06. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Dagur í lífi sérnámslæknis á heila- og taugaskurðdeild. Klara Guðmundsdóttir

7:00 Vekjaraklukkan hringir. Morgunmaturinn upp á síðkastið hefur verið Örnujógúrt með rjóma en svengd á skurðstofunni heyrir sögunni til eftir að ég fór að fá mér duglega rjómaslettu í byrjun dags.

7:40 Í bílnum á leiðinni þennan stutta spöl inn í Fossvog hugsa ég (eins og alla aðra morgna) að ég ætti að byrja að hjóla í vinnuna.

7:50 Mætt í vinnu. Fæ rapport frá næturvaktinni en blessunarlega hafði nóttin verið róleg. Fer í vinnufötin og klossana og hugsa hvað ég á gott að mega vinna í svona þægilegum fötum.

8:00 Stofugangur á gjörgæslunni. Við eigum nokkra sjúklinga þar eins og staðan er núna. Samstarfið við starfsfólk gjörgæslunnar er afar gott, einn sjúklingurinn mun flytjast frá gjörgæslunni á legudeildina til okkar í dag og það eru alltaf góðar fréttir.

8:10 Stofugangur á heila- og taugaskurðdeild B6. Það eru fjórir sjúklingar inniliggjandi á okkar vegum sem er minna en venjulega. Þar af eru tveir sjúklingar á hágæslunni en það er millistig milli gjörgæslu og venjulegrar legudeildar sem er inni á B6. Þeir eru að jafna sig eftir aðgerðir á heila og gengur vel.

8:15 Beðið eftir stöðufundi, fæ mér fyrsta kaffibolla dagsins. Sérfræðingarnir hafa frá mörgu skemmtilegu að segja en vinsæl umræðuefni eru Apple, Tesla og Icelandair. Skoðum einnig myndgreiningarrannsóknir af sjúklingum dagsins og gærdagsins.

8:30 Stöðufundur með öllu starfsfólki á B6. Eftir fundinn „flettum við“ en það tekur ekki langan tíma.

8:40 Komin á skurðstofu. Búið er að svæfa fyrri sjúkling dagsins en fjarlægja á góðkynja æxli úr höfði. Ég og Aron sérfræðingur undirbúum ýmislegt, tengjum meðal annars staðsetningarbúnaðinn, rökum hárið yfir skurðinum og merkjum.

14:00 Fyrri aðgerð dagsins búin og gekk vel. Skutlast beint niður á innskrift og innskrifa einn sjúkling. Fæ köku og kaffi hjá hjúkrunarfræðingunum á B3 enda orðin nokkuð svöng.

14:30 Fer upp á gjörgæslu og fæ rapport frá læknunum þar um sjúklinginn sem er að flytjast á legudeildina. Það hafa verið salta- og vökvabrenglanir sem þarf að fylgjast vel með. Lít svo við á legudeildinni og athuga hvernig gengur með sjúklingana, fer yfir blóðprufur og svona eitt og annað.

14:45 Langloka og eplasafi í fernu á deildarlæknaherberginu. Uppáhalds Sóma-langlokan mín er með reyktum laxi, birkifræjum og eggjasalati en maður þarf að tryggja að birkifræin sitji ekki í tönnununum eftir átið.

14:50 Seinni aðgerð dagsins byrjar. Þetta er stutt aðgerð þar sem brjósklos í lendhrygg er fjarlægt. Gengur hratt og örugglega fyrir sig.

15:40 Kíki við á deildinni í lok dags og passa að allt sé í góðum gír fyrir kvöld- og næturvaktina.

16:20 Við Pétur siglum heim á leið. Það er heppilegt að vinna á sama stað og kærastinn. Heima bíður bakpokinn í anddyrinu. Pétur hellir upp á kaffi fyrir mig og ég fæ mér hressingu.

18:00 Mætt á bílastæðið við Akrafjall með vinkonunum. Erum að æfa fyrir Hvannadalshnjúk og skutlumst upp og niður Háahnjúk á 1,5 klukkustund í grenjandi rigningu.

19:45 Fáum okkur frábæran kvöldmat á veitingastaðnum Galito á Akranesi. Ræðum meðal annars matjurtarækt og hvað verði grillað í stelpuferð á Snæfellsnes komandi helgi.

21:30 Komin heim á ný. Heit sturta, les mér aðeins til fyrir aðgerðir morgundagsins og svo einn þáttur af Bonusfamiljen með Pétri. Þessi misserin fara fram stífar sænskuæfingar á heimilinu.

23:30 Skríð undir sæng, smá sudoku í símanum fyrir svefninn enda forfallinn sudokufíkill.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica