09. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Á heimsmælikvarða í heimsfaraldri segir Karl G. Kristinsson um vinnustað sinn

Martröð og sigrar, segir Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir, um stöðu
sýkla- og veirufræðideildar Landspítala í baráttunni gegn heimsfaraldri. Deildin fer í þessum faraldri frá því að vera illa tækjum búin og í slæmu húsnæði í að komast á heimsmælikvarða. Hún fær brátt alþjóðlega faggildingu

„Ég vildi að maður gæti sagt starfsfólkinu að álagið væri að minnka en það virðist bara bætast í verkefnin,“ segir Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Hann segir að nú eftir sumarið verði búnaður deildarinnar á heimsmælikvarða. Margt hafi breyst til batnaðar í þessum heimsfaraldri.

Læknablaðið · Karl G. Kristinsson - viðtal, september 2020

viðtal

„Í upphafi skorti tæki, svo sýnatökusett og hvarfaefni, tæki biluðu, afkastagetan var of lítil. Þá fengum við landamæraskimunina á okkar borð ofan á greiningar á öðrum sjúkdómum,“ segir Karl sem viðurkennir að síðustu mánuðir hafi verið þeir annasömustu á ferlinum, sem spannar orðið rúma fjóra áratugi.

„Oft hefur verið unnið undir miklu álagi en þetta er það mesta sem ég hef lent í á starfsferlinum,“ segir hann. „Við höfum staðið í mikilli krísustjórnun og alltaf vonað að hlutirnir færu að róast, jafnvel vonast eftir einum eða tveimur frídögum. En alltaf hefur eitthvað komið upp á,“ segir hann. En hvenær býst hann svo við að álagið minnki?

 

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala, er stoltur af deildinni sem hefur færst frá því að vera vanbúin yfir í að vera á heimsmælikvarða í heimsfaraldri. Mynd/gag

 

Samstarf við Kára

„Við getum ekki keyrt mikið lengur eins og við gerum núna. Þess vegna erum við að fara í samstarf við Íslenska erfðagreiningu. Við fáum að nýta tækjabúnað þeirra í samvinnu við þá,“ segir Karl þar sem við hittum hann á rannsóknarstofunni í Ármúla þriðjudaginn 11. ágúst. Átján starfsmenn sýkla- og veirufræðideildarinnar flytjast í hús Íslenskrar erfðagreiningar um miðjan mánuðinn. Afköstin aukast verulega, eða um 5000 sýni, og deildarinnar sjálfrar í 4000 sýni á dag með nýju tæki sem kemur í nóvember.

„Samstarfið eykur afkastagetuna, en vinnuna líka, því eftir því sem við greinum meira, eykst vinnan. En það er vissulega gott að geta aukið afkastagetuna og þannig orðið við óskum stjórnvalda um að skima svona mikið meðfram því sem við greinum sjúklingasýnin frá heilbrigðisstofnunum.“

 

Vanbúin til áratuga

Sýkla- og veirufræðideildin hefur verið áberandi í fréttum nú í heimsfaraldrinum. Greint var frá því í fréttum RÚV í lok maí að tvær efstu hæðir húss deildarinnar við Ármúla hafi um nokkurra ára skeið verið lokaðar vegna leka. Áhugavert er að DV greindi frá því í forsíðufrétt í júní 1985 að rannsóknarstofan væri í gömlu þvottahúsi og því neitaði deildin að taka á móti „ónæmistæringarsýnum“. AIDS-sýni kæmu því ekki inn fyrir dyr rannsóknarstofunnar. Bágt ástand deildarinnar hefur því varað um langa hríð. Nú hefur hins vegar verið bætt úr húsnæðismálum auk þess sem hillir undir að deildin fari í nýtt húsnæði með nýjum spítala.

„Ég á þó ekki von á því að við getum verið hér fram að því. Það er verið að huga að öðru húsnæði fyrir okkur og erfða- og sameindalæknisfræðina, því hún er líka á hrakhólum. Einn möguleikinn er svo að við verðum í húsnæði í byggingu sem kallast Gróska og er í Vatnsmýri.“ Starfsemi sem ekki er unnin á vöktum myndi þá flytjast þangað. „En það er ekki búið að taka ákvörðun um þetta og ég veit ekki hvort af því verður eða ekki.“

Myndir teknar á sýkla- og veirufræðideild Landspítala í Ármúla í sumar. Þar hefur mætt mjög mikið á starfsfólki og búnaði síðustu COVID-mánuði en nú styttist í betri aðbúnað og húsnæði. Þorkell Þorkelsson tók myndirnar.

 

Óundirbúin heimsfaraldri

En hvað breyttist á deildinni með þessum faraldri? „Við vorum því miður ekki nógu vel undirbúin undir heimsfaraldur, frekar en aðrar deildir Landspítala,“ segir Karl hreinskilnislega.

„Fé til tækjakaupa hefur verið naumt skammtað frá því að ég man eftir mér. Óskalistinn hefur alltaf verið langur. Við höfum aðeins getað fengið það bráðnauðsynlegasta. Það var erfiðast að hafa ekki fullnægjandi tækjabúnað heldur gömul tæki sem sum biluðu þegar mest reið á,“ segir Karl og lýsir flóknu útboðsferli hjá ríkinu. Það skili ekki alltaf ákjósanlegustu niðurstöðunni, bestu tækjunum, heldur frekar þeim ódýrustu. Hins vegar þegar bráð þörf sé á megi ríkið hverfa frá útboði. Það hafi verið gert.

„Við fengum fyrsta tækið nokkuð fljótt en tæki númer tvö og þrjú eru ókomin.“ Tækið sem kemur í nóvember einangrar bæði erfðaefni og greinir þau. „Það er einnig sjálfvirkt svo við þurfum ekki eins mikinn mannskap,“ segir hann en starfsfólki deildarinnar hefur fjölgað mjög frá því að faraldurinn hófst, eða um 20 manns, en 18 starfsmenn hafa nú flutt í húsakynni Íslenskrar erfðagreiningar.

 

Sambland gleði og martraðar

En hvernig tilfinning er að fá tækin sem barist hefur verið fyrir í mörg ár í hendurnar svona á einu bretti? „Það er streituvaldandi en afar gleðilegt um leið,“ segir Karl og hlær.

Er þessi faraldur draumareynsla eða martröð? „Hvort tveggja,“ segir hann og hlær. „Þetta hefur verið hálfgerð martröð þegar illa gengur og krísurnar koma. En síðan þegar lausnin finnst og það rætist úr er skemmtilegt. Það skemmtilegasta við þetta er hvað deildin er búin að afreka mikið á stuttum tíma,“ segir hann.

„Deildin hefur tekið algjörum stakkaskiptum. Það er að þakka öllu starfsfólkinu, stjórn spítalans og heilbrigðis- og upplýsingatæknideildinni sem hefur aðstoðað okkur við að setja upp hugbúnað sem nauðsynlegur er til að þetta geti gengið. Það hafa margir lagst á eitt. Starfsfólk innkaupadeildarinnar, birgðastöðvar Landspítala og iðnaðarmenn sem hafa breytt og bætt húsnæðið. Þetta hefur verið teymisvinna.“ Faraldurinn hefur verið langhlaup hjá deildinni. „Sem er ekki lokið ennþá.“

Karl segir að eftir á að hyggja hefði deildin ekki getað gert margt öðruvísi, „nema ef við hefðum vitað að faraldur væri að skella á.“ Þá hefði vilji stjórnvalda til tækjakaupa líklegast verið meiri í aðdragandanum. „Nú hafa þau sagt að við fáum það sem við viljum til þess að efla deildina. Það er nokkuð sérstakt að fá þann stuðning,“ segir hann.

„Lærdómurinn sem við getum dregið af þessu er að hafa umframafkastagetu í tækjum, búnaði og hvarfaefnum. Svona faraldur getur skollið á hvenær sem er. Það er því mikilvægt að vera vel undirbúin.“

Hann segir að samstarfið og vinnslusamning við Íslenska erfðagreiningu hafi bjargað miklu. „Þetta hefði ekki gengið svona vel án samstarfsins.“

 

Gjörbreytt staða deildarinnar

Hvernig sérðu nú starfið þróast? „Deildin hefur gjörbreyst. Vinnsluferli og verkferlar verða nú straumlínulagaðri. Við erum betur tækjum búin og getum boðið betri þjónustu og próf með styttri svartíma en við gátum boðið áður. Við sjáum fram á að með nýja tækinu verði hægt að gera próf hér sem við höfum hingað til þurft að senda til útlanda. Deildin fer frá því að vera illa tækjum búin, í slæmu húsnæði í að vera á heimsmælikvarða,“ segir hann og er ánægður að sjá það.

„Það sem meira er, að á þessum tíma sem faraldurinn hefur geisað höfum við unnið hörðum höndum að lokaáfanga til faggildingar. Við stefnum að því að verða fyrsta opinbera rannsóknarstofan við sýnarannsóknir á mönnum hér á landi sem fær slíka vottun.“ Stefnt hafi verið að því í 15 ár og það sé nú næstum í höfn í þessum faraldri. „Við höfum gjörbylt þessari deild.“

Karl hvetur nýútskrifaða lækna til að fara í sérnám í sýklafræði og sýkingavörnum. Mynd/Þorkell Þorkelsson

Hvetur lækna til að sérhæfa sig í sýklum og veirum

Skortur er á læknum með sérhæfingu í sýklafræði og sýkingavörnum. Þetta segir Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Erfitt er að meta hvers vegna fræðin heilla svo fáa en líklega stafar það af því að þau koma snemma fyrir í almennu læknanámi.

Karl hvetur nýútskrifaða til að skoða sérnám á þessu sviði. Það gefi marga atvinnumöguleika. Sjálfur valdi hann fræðin þar sem hann hafði alltaf haft áhuga á smitsjúkdómum. „Á sínum tíma var stefnan sett á að verða sérfræðingur í lyflækningum með smitsjúkdóma sem undirgrein. Svo bað Arinbjörn Kolbeinsson, sem þá var yfirlæknir, mig um að koma að vinna á sýklafræðideildinni við Barónsstíg. Mér fannst starfið skemmtilegt og bjóða upp á marga möguleika.“

Hægt er að einblína á kennslu, rannsóknir, faraldsfræði, lýðheilsu og vísindarannsóknir. „Mér finnst það gefa starfinu gildi að vera stöðugt að fást við eitthvað nýtt.“

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica