07/08. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Skilvirk, fókuseruð og með skýra sýn - viðtal við þríeykið

Þríeykið. Orð sem allir sem eitthvað fylgjast með vita hvað stendur fyrir. Alma D. Möller landlæknir, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra hafa staðið í forgrunni COVID-19 heimsfaraldursins hér á landi og hlotið fálkaorðu fyrir

Alma D. Möller landlæknir, Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir eru Þríeykið sem berst við heimsfaraldurinn COVID-19. Myndir með viðtalinu tók Kristinn Ingvarsson í húsnæði Embættis landlæknis í Katrínartúni 2.

„Nú er gott að fá sér köku, síðustu droparnir eru á glugganum,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og horfir um leið út í sólríkan daginn af 6. hæð Embættis landlæknis á Höfðatorgi. Hann er að lýsa starfsorkunni í lok dags. Klukkan er ríflega fjögur seinnipart föstudags. Fjölmörg verk-efni eru að baki hjá þríeykinu sem aðeins nokkrum dögum síðar, þjóðhátíðardaginn 17. júní, er sæmt fálkaorðunni af forsetanum.

viðtal

„Já, það er gott að fá sér gerviorku,“ segir Víðir og fær sér af skreyttri kökunni. Þau sitja þrjú með blaðamanni Læknablaðsins á skrifstofu landlæknis. Alma lætur kökuna vera.

Þríeyki. Það er alveg ljóst að þau eru samtaka. Þau meira að segja kusu að koma saman á bíl á ráðstefnuna Út úr kófinu. Vinir? „Við erum ekki óvinir,“ svarar Alma um leið. Þórólfur bætir við: „Ég myndi segja að við föllum ótrúlega vel saman.“ Því jánkar Víðir og Þórólfur heldur áfram. „Við erum náttúrulega ólík.“ Víðir bætir við: „Sem er kostur.“

Fálkaorðuna, riddarakrossinn, fengu þau fyrir störf í þágu heilbrigðismála og framlag í baráttu við COVID-19-farsóttina. En aftur að samheldninni.

Praktískir en ólíkir einstaklingar

Alma segir ekkert vit í að koma þrjú á þremur bílum. „Já, við erum praktísk og Víðir keyrir. Oftast.“ Víðir segir þau dæmi um vinnufélaga sem nái vel saman. „Við erum mjög fókuseruð á verkefnið og út á það gengur þetta. Við eigum ekki í samskiptum utan vinnunnar, þannig.“

Þrír ólíkir einstaklingar segir Víðir. „Við erum skilvirk, fókuseruð og með skýra sýn á hvaða árangri við ætlum að ná í þessum faraldri.“

Augljós virðing er í samskiptunum. Þórólfur segir þau þekkja hlutverk hvers og eins vel. „Það hefur verið einn af styrkleikunum í þessum faraldri.“ Alma segir þau hafa augun á verkefninu. „Persónulegir hagsmunir skipta ekki máli. Það er verkefnið sem gildir.“

Þórólfur segir hreinskiptnar umræður nauðsynlegar og Víðir leggur áherslu á ólíkan bakgrunn þeirra. „Þótt þau séu bæði læknismenntuð eru þau menntuð á sitthvoru sérsviðinu. Það gagnast okkur. Við berum öll virðingu fyrir fagmennsku hvers annars í þessu. Samstarfið hefur því smollið frá fyrsta degi.“ Alma samsinnir því.

Hefðu mátt hreyfa sig meira

En hvernig hafa þau haldið í starfsþrekið og ferskleikann? „Erum við fersk?“ spyr Þórólfur á móti. Þau hlæja. Alma segir þau hafa gaman af því að vinna. „Við teljum það ekki eftir okkur. Það er svolítið lykillinn að þessu.“ Öll alin upp í sjávarplássum, hún á Siglufirði og þeir í Vestmannaeyjum.

„Við erum því örugglega með vertíðargen og mikið starfsþrek,“ segir hún. „Við fórum að vinna sem börn í fiski, langa vinnudaga. Maður ber virðingu fyrir vinnunni og þekkir ekkert annað.“ Þeir samsinna. Víðir segir að hann hafi byrjað að vinna 10 ára. Þórólfur skýtur að: „slíta humar“.

Alma bendir á að þau þurfi að forgangsraða svefni og næringu og reyna að hreyfa sig. Hún hugsi þó að þau Þórólfur hafi ekki hreyft sig eins mikið og þau ættu að gera.

„En Víðir hefur lagt hellur og farið í golf,“ segir hún. Víðir gefur lítið fyrir það og Þórólfur skýtur því að, að hvað sig snerti hafi hann nú ekki hreyft sig neitt. Víðir segir að hann hafi lært af biturri reynslu í hamfaraverkefnum áður að passa sig ekki á því að hvíla sig og borða.

„Ég er því búinn að vera með það ofarlega í kollinum mjög lengi.“ Hann hafi því reynt að hreyfa sig þótt hann kæmi seint heim. „Þó ekki sé nema að fara út að labba einn kílómetra.“

Alma segir þó einn helsta lykilinn að úthaldinu að þau misstu aldrei tök á verkefninu. „Þess vegna misstum við heldur ekki tök á okkur sjálfum.“

Virða vinnuna og vön álagi

Þórólfur nefnir að vaktafyrirkomulag lækna hafi einnig þjálfað þau upp fyrir törn sem þessa. „Vaktavinna, vinnandi á nóttunni, vinna næsta dag. Áfram, áfram. Þannig hefur maður unnið frá því að maður var læknanemi og jafnvel fyrr þegar maður vann í fiski. Ég hef haldið því áfram þótt ég finni að ég þoli þetta verr eftir því sem tíminn líður. En við Alma erum vön svona vinnu og ég býst við að Víðir sé það úr lögreglustarfinu,“ segir Þórólfur. Svo gefi árangur dagsins mikla innspýtingu.

„Það er gefandi þegar allir eru ánægðir og samstíga. Að sama skapi, ef allt gengur á afturlöppunum næsta dag þá verður maður þreyttari. En ég veit alltaf að það styttir upp. Það verður betra, við höldum áfram, gefumst ekki upp og allt í einu finnur maður árangurinn og fær vellíðunarstrauma.“

Þórólfur nefnir einnig mikilvægi vinnumóralsins. „Takist að ná móralnum upp og hægt er að hlæja og gleðjast og gera grín að sjálfum sér og öðrum, þótt allt sé að fara til andskotans, og sjá spaugilegar hliðar á hlutum, þá líður manni betur.“ Víðir tekur undir að þetta séu eiginleikar sem þau búi öll yfir. „Við höfum húmor fyrir sjálfum okkur. Við erum ekkert feimin við að gera grín að sjálfum okkur og hvert öðru.“

Þau segja grínið hafa verið fastan lið á stöðu-fundum almannavarna sem varpað var út um allt land. „Þar var grín dagsins sem fólst mest í að gera grín að okkur sjálfum og hvert öðru.“ Þórólfur: „Já, gera grín að mér.“ Víðir svarar: „Nei, nei.“ Þau hlæja.

Fórna tíma fjölskyldunnar

En hvað var persónulega erfiðast á þessum tíma? Þórólfur segir það hafa verið hversu lítið hann hafi getað sinnt fjölskyldunni. „Strákarnir mínir eru fluttir að heiman og hafa ekki kvartað en svo virðist sem allt gangi framar heimilinu.“

Alma nefnir það sama en segir að þar sem fjölskyldumeðlimir hafi verið annars staðar í sóttkví hafi þau ekki tekið eftir því um tíma að hún væri að vinna frá morgni til kvölds. „En ég gat ekki sinnt móður minni eins og ég hefði viljað en það var líka þar sem hún var  í varnareinangrun meðan á faraldrinum stóð, enda 97 ára. En þetta eru ekki rosalegar fórnir.“

Víðir segir stuðning fjölskyldunnar skipta meginmáli. „Auðvitað eru vinnufélagar ómissandi til að halda utan um verkið en fjölskyldan er það svo sannarlega til að halda manni gangandi. Ég, eins og Alma lenti í, var einn í tvær vikur. Var á hóteli vegna sóttkvíar fjölskyldunnar. Það var skrýtið. Ég varð líka afi á þessum tíma. Maður hefur allt of lítið getað gefið sig að barnabarninu.“ Þá hafi dóttir hans verið í inntökuprófi fyrir sjúkraþjálfun dagana 11.-12. júní. 

„Ég hefði gjarnan viljað standa betur með henni síðustu dagana fyrir prófið. Svo kemur þetta landamæraverkefni upp og tekur tímann núna. Fjölskyldulega séð hefur þetta kostað helling.“

Alma segir eiginmanninn og börnin helstu stuðningsmenn sína. „Þau hafa bæði sýnt mikinn stuðning og verið mjög hvetjandi.“ Víðir segist einnig vera hvattur áfram af konunni, börnunum tveimur og tengdadóttur. „Alltaf senda þau mér eitthvað smá,“ segir hann og Þórólfur grípur inn í.

„Það er eitthvað annað en mín kona.“ Þau hlæja. „Ég er að grínast. Hún er ótrúlega umburðarlynd, mjög félagslynd og ég aldrei heima. Svo þegar ég kem sest ég og geri fyrirlestur fyrir næsta dag. Þegar hægist um sest ég með gítarinn og æfi fyrir næsta gigg. Þetta er ekki bjóðandi.“ Alma skýtur að. „Þú getur tekið hana með í vinnuna. Heldurðu að hún hefði ekki gaman af því að hitta okkur?“ Hann hváir.

„Ég hef oft hugsað: Hvernig myndi ég taka þessu ef ég væri hinum megin við borðið? Ég er ekki viss,“ segir Þórólfur.

Óvissan um framhaldið erfið

Svikalogn. Erum við í svikalogni faraldursins? „Já, við erum í ákveðnu logni þar sem við vitum ekki hvort það kemur rok, gola, rigning eða snjókoma,“ segir Þórólfur. „Þetta er óvissutími og verður erfiðari en sá tími sem við höfum gengið í gegnum. Núna takast margir hagsmunir á. Heilsufarslegir númer eitt, svo eru þessir efnahagslegu og utanríkispólitík. Allskonar hlutir sem togast á. Við vitum ekki hvað þetta tekur langan tíma. Það er það versta.“

En er þá táknrænt að upplýsingafundirnir hafi verið færðir úr gámnum við Skógarhlíð inn í ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu? Er pólitíkin farin að toga í ykkur? „Ekki okkur,“ svarar Þórólfur. „En maður finnur fyrir því að aðrir hagsmunir berja á dyrnar. Það er eðlilegt og það væri óeðlilegt ef læknar og almannavarnir tækju ekki mið af þeim hagsmunum líka.“ Víðir segir eðlilegt að aðrir sérfræðingar komi að borðinu. Skilaboð ráðherra málaflokkanna hafi þó frá upphafi verið að sóttvarnir trompi allt.

Alma bendir á að þau hafi mætt pressu þegar leið á upplýsingafundina. „Eins og við bærum ábyrgð á því að hér væri gríðarlegt atvinnuleysi. Ég stillti mig um að svara: Haldið þið að ríkisstjórnin ætli að láta tvo lækna og einn löggukarl ákveða framtíð landsins? Auðvitað verða aðrir að gera það og ríkisstjórnin er til þess kjörin. Núna þegar önnur sjónarmið fá meira vægi boðar ríkisstjórnin þessa fundi. Hún er komin meira fram fyrir skjöldu,“ segir Alma.

Þórólfur segir heilsufarslega hagsmuni ekki aðeins felast í því hvernig veiran hegði sér. „Við þurfum því að líta til fleiri þátta heldur en bara á veiruna. Hún er númer eitt og við verðum að halda henni niðri en við þurfum líka að gera okkur ljóst að það sem við gerum getur valdið öðru heilsufarslegu tjóni sem menn sáu ekki fyrir og er álíka slæmt og það sem við erum að reyna að koma í veg fyrir.“ Alma bætir við að gott atvinnulíf sé undirstaða lýðheilsu.

Gagnrýni bæti ákvarðanirnar

Þórólfur segir að gagnrýni hafi komið fram á störf hans sérstaklega og hann talinn vera að breytast í míní-hagfræðing. „Það er algjörlega algjört rugl. Ef menn segja það eru þeir úti að aka. Eins og ég hef sagt margoft þá kann ég ekki mun á debet og kredit,“ segir hann. Hlátur. En var hann þá hissa á gagnrýninni sem hann mætti?

„Nei, nei, alls ekki,“ segir hann. „Ég hef fengið harða gagnrýni frá læknum frá upphafi. Það er allt í lagi. Ég er ánægður að fá krítík því það neyðir mann til að hugsa hvort eitthvað sé til í henni, hugsa málin upp á nýtt. En svo kemst maður að niðurstöðu. Annaðhvort breytir maður um kúrs og segir gagnrýnina góða eða maður segir að hún sé ekki rétt og heldur áfram.“

Víðir segir gagnrýni undirstöðu góðrar ákvörðunartöku. „Það er hættumerki í svona krísustjórnun ef enginn gagnrýnir það sem þú ert að segja. Á sama tíma vill maður sjá gagnrýni setta fram á faglegan hátt. Þannig hefur það verið í langflestum tilfellum.“ Víðir segir einnig að hann hafi fylgst með læknanámi sonar síns.

„Og mér finnst það byggja á að fara út á svalir og horfa á umhverfið, heildarmyndina.“ Læknum sé kennd víðsýni og gagnrýnin hugsun. Alma segir að þau hafi ákveðið í upphafi að forðast rörsýn. „Að fylkja okkur ekki sjálfkrafa bakvið einhverja ákvörðun heldur passa okkur á að horfa yfir sviðið.“

Horfa á heildarmyndina

En hvernig metur landlæknir stöðu heilbrigðiskerfisins nú í framhaldinu? „Við erum með viðkvæmt heilbrigðiskerfi vegna smæðar samfélagsins. Viðkvæmara en margar aðrar þjóðir, flestar,“ segir hún.

„Þess vegna finnst mér mikilvægt að opna landamærin eins varlega og hægt er og reyna að hindra að smit komi að utan. Við munum örugglega ekki ná öllum en einhverjum. Það er þess virði.“ Samfélagið er betur í stakk búið nú en þegar fyrsta smitið kom upp í febrúarlok.

„Við höfum dýrmæta þekkingu og reynslu. Við vitum meira hvernig við meðhöndlum faraldur og hvernig við meðhöndlum einstaka sjúklinga. Ég held að við verðum að hafa kjark til að aflétta öllum hindrunum en vera sífellt viðbúin að breyta um stefnu.“ Kerfið hefur sýnt mikinn sveigjanleika.

„En það þurfti mikið til og ég er ekki viss um að við getum verið stöðugt í þessu ástandi. Við eigum því að gera það sem við getum til að hafa stjórn á faraldrinum þannig að við lendum ekki í því að þurfa að fresta öðrum aðgerðum og þjónustu, en ég er ekki kvíðin fyrir sumrinu,“ segir Alma.

Gagnrýnd hvernig sem fer

En hvernig meta þau framhaldið? Þórólfur segir erfitt að segja til um það. Hann horfi út fyrir landsteinana.

„Ég tel að við séum að gera þetta eins vel og við getum ef við stígum varlega til jarðar, vitum hvað við erum að gera, gerum það á yfirvegaðan máta, öflum vitneskju um hvað við eigum að gera og fylgjum því svo eftir. Ég held að það sé ekki hægt að krefjast annars af okkur, af öllum, af kerfinu.“ Gagnrýnin er óumflýjanleg.

„Ef ekkert gerist og það kemur aldrei nein sýking segja menn: Þið gerðuð of mikið, lögðuð allt í kaldakol og eyðilögðuð allt. Svo var þetta bara ekki neitt neitt. Nú ef allt fer á slæman veg og við fáum holskeflu yfir okkur aftur segja menn: Djöfullinn maður. Þið gerðuð ekki neitt.“ Þórólfur segir að þau reyni að feta milliveginn og sjá hvað sé framundan.

„Við erum að vanda okkur og reyna að gera eins vel og við getum. Síðan verðum við að sjá hver árangurinn verður.“

Ánægð með heilbrigðisstarfsfólk

„Ég er ánægð með að heilbrigðisstarfsfólk okkar kemur stolt út úr þessum faraldri,“ segir Alma D. Möller landlæknir. „Það hefur unnið gott starf.“ Víða annars staðar sé heilbrigðisstarfsfólk í annarri stöðu.

„Það er í áfalli eftir að hafa þurft að vinna án hlífðarbúnaðar. Eftir að hafa ekki getað sinnt öllum. Ég er viss um að það á eftir að fylgja mörgum áfram að vinna úr þeirri reynslu, í löndum nálægt okkur,“ segir hún. „Ég tel að fólkið okkar komi betur út úr þessum faraldri en víða annars staðar, sem er dýrmætt.“

Víðir segir reynsluna sem hafi safnast upp gríðarlega. „En í lögreglunni, eins og í heilbrigðiskerfinu, er mikil þreyta.“ Lögreglumenn séu líka án kjarasamnings. Það hafi áhrif á starfsþrek.

„Svo hefur maður áhyggjur af 330 milljarða króna halla á næsta ári,“ segir hann. „Við sem höfum unnið lengi í opinbera kerfinu vitum að það þýðir að við stöndum á einhverjum tímapunkti frammi fyrir niðurskurði.“

En hvað með heilbrigðiskerfið? Alma segir forgangsröðun afar mikilvæga. „Við sjáum það í þessum faraldri hvað það er gott að eiga öflugt heilbrigðiskerfi.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica