum,“ segir hún og fer yfir stöðuna.

„Einangrunin er sjúklingunum erfið og einnig að takmarkað sé hve margir aðstandendur mega vera með þeim í ferlinu.“ Þá hafi aðgangur að göngudeildinni verið takmarkaður sem og stuðningsnet við sjúklinga. „Loka þurfti tímabundið fyrir sálfræðiaðstoð, sjúkraþjálfun og flestalla aðra stuðningsmeðferð,“ segir hún. „Þetta hefur verið áskorun en gengið vel.“

Svanheiður segir að þurft hafi að forgangsraða á deildinni. Engar valaðgerðir eða flóknari uppbyggingaraðgerðir, sem krefjast lengri aðgerðartíma og sjúkrahúslegu, hafi verið gerðar. „Síðbúnar brjóstauppbyggingar voru settar á ís. Einnig áhættuminnkandi aðgerðir,“ segir hún og vísar þar til aðgerða vegna BRCA-gensins og þess sem hún nefnir önnur áhættustökkbreytinga--brjóstakrabbamein.

„Öll starfsemin er þó sem betur fer orðin nokkuð eðlileg. Við höfum náð að vinna upp aðgerðarbiðlista og gerum í dag allar gerðir af brjóstaaðgerðum,“ segir hún.

 

Málþing á Læknadögun

Svanheiður segir framþróunina í meðhöndlun brjóstakrabbameins hafa verið mikla síðustu ár. Lögð sé áhersla á þverfaglega nálgun og heildstæð meðferðarúrræði. Umfang brjóstaskurðlækninga hafi verið í stöðugri þróun. „Allt frá ofurróttæku brjóst- og eitlanámi til hlutabrottnáms og uppbyggingaraðgerða.“

Áhersla sé einnig lögð á að halda lífsgæðum sem mestum eftir krabbameinsskurðaðgerðir en 60% kvenna gangist undir hlutabrottnám brjósts með eða án hlutauppbyggingar en 40% upplifi brjóstnám. „Hjá brjóstnámshópnum er unnið samhliða að uppbyggingu brjóstsins í krabbameinsaðgerðinni hjá 60% þeirra eða samhæfingu á hinu brjóstinu,“ segir hún og stefnir á að stýra málþingi um brjóstakrabbamein á Læknadögum í janúar.

Svanheiður fer aftur að vinna þegar hún fær pláss á leikskóla fyrir litlu dótturina. „Ég ætla ekki að drífa mig heldur njóta þess að vera með henni. Verð þó að segja að það togar í mig að fara aftur að vinna,“ segir hún hressilega að lokum.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica