09. tbl. 106. árg. 2020
Umræða og fréttir
Ljósmyndir lækna frá COVID-19-sumrinu 2020
Læknablaðið bað nokkra lækna að senda mynd til birtingar frá þessu sögulega sumri. Myndir sem lýsa þessu einstaka sumri þegar allir voru heima á fróni að drekka í sig íslenska náttúru. Börn og fullorðnir að sá í landið og uppskera þjóðlegar og ógleymanlegar myndir af fólki og fénaði og landslagi sem spannar allan skalann og aftakaveðri og rjómablíðu og heitum vöfflum og nýjum kartöflum og umfeðmingi og mjaðjurt og birkilaut og helsingjum og maríuerlum og hreindýrum og rolluskjátum og folöldum og svo öllu þessu vatni. /VS
Sigurbergur Kárason
Fegurðin er alls staðar á hálendi og annesjum Íslands, gjöful og endurnærandi. Þar mætir hið mjúka og milda hinu harða og hrikalega á einstakan hátt.
Í sumar var þó kófið í bakgrunni, einkum þegar var setið þétt í bátsferðum og deilt rúmstæði í skálum með erlendum ferðamönnum. Ósjálfrátt var maður á varðbergi en á sama tíma þakklátur fyrir skimun á landamærunum.
Myndin er af álftum á heiðarvatni efst í Miðvík í Aðalvík á Hornströndum. Parið lónaði með ungana á vatninu, hafði augun á þessum tveim ferðalöngum sem höfðu truflað ró þeirra, en héldu stillingu sinni nema að karlfuglinn flaug upp öðruhvoru, tók tvo til þrjá hringi um vatnið en settist svo aftur. Samheldnin og umönnun unganna var augljós.
Mér sýnist að við bregðumst við á svipaðan hátt við þessari ógn sem veiran er – höldum ró okkar, verum á varðbergi, gætum hvert annars – og njótum fegurðar náttúrunnar.
Hrafnhildur Linnet Runólfsdóttir
Sumarið kom eins og lognið eftir storm – ný tækifæri hafa boðist, ævintýrin öðruvísi en áður en samt svo góð. Við fjölskyldan fundum annan takt í breyttum aðstæðum og það er margt sem vekur þakklæti, ekki síst að njóta samvista við hvort annað, njóta þess að heimsækja kunnuglega en þó í senn framandi staði og vera í hlýjum faðmi náttúrunnar.
Kristín Huld Haraldsdóttir
Myndin er tekin á Vatnajökli í leiðangri sem farinn var af því tilefni að 20 ár eru síðan Haraldur Örn Ólafsson fór á norðurpólinn. Farið var frá Tungnaárjökli og endað með ferð niður Lambatungnajökul. Ekki reyndist erfitt að halda sóttvarnarviðmiðum!
Alma Möller
Sumarleyfisdagar hafa verið fáir en vel nýttir. Myndin er tekin í tjaldútilegu í óbyggðum, þar sem enginn var nema við og hvorki net- eða símasamband. Það eru bestu frí í heimi.
Ég passa alltaf að vera með góða bók meðferðis.
Í fyrra var það Urðarmáni eftir kollega Ara Jóhannesson en hún fjallar jú um spænsku veikina.
Nú var það Selta: apókrýfa úr ævi landlæknis eftir Sölva Björn Sigurðsson; hvorutveggja algjörlega frábærar bækur sem hægt er að mæla með.
Niðurstaða eftir lestur þeirra er að það er mun betra að vera landlæknir árið 2020 heldur
en 1839 eða 1918.
Stefán Sigurkarlsson
Sumarið í ár var óvenju hljótt
Þar sem venjulega hefði mátt finna urmul veraldlegra pílagríma voru aðeins fáeinar hræður á stangli.
Svæði sem alla jafna kliðuðu með tungum hundrað þjóða stóðu þögul og dimm.
Þegar við komum í Reynisfjöru voru þar einungis fáeinar sálir sem
höfðu einhverra hluta vegna ekki getað slitið sig
frá öldurótinu.