07/08. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Framundan hjá LÍ. Reynir Arngrímsson

Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.

Umfang starfs og þjónustu læknafélagsins vex stöðugt. Að mörgu var að hyggja í kjölfar breytinga á skipulagi og uppbyggingu félagsins, sem gengu í gildi eftir aðalfund LÍ 2018. Þá viku svæðafélögin og félagsskipting eftir starfsvettvangi var tekin upp. Við breytingarnar var ekki fjallað um hvort hlutverk LÍ ætti að breytast við að valið væri í stjórn félagsins með öðrum hætti en áður, en samstaða var um að starfsemi félagsins ætti að haldast óbreytt.

Eftir standa atriði sem vert er að skoða nánar, svo sem hlutverk annarra svæðafélaga en Læknafélags Reykjavíkur. LR hélt áfram í skipulagi LÍ sem félag lækna sem starfa sjálfstætt, að hluta til eða öllu leyti.

Læknafélag Akureyrar hafði um árabil haldið fræðslu- og símenntunardag, stutt við varðveislu lækningaminja á Norðurlandi og nýtt til þess tíundina af félagsgjöldum sem svæðafélögin fengu frá LÍ. Með skipulagsbreytingunum hefur fjárhagslegur grunnur fræðslustarfsemi á landsbyggðinni veikst.

Ekki var mótuð afstaða til tengsla sérgreinafélaga og öldungadeildar lækna við LÍ, ef frá er talið að Félag íslenskra heimilislækna sem er sérgreinafélag heimilislækna og eitt fjögurra aðildarfélaga LÍ. Skurðlæknafélag Íslands hefur samningsumboð fyrir félagsmenn sína þótt félagið hafi ekki lengur beina aðild að Læknafélaginu en læknar í SKÍ eru samt jafnframt félagar í LÍ. Á síðasta aðalfundi LÍ var samþykkt tillaga Félags almennra lækna um að kanna möguleika á því að starfandi læknanemar fái aðild að LÍ. Starfshópur hefur nú verið skipaður til að fjalla um þá ályktun.

Stefnumótunarvinna

Það var því margt sem kallaði á að LÍ færi í stefnumótunarvinnu um hlutverk og stefnu félagsins sem samþykkt var á aðalfundi LÍ 2019. Vinnan hófst í kjölfarið og stendur enn. Nú þegar hefur farið fram gagnaöflun og greining með viðtölum við stjórnarmenn, stjórnir aðildarfélaga, formenn nefnda og starfshópa og starfsfólk skrifstofunnar. Fram hafa komið sjónarmið um að félagið haldi styrkleika sínum og að fagfélagshlutinn verði styrktur, meðal annars með því að símenntun verði komið í skipulegra form. Að jafnréttis- og samskiptamálum verði lyft og að félagið verði virkara í að móta stefnu og koma henni á framfæri.

Þrjár meginstoðir starfseminnar

Skipta má starfsemi félagsins í þrjár meginstoðir: 1) Kjaramál en þar falla undir samninganefndir, kjarasamningar við ríkið, samningur við Sjúkratryggingar, samstarfsnefndir vegna samninga og önnur kjara- og réttindamál. 2) Persónulega þjónustu, lögfræðiaðstoð, rekstrarráðgjöf, styrkir, sjóðir, jafnrétti, heilsa og velferð. 3) Fagmál, Fræðslustofnun, menntun, framhalds- og viðhaldsmenntun lækna, háskólasamstarf, Læknablaðið, siðamál og alþjóðasamstarf.

Hvert stefnir?

Lagt hefur verið til að í næstu skrefum stefnumótunarvinnunnar verði óskað aðkomu vinnuhópa til að fjalla um þessar þrjár meginstoðir starfseminnar. Leitað verður til starfshópa sem þegar eru starfandi, svo sem starfshóps um símenntun, samskipta- og jafnréttisnefndar og siðfræðiráðs. Nýir vinnuhópar verða settir á laggirnar. Einn mun fjalla um starfsumhverfi lækna, starfsaðstæður, heilsu og álag. Annar vinnuhópur mun fjalla um fagmálefni með forgangsröðun og aðgerðaáætlun til að styrkja þann þátt starfseminnar. Loks mun vinnuhópur fjalla um stefnu og skipulag í heilbrigðismálum og leiðir.

Annað sem þarf að skoða í þessari vinnu er innra skipulag skrifstofu, verkefni og ábyrgð. Vegna frekari gagnaöflunar fyrir stefnumótunarvinnuna, meðal annars um aðkomu sérgreinanna að faglega hluta LÍ, er framundan að halda fund með formönnum sérgreinafélaga. Honum varð að fresta vegna samkomutakmarkana í vetur. Loks er fyrirhugað að leggja skoðanakönnun fyrir alla félagsmenn á haustmánuðum.

Vonast er til að félagsmenn taki virkan þátt í þessari vinnu og taki þannig þátt í að móta framtíð og hlutverk LÍ.

Samningar lækna

Vaxandi óþreyju gætir hjá læknum vegna stöðu samningamála. Læknar hafa verið kjarasamningslausir í bráðum eitt og hálft ár. Sumarleyfistíminn er hafinn og lítið þokast í samkomulagsátt.

Á haustmánuðum þurfa læknar að vera viðbúnir því að það dragi til tíðinda í kjarabaráttu þeirra hafi þá ekki náðst lending í samningaviðræðum. Sama er að segja um sjálfstætt starfandi lækna og viðræður þeirra við Sjúkratryggingar.

Enn virðist vanta allan vilja stjórnvalda til að ljúka samningaviðræðum og samningsmarkmið stjórnvalda er óljóst. Það er umhugsunarefni fyrir lækna að ríkið skuli ekki hafa talið eftirsóknarvert að ná samningum við þá meðan meira mæðir á þeim en flestum öðrum. Sú staðreynd kallar á að ólíkir hagsmunahópar lækna snúi bökum saman á komandi misseri og standi vörð um faglega hagsmuni og þjónustu við sjúklinga.Þetta vefsvæði byggir á Eplica