06. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Lyflæknar láta ekki kórónuveiruna stoppa sig

24. þing Félags íslenskra lyflækna verður haldið í haust í Hörpu

„Það væri mjög gaman ef það yrði metaðsókn í ár,“ segja þau Gerður Gröndal, yfirlæknir gigtlækninga á Landspítala, og Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á spítalanum, sem undirbúa nú 24. þing Félags íslenskra lyflækna dagana 18.-19. september. Þau halda sínu striki með undirbúninginn þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn og verða með ráðstefnuna í Hörpu.

Davíð O. Arnar hjartalæknir og Gerður Gröndal gigtlæknir við innganginn á gamla Borgarspítalann, Landspítala Fossvogi. Þau eru skipuleggjendur lyflæknaþingsins í haust. Mynd/gag

„Auðvitað rennum við aðeins blint í sjóinn hvað varðar aðsókn á þessum mjög svo sérstöku tímum en framboðið á ráðstefnum er minna vegna COVID-19 faraldursins. Þeim hefur ýmist verið aflýst eða slegið á frest. Við vonum að það ýti enn frekar undir áhugann á þessu þingi.“ Davíð segir að á þriðja hundrað hafi hingað til mætt árlega. „Ég myndi telja að læknar og heilbrigðisstarfsfólk þyrsti í nýjan fróðleik eftir heldur rólega tíð hvað það varðar undanfarið.“

Kórónuveirufaraldurinn, COVID-19, verður í stóru hlutverki á þessari ráðstefnu. „Við skoðum breytilega nálgun mismunandi samfélaga gagnvart honum, afleiðingar, hvaða lærdóm við getum dregið af honum og hvers er að vænta,“ segir Davíð.

„Við erum í raun enn að ganga í gegnum faraldurinn og mjög margt enn óljóst um veiruna. Vonandi verður ýmislegt nýtt og áhugavert komið í ljós í september sem við getum rýnt í og rætt.“

Gerður bendir á að einnig verði fjallað um helstu nýjungar í mismunandi undirsérgreinum lyflækninga á ráðstefnunni. Þá verði meðal annars sérstakt málþing um blæðingar í meltingarvegi þar sem íslenskar rannsóknarniðurstöður verða í öndvegi.

„Heilsueflandi lífsstíll er sífellt að sanna gildi sitt betur og betur og við munum fjalla sérstaklega um jákvæð áhrif þátta eins og hreyfingar, mataræðis, kjörþyngdar og svefns á einstaklinga með langvinna sjúkdóma, suma hverja lífsstílstengda.“

Davíð segir hátt í 15 manns vinna að skipulagningu ráðstefnunnar auk þess sem fyrirtækið Athygli ráðstefnur aðstoði við ýmis skipulagsatriði. Erlendum fyrirlesurum verður boðið og vona þau að það verði ferðafært. „Ef ekki munum við þurfa að endurskoða dagskrána eftir því hvernig ástandinu vindur fram.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica