09. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Spítalalæknar undrandi og vonsviknir yfir örlögum læknaráðs og vilja tryggja framtíð fagráðs lækna

Lagabreytingin sem leggur niður læknaráð er bæði ótrúleg og óskiljanleg segir starfandi formaður læknaráðs Landspítala, Anna Margrét Halldórsdóttir. Hún segir að ráðgefandi hlutverk læknaráðs nú horfið úr lögum og framtíð ráðsins óljós

„Læknar eru bæði vonsviknir og slegnir yfir þessari atburðarás,“ segir Anna Margrét Halldórsdóttir, starfandi formaður læknaráðs, um þá breytingu sem varð á heilbrigðislögum í sumar sem leggur læknaráð heilbrigðisstofnana niður. Ráðið sendi læknum á Landspítala bréf 26. ágúst vegna stöðunnar.

„Stjórn læknaráðs lítur svo á að forsendur fyrir áframhaldandi starfi læknaráðs Landspítala séu brostnar samkvæmt lögum,“ segir í því. Stjórn ráðsins hafi í aðdraganda lagabreytinganna harðlega gagnrýnt þær „- en án árangurs.“ Ráðið hvetur lækna til að íhuga og ræða stöðuna.

„Við skiljum ekki af hverju var farið í þessa vegferð og hvernig hún á að leiða til góðs,“ segir Anna Margrét í samtali við Læknablaðið.

„Þetta eru neikvæðar breytingar að okkar mati. Við læknar höfum lagt okkur fram um að vera rödd góðrar heilbrigðisþjónustu, rödd sjúklinga og látið vita ef vandi er til staðar í starfsemi spítalans - ef eitthvað þarf að lagfæra.“

En er lagabreytingin þá liður í að þagga niður í læknum? „Maður fær það óneitanlega á tilfinninguna. Það eru engin sannfærandi rök fyrir þessum breytingum og beinlínis búið að segja við lækna að þeir hafi verið með óþægilega gagnrýni. Okkur líður því mörgum eins og verið sé að þagga niður í læknum.“

Anna Margrét bendir á að læknaráð sé fyrst og fremst vettvangur fyrir faglega umfjöllun um starfsemi spítalans. „Það að einhver vilji hugsanlega þagga niður í því er óskiljanlegt,“ segir hún. Læknaráð viti ekki hvort gert sé ráð fyrir samráðsvettvangi lækna innan spítalans eftir breytingarnar.

„Nú hefur læknaráð ekki hlutverk gagnvart stjórnendum spítalans samkvæmt lögum,“ segir hún. Beðið er eftir útgáfu reglugerðar um fagráð og ræða þurfi framtíðarfyrirkomulagið við stjórnendur spítalans. „Nákvæmlega hver hugur þeirra er í þessu máli á eftir að koma í ljós.“

En hvað er til ráða? „Læknar virðast einhuga um að það þurfi að vera faglegur vettvangur lækna til staðar á spítalanum. Búið er að fjarlægja læknaráð úr lögum en það er ekki þar sem að sagt að við getum ekki stofnað annan vettvang og haldið starfsemi okkar áfram. Einnig er mikilvægt að læknar velji sjálfir sína fulltrúa í slíkt faglegt ráð eins og raunin var með læknaráð.“

Með breyttum lögum er nú gert ráð fyrir sameiginlegu fagráði lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta sem forstjóri heilbrigðisstofnunar mun skipa í stað læknaráðs, hjúkrunarráðs og annarra fagráða. Anna Margrét segir enn óljóst hvernig staðið verði að því. „Við höfum ekki andmælt stofnun sameiginlegs fagráðs en ljóst er að sá hópur kemur alls ekki í staðinn fyrir læknaráð.“

Stjórn læknaráðs hvetur lækna til þess að taka þátt í aðalfundi Félags sjúkrahúslækna 24. september. Þar á að ræða hvernig tryggja megi áfram faglegan umræðu- og samráðsvettvang fyrir lækna spítalans.

„Læknar eru framlínustarfsmenn. Vel menntuð og öflug stétt. Það er óviðunandi ef við höfum ekki farveg til að koma áhyggjum og ábendingum – góðum eða slæmum - á framfæri. Ekkert gott hlýst af því að leggja niður læknaráð – hvorki fyrir heilbrigðisstofnanir, starfsmenn né sjúklinga.“

 

Hvað breytist samkvæmt bréfi læknaráðs?

  • Læknar Landspítala hafa ekki lengur formlegan, sameiginlegan vettvang til umræðna og ályktana í stjórn læknaráðs sem kosin er af læknum á aðalfundi læknaráðs
  • Forstjóra Landspítala ber ekki lengur lagaleg skylda til þess að leita álits læknaráðs í mikilvægum málum
  • Stöðunefnd læknaráðs hefur verið lögð niður og þar með umfjöllun lækna um starfsumsóknir sinna kollega
  • Fræðslunefnd læknaráðs hefur haldið uppi öflugu fræðslustarfi til margra ára en skipan og áframhaldandi starf fræðslunefndar er í óvissu
  • Almennir læknaráðsfundir hafa verið vettvangur fyrir samtal og ályktanir fyrir alla lækna spítalans en framhald slíkra funda er óvíst

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica