06. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Spænska veikin magnaðri en COVID-19, rætt við Gunnar Þór Bjarnason og Jón Ólaf Ísberg um hvort við lærum af sögunni

Læknisfræðin hefur tekið við af trúarbrögðunum og læknar óttast fátt meira en að vita ekki svörin. COVID-19 kristallar óttann við dauðann í nútímasamfélögum og á fátt sameiginlegt með spænsku veikinni sem drap fólk en hreyfði lítið við efnahagnum. Sagnfræðingarnir Gunnar Þór Bjarnason og Jón Ólafur Ísberg settust niður í kaffi með Læknablaðinu.

„Spænska veikin er miklu magnaðri en kórónuveirufaraldurinn. Hún er svo miklu skæðari, það deyja svo miklu fleiri á stuttum tíma,“ segir Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur sem er að ljúka við að skrifa bók um spænsku veikina í miðjum kórónuveirufaraldri. Hann hefur unnið að bókinni í tvö ár.

hlusta

 

Læknablaðið settist niður með Gunnari og Jóni Ólafi Ísberg og fékk þá til að velta sögunni og fræðunum fyrir sér yfir tei og kaffi á Kaffitári í Borgartúni. Umræðuefnið er hvort við lærum af sögunni. Hvort hægt sé að bera saman spænsku veikina og COVID kórónuna. „Engan veginn,“ segir Jón Ólafur en hefur samt samanburð.

„Við lifum í svo allt, allt öðruvísi umhverfi. Allt hreinlæti er annað. Samskipti fólks eru allt öðruvísi.“ Fyrri heimstyrjöldinni var að ljúka á sínum tíma og atvinnulífið fábreytt. Törnin í sveitunum búin og vetrarvertíðin ekki byrjuð. Lifnaðarhættir allt aðrir.

Sagnfræðingarnir Jón Ólafur Ísberg og Gunnar Þór Bjarnason í kaffihúsaspjalli um drepsóttir, efnahagslægðir og virðingu fyrir lífi. Mynd /gag

„Fólk fór ekkert út í búð og keypti tilbúinn mat eins og hægt er í dag. Það er enginn til að búa til mat, eða ná í hann, þegar fólk veikist. Tala nú ekki um ef kona veikist. Nú eru svo margar bjargir ef einhver veikist á heimilum,“ bendir Jón á og nefnir samhjálpina í spænsku veikinni. Fólk hafi ekki getað stólað á velferðarkerfið eins og nú. Sjúkrahús hafi verið ófullkomin og fólk dáið heima hjá sér. Gunnar tekur undir þetta.

„Samhjálpin er mikil 1918. Menn eru háðir henni,“ segir Gunnar. Jón aftur: „Við krefjumst þjónustunnar af ríkinu nú þegar ríkið sér um allt: hjúkrunarheimili, sjúkrahús,“ segir hann. Samhjálpinni hafi verið útvistað til ríkisins.

„Þetta sést í Bandaríkjunum sem hefur lélega innviði. Þar leggja menn til samfélagsins því ríkið gerir það ekki,“ segir Jón.

Jón Ólafur og Gunnar Þór hjóluðu út að Nesstofu og hittu þar fyrir ljósmyndarann, Kristin Ingvarsson. Þarna eru merkilegar slóðir íslenskrar heilbrigðissögu og fátt sem truflar sjónsviðið. Danir byggðu Nesstofu á Seltjarnarnesi sem embættisbústað landlæknis, Bjarna Pálssonar, árið 1763. Húsið er eitt af elstu húsum landsins. Þjóðminjasafnið fékk húsið í sína vörslu árið 1979 og þar hefur verið rekið lækningaminjasafn.

Nú skilur fólk spænsku veikina

Gunnar segir skilning sinn á spænsku veikinni hafa breyst við COVID-19 en telur þó enn frekar að fólk hafi meiri skilning á hugtökum og veruleika þeirra sem lifðu spænsku veikina. Það hjálpi við skrifin á óútkominni bók hans.

„Allt í einu er talað um sóttvarnir og allt sem tengist þeim. Ég hafði mikið velt því fyrir mér hvernig ég ætti að fá fólk til að skilja út á hvað þetta gengur en núna eru allir með þessi hugtök á vörunum alla daga,“ segir hann. „Ég er því ófeimnari við að segja sumt sem ég hélt að væri bæði fjarlægt og leiðinlegt.“ En verður meiri áhugi á spænsku veikinni þegar bókin kemur út vegna kófsins?

„Það eru allir að segja það en ég held að það sé tvíeggjað. Ég vona að það verði mikill áhugi en svo getur líka verið að allir verði komnir með upp í kok af öllu sem tengist veirum í haust.“

En eru þessir faraldrar svo ólíkir? Jón bendir á að læknar noti sömu aðferðirnar í kórónuveirufaraldrinum og við drepsóttir á fyrri tímum. „Sóttkví, sóttkví,“ segir hann. „Þetta er eins og með Krist í eyðimörkinni. 40 dagar í eyðimörkinni. Það er sóttvörn,“ segir hann. „quarantine er komið af latneska töluorðinu quadraginta á latínu, sem þýðir 40. Það er svona svipað og menn gerðu hér. Hundar voru sendir í Hrísey í fjörutíu daga. Þetta er gamla aðferðin, setjum alla í sóttkví. Lokum.“

Engar lokanir ólíkt nú

Gunnar bendir þó á að það hafi ekki verið gert í spænsku veikinni á sínum tíma. „Veikin æðir stjórnlaust um Faxaflóasvæðið og Suðurland en svo þegar fjær dregur borginni og menn fá fréttirnar fara heimamenn; sýslumenn og héraðslæknar að grípa til aðgerða,“ segir hann. „Það voru ennþá bíósýningar, allt þar til fólkið kom ekki lengur í bíó.“

Jón bendir á að landlæknir á tímum spænsku veikinnar hafi verið vanhæfur. Gunnar grípur boltann. „Klár kall samt, skemmtilegur en klikkaði þarna.“ „Karlanginn”, bætir Jón við. „En í grunninn nota menn sömu aðferðina og gert hefur verið í hundruð ára. Þegar bólusóttin kom hingað til lands 1707 hafði hún geisað í Danmörku. Hún var bundin við Kaupmannahöfn því menn pössuðu sig á að hún færi ekki út fyrir borgina. Menn hafa áttað sig lengi á að takmarka ferðir.“

Þessi sótt verði þó kannski til breytinga. „Nú hafa menn svo góða tækni til að fylgjast með því hver smitar hvern, hverjir áhættuhóparnir eru og það kemur í ljós, virðist vera, að veiran skipti svona 80% af fólki ákaflega litlu máli. Fimmtungur er í hættu. Börn virðast sleppa. Þá má spyrja sig hvernig fólk bregst við næsta faraldri?“

Læknar nýju prestarnir

Jón segir læknisfræðina hafa beðið eftir stórum faraldri í 100 ár, allt frá spænsku veikinni. Hann líkir bið lækna við bið Gyðinga eftir Messíasi. Þeir viðurkenni Krist og Múhameð.

„En þeir voru ekki rétti gæinn. Menn bíða enn. Læknavísindin bíða eftir nýjum svarta dauða, spænsku veikinni. Einhverri rosalegri pest,“ segir hann en þeir viti ekki hver hún verður. Hann heldur samlíkingunni áfram.

„Læknavísindin eru búin að leita að svörum og finna svör við öllu síðustu 100 árin. Læknar óttast ekkert meira en að það komi eitthvað sem þeir hafi ekki svör við.“ Þeir óttist að viðurkenna vanmátt sinn, eiga ekki lyf, hafa ekki þekkinguna. „Það er svo afhjúpandi. Það er eins og þegar jarðskjálftinn varð í Lissabon 1755. Hann varð á allraheilagramessu og margir dóu í kirkju. Kirkjurnar hrundu.“ Menn hafi velt því fyrir sér hvers vegna trúin verndaði ekki fólkið. Þeir hafi komist að þeirri niðurstöðu að prestarnir hefðu ekki völdin.

„Læknavísindin hafa að mörgu leyti komið í stað trúarbragða. Læknar óttast því ekkert meira en afhjúpun. Eitthvað sem þeir ráða ekki við,“ segir hann. Gunnar vill hnýta við að fólk hafi kunnað hér áður að verjast. Jafnvel mun betur en nú er. „Það gerist í spænsku veikinni og víðar.“ Fólk hafi varist á sveitabæjum. Það hafi ákveðið að taka ekki á móti gestum á meðan veirur voru á kreiki.“ Hlaupið hafi verið með mat til þeirra sem voru illa haldnir en þeir hafi ekki fengið að koma að bænum.

„Fólk kunni að verjast og þetta var algengt,“ segir hann. „Það var hluti af lífinu að verjast inflúensu, mislingum.“ Hann nefnir líka ráð við bjargarleysi. „Menn áttuðu sig líka á því að það þurfti stundum að fá veikina. Þegar sóttkveikjusameining heimsins byrjar, þegar alvarlegar sóttir verða barnasjúkdómar. Þeir grassera þar; mislingar, hettusótt og fleira. Krakkarnir fá þetta á fyrstu árunum og þá er þetta ekki alvarlegt en verður það fái maður veikina tvítugur og þrítugur.“

Menn hafi því sóst eftir veikinni þegar þeir áttuðu sig á samhenginu. „Ég man eftir því að landlæknir var að skrifa um það í kringum aldamótin 1900 að svo langt sé síðan hingað komu mislingar. Hann var að hugsa um að ná í pestargemling til Kaupmannahafnar og koma með hann.“

Dauðinn fjær fólki en áður

Gunnar nefnir hve dauðinn hafi verið nær fólki í fortíðinni en nú. „Ég tek dæmi af því í minni eigin fjölskyldu að langt fram á 20. öld var fólk að missa börn. Móðuramma mín missir fjögur börn og manninn sinn fyrir fimmtugt. Berklar, mislingar, mænusótt.“

Mynd tekin í Miðbæjarskólanum í spænsku veikinni 1918. Nöfn starfsfólks aftan á mynd: Sigurborg frá Úlfsstöðum; Þuríður Johnsen systir Jóns Johnsen sýslumanns, Eskifirði; Hannes Hannesson málari; Guðrún Daviðs.; Beh. Thorsteins. Skólanum var í snatri breytt í sjúkrahús þegar plágan mikla lagðist yfir bæinn. Birt með leyfi Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafni.

Aðstæðurnar hafi verið öðruvísi. „En á seinni hluta 19. aldar byrjar sigurganga læknavísindanna. Sýklafræðin, bakteríufræðin. Viðhorfin hér 1918 eru öðruvísi en þau eru nokkrum áratugum fyrr.“

Þeir Gunnar og Jón ræða hvernig mislingar lögðu 2000 manns hér á landi af 60 þúsundum um miðja 19. öld. Hér hafi komið upp mislingafaraldur 1882 sem sumir mundu eftir í spænsku veikinni. Um 1400 dóu, miklu fleiri en í spænsku veikinni þar sem um 700 dóu. „Aldrei er minnst á þessa mislingafaraldra í kennslubókum,“ bendir Jón á.

Gunnar segir að í spænsku veikinni hafi fólk hætt að sætta sig við það að hrynja niður. „Það er hætt að reikna með dauðanum.“ Jón tekur undir það. „Margir verða svo hræddir við að deyja að þeir þora ekki að lifa. Menn hætta að líta á dauðann sem eðlilegan hlut. Dauðinn er eðlilegur hlutur. Menn mega ekki verða svo hræddir við dauðann að þeir gleymi að lifa. Það gengur ekki upp.“

Jón nefnir dauðann og efnahagslífið. Hann vísar í COVID-19 og umfjöllun danskra fjölmiðla sem benda á að fleiri deyi úr krabbameini, lungnasjúkdómum, geðveiki, drykkjusýki, „hinu og þessu“ umfram veiruna. „Það er eitthvað sem er viðurkennt: Þú deyrð úr krabba.“ En menn hræðist COVID-19.

„Þetta er eitthvað svo hræðilegt og voðalegt. En í samanburði við aðra sjúkdóma er þetta ekkert svakalegt.“ Hann bendir á óttann við álag á spítalann. „En hvar deyr fólk annars staðar en á spítölum í dag?“ Hann kaupi ekki þessar röksemdafærslur.

Lítil virðing fyrir lífinu

Gunnar nefnir dauða barna sem voru send í sveit um og upp úr miðri 20. öld. Þau hafi farist í dráttarvélaslysum en þrátt fyrir það hafi verið erfitt að koma þeim lögum í gegnum þingið að börn mættu ekki stýra vélunum. Jón nefnir þá danska lækninn Schleisner sem kom til Vestmannaeyja vegna barnadauða fyrir 1900. Nýburar hafi nær allir dáið úr ginklofa.

„Svo skrifar hann skýrslu. Hann segir að það sé eitthvað að í íslensku samfélagi. Menn líti á dauða barna og unglinga sem sjálfsagðan hlut. Menn kunni ekki að meta lífið,“ segir hann. Menn hafi talið þá sem létust veikburða. Viðhorfið hafi loðað við lengi.

Gunnar bendir á að viðhorfið hafi breyst þegar kemur fram á 20. öldina. Læknar hafi barist fyrir betri lýðheilsu. Guðmundur Hannesson hafi breytt borgarskipulaginu. Hann hafi bent á að gluggar þyrftu að snúa í suður svo fólk nyti ljóss. Lýðheilsuviskan hafi farið inn í kvennaskóla.

„Þetta voru kvennaskólar, ekki húsmæðraskólar. Konur læra hreinlæti. Við berjumst á móti sullaveikinni með hreinlæti. Þannig smitast þekkingin út í samfélagið. Fólk verður að búa við almennilegar aðstæður til að losna við sjúkdóma.”

Á tjarnarbakkanum stendur Ólafur Thors (1892-1964) forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins og horfir yfir bæinn, meðal annars á Miðbæjarskólann. Foreldrar hans, Thor Jensen og Margrét Þorbjörg Kristjánsdóttir, opnuðu súpueldhús í spænsku veikinni til að metta þá sem liðu skort og fátækt. Mynd/Védís

Þeir Jón og Gunnar ræða samtakamáttinn sem nú hefur myndast. Hann hafi ekki verið til staðar í spænsku veikinni. Smátt og smátt heyrist þó gagnrýnisraddir. „Eins og hjá Jóni áðan,“ segir Gunnar og hlær.

Já, maður getur gagnrýnt núna,“ segir Jón. „En maður hefði aldrei gert það án þess að vita hvernig þetta myndi ganga.“ Hér hafi enginn sprelligosi úr pólitíkinni sagt „rugl í Tóta“ að hann ætti að gera hlutina öðruvísi. „Við fáum alltaf lukkuriddara þegar kemur krísa. Við fáum trúarleiðtoga eða aðra sem vilja gera hlutina öðruvísi. Þess vegna var mikilvægt nú að allir töluðu einum rómi og allir hlýddu.“

Síðasta drepsóttin ekki komin

Hvernig er að lifa á svona tíma, sögulegum tíma? Gunnar segir að þeir sem upplifðu spænsku veikina hafi skynjað hana mjög sterkt sem sögulega tíma. Menn hafi talað um spænsku veikina svipað og Vestmannaeyingar hafi talað um fyrir og eftir gos.

„Svo kom engin önnur drepsótt, enginn annar inflúensufaraldur og menn fóru að skynja spænsku veikina sem síðustu drepsóttina,“ segir hann. En hvernig skynjum við kófið? „Ég held að þetta sé tími sem við gleymum aldrei. Þótt áhrifin séu ekki sambærileg og þótt hundruð manna hafi hrunið niður í spænsku veikinni, þá eru áhrifin nú miklu meiri. Spænska veikin hafði takmörkuð efnahagsleg áhrif.“ Tímarnir hafi verið erfiðir.

„Spænska veikin kemur, drepur marga, er fljót að því og fer en COVID kemur, drepur fáa og áhrifin gríðarleg,“ segir Gunnar. Jón tekur undir. „Já, ég held að menn muni muna eftir þessari kreppu. Þegar túristinn hvarf rétt eins og þegar síldin hvarf.“

Þórður Thoroddsen læknir (1856-1939) skrifaði grundvallarúttekt á inflúensum og spænsku veikinni sjálfri í Læknablaðið 1919 og var greinin birt í þremur hlutum. Greinin byggist á erindi sem hann flutti hjá Læknafélagi Reykjavíkur 1. janúar 1919. – Lokaorð hans hér að ofan eru í fullu gildi í dag árið 2020 og merkilegt hvað hann sem þríeyki síns tíma hefur glöggt auga og kalt mat á öllum kringumstæðum spænsku veikinnar sem hann hefur við að etja.

Jón telur að menn muni staldra við ef annar vírus skýtur upp kollinum. „Þá munu menn segja: Nei heyrðu Tóti minn. Ekkert svona. Við gerum þetta ekki aftur. OK, það deyja fimm hundruð eða þúsund. OK, en við munum ekki gera þetta svona aftur,“ spáir Jón. „Ég held að menn muni hugsanlega vilja fá að vita meira um sóttina. Er hún svo hættuleg?“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica