07/08. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Dagur í lífi astma- og ofnæmislæknis. Unnur Steina Björnsdóttir

06:20 Hvolpurinn (13 mánaða, 40 kg) hoppar upp í rúm. Hann sofnar aftur en ég ekki.

06:35 Vekjarinn hringir. Fálma eftir inniskónum en hundurinn fer með þá út í óvissu heimilisins. Ommeletta (alltaf á hálf Ketó, enda fædd fyrir 1960 …) og kaffi, tek ég til á baðinu meðan ég klára að hafa mig til (gera ekki konur alltaf tvennt í einu? – þrífa baðherbergisvaskinn meðan þær bursta tennur?

07:30 Af stað í vinnu. Bogi með heimsgluggann á RÚV á leiðinni.

07:47 Komin í Fossvoginn, hendi mér í sloppinn með afskornu ermarnar. Ekki mjög smart, enda ermasíddin ekki flatterandi fyrir upphandleggina en æðisleg smitvörn.

08:05 Búin að spritta mig fjórum sinnum (who´´´s counting?) og dagurinn ekki byrjaður. Opna tölvu, OMG 15 nýir tölvupóstar frá riturum og sjúklingum. Kíki á sjúklingabókanir dagsins fyrir astma-mótttökuna.

08:30 Kaffibolli hjá riturunum á E7, – loksins kom kaffivélin í tilefni COVID. Röntgenfundur á lungnadeild, notalegt að hitta kollegana í morgunsárið og fara yfir málin. Tilbúin í daginn.

09:00 Annar kaffibolli – greinilegur koffeinskortur. Kem við á astma-göngudeildinni. Þekki flesta sem sitja á ganginum og bíða eftir sprautu. Allir GLAÐIR. Ótrúlegt að upplifa þessa tíma. Hvern hefði grunað að 2020 væri til klæðskerasniðin meðferð fyrir astmasjúklinga sem gerir þeim kleift að hætta alveg að nota predni-sólón, finna nánast aldrei fyrir astma-versnunum, geta sinnt fjölskyldunni og snúið aftur til vinnu. Við höfum haft 300 manns á líftæknimeðferð sem segja: „nýtt líf”. Er þá ekki tilganginum náð og þetta það sem læknisstarfið snýst um?

09:30 Hitti nemann sem er gera BS-verkefni við deildina. Hún verður góður læknir. Full af eldmóði og áhuga. Samviskusöm og klár.

11:00 Spritt: 15. skipti. 7 sjúklingasímtöl. Leysti málin hjá öllum nema einum. Hættur að svara líftæknilyfinu og fékk versnun á astma. Kalla hann inn á morgun.

11:35 Hljóp niður í matsal. Sushi (frábær nýjung hjá Landspítala) og „borða hratt og fljótt”, helst meðan maður vinnur. Við Sigurveig Þ. Sigurðardóttir förum yfir eftirlit mótefnagjafa og úrlestur á sértækum mótefnum.

12:00 Fundur göngudeildar með Maríu Gunnbjörnsdóttur og Dóru Lúðvíksdóttur. Erum komin með gagnagrunn um sjúklingana og getum fylgst með líðan þeirra og svörun við lyfjum. Svona gagnagrunnur sparar líka pening fyrir kerfið, hallelúja …

13:00 Fjölskyldufundur á gjörgæsludeildinni. Vinkona mín liggur þungt haldin, gott að sjá hana brosa. Allt starfsfólk leggst á eitt við að koma henni til heilsu.

13:45 Sjúklingamóttaka A3. Enginn lengur með maska og hanska. Nota núna ef ég brýt 2 metra regluna, þegar otoscopið fer upp í nefgöngin, geri húðpróf og spirometriur.

15:45 Búin að sjá 6 sjúklinga. Allir með slæman astma, ýmist eosinophil-drifinn og á anti-IL5 eða ofnæmis-astma og á anti-IgE. Einn fékk COVID, er að ná sér en erfitt andlega og með áreynslumæði. Endurkoma eftir 2 vikur. Þarf annan kaffibolla og hleyp niður í matsal í lúxus-kaffið. Spritttalning 35, – farið að klæja í hendurnar.

16:00 Fjarfundur með norrænum astma-systkinum. Erum að klára samþykkt um klínískt mikilvægi Type 2 bólgusvars í alvarlegum astma, allergískum rhinitis, sinusitis og atopísku exmea. Spennandi. Erfitt að tengjast með Teams en gekk að lokum.

16:45 Stimplun út í vorið. Ausandi rigning. Úff.

17:00 Víðidalur. Gott að sjá Gráskinnu mína sem kumrar á móti mér. Dríf mig í verkin og moka stíur. Dóttirin búin að hreyfa tvo hesta en ég nenni ekki á bak. Hitti Guðrúnu Scheving félaga minn á „læknastéttinni” í hesthúsahverfinu.

18:00 Kaupi í matinn. Langt síðan síðast. Sendi dóttur mína í innkaupin meðan COVID gekk yfir. Spritta mig EINU SINNI ENN, nr. 38.

18:30 Kíki við hjá pabba. Heldur slappur, blóðþrýstingur reyndist 175/114, úpps. Fékk eina amló hjá mér og skánaði! Dásamlegt að sjá hann daglega eftir alla þessa einangrun!

19:30 Mætt á minn stað – staða konunnar er á bak við eldavélina sagði einhver. Ekki sammála. Dóttirin aðstoðar í eldhúsinu og sonurinn spilar undir á saxann.

21:00 Fer yfir skólaumsókn fyrir soninn, undirbý viðtal morgundagsins. Náum aðeins að spjalla. Hringi og býð frændfólki í 90 ára afmælisveislu mömmu í næstu viku.

22:00 Göngutúr með eiginmanninum og Golden-hundunum okkar.

22:30 Horfum á fréttir og ég leyfi mér einn Afterlife með Ricky Gervais – snilld og fær mann til að brosa.

23:30 Gott að leggjast í rúmið sitt undir hlýja sæng. Líður bara vel með daginn …

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica