06. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Tímamót. Guðrún Ása Björnsdóttir

Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.

Íslenskt heilbrigðiskerfi stendur á tímamótum. Nú þegar mesti COVID-stormurinn er vonandi um garð genginn gefst tími til að meta stöðuna. Þjóðfélagið stendur frammi fyrir vísindalegum og efnahagslegum áskorunum og breyttu landslagi er varðar ferðalög, samskipti og traust. Við vonum það besta en megum ekki gleyma að undirbúa okkur fyrir það versta ef ný bylgja COVID skellur á eða önnur alvarleg farsótt kemur síðar.

Það er þekkt staðreynd að þegar á reynir sýnir fólk sínar réttu hliðar. Annaðhvort vex því ásmegin eða fyrri brestir magnast upp og veikleikarnir verða ráðandi. Það sama má segja um samfélög, stofnanir og stjórnvöld. Í erfiðleikum reynir nefnilega á veikasta hlekkinn.

Heilbrigðiskerfið okkar slapp vel miðað við mörg önnur lönd. Stjórnvöld tóku skynsamlega og upplýsta ákvörðun um að setja fagmenn við stýrið og margt spilaði saman eins og stærð þjóðarinnar, dreifbýli, samtakamáttur og traust.

 

Heilbrigðiskerfið má aldrei verða veikasti hlekkurinn

Allt gekk upp í þessum faraldri og breytingar til hins betra urðu á undraverðum hraða. Heilbrigðisstarfsfólk stóð sig frábærlega og vinnur nú hörðum höndum að því að endurskipuleggja starfsemina í anda þeirra umbóta sem faraldurinn hafði í för með sér. Fjarfundir, sveigjanlegur vinnutími, tæknilausnir og fleira fékk kærkomið brautargengi.

Ólíkar heilbrigðisstéttir unnu samstíga í faraldrinum þar sem borin var virðing fyrir styrkleikum og starfssviði hvers og eins. Sundrung gagnast ekki sjúklingnum og hagsmunabarátta á ekki heima við sjúkrarúmið. Læknar stigu upp sem stjórnendur og sýndu berlega að faglegar ákvarðanir verða að vera í þeirra höndum. Út frá faglegum ákvörðunum þarf allt annað að raðast, til dæmis hvað varðar húsnæði, vinnulag, mönnun, tæki, lyfjainnkaup og svo má lengi telja. Um þetta gilda sömu rök og þegar stjórnvöld létu hið faglega þríeyki stýra stefnu landsins og virðast flestir sammála um hve skynsamlegt og heillavænlegt það var.

 

Hættum að byggja múra

Regluverk á ekki að vera íþyngjandi. Gott regluverk útlistar öryggiskröfur og ábyrgð en leyfir síðan einstaklingum að njóta sín innan þess ramma. Stjórnendur eiga að vera valdeflandi en ekki hindrandi. Í íslensku heilbrigðiskerfi er alltof mikið af heimatilbúnum óþarfa hindrunum. Oftar en ekki byggja þær á óljósum hefðum, gömlum mítum, óöryggi einstaklinga eða hópa sem eiga þröngra hagsmuna að gæta. Þetta hindrar eðlilega framþróun og málefnalegar breytingar. Galdrarnir gerast þegar múrarnir falla.

Gott dæmi um það eru sérnámslæknar. Þeir stóðu í ströngu við skipulagningu COVID-göngudeildar Landspítala og sinntu COVID-sjúklingum og öðrum sjúklingum víðs vegar um heilbrigðiskerfið. Sérnámslæknar eru nefnilega ekki nemar í venjulegum skilningi þess orðs. Sérnám er fallegt íslenskt orð en líka villandi þegar því er blandað inn í starfsheiti. Sérnámslæknar eru læknar. Fullorðið fólk með fullgilt lækningaleyfi, lífsreynslu, fjölskyldu og oft umtalsverða starfsreynslu. Læknar framlínunnar og læknar framtíðarinnar.

Ýmsir innan heilbrigðiskerfisins átta sig ekki á því hvað fólgið er í störfum sérnámslækna og vilja setja þá niður til að geta ráðskast með þá og oft snuðað þá um kaup, kjör og réttindi. Undanfarin ár hefur þó orðið mikil hugarfarsbreyting með auknu sérnámi í landinu. Fleiri sérnámslæknar eru á landinu og láta þeir svo sannarlega til sín taka. Þeir sem að málaflokknum standa í dag eru flestir með réttláta og metnaðarfulla framtíðarsýn er varðar þessa verðandi sérfræðinga.

 

Framtíð Félags almennra lækna

Félag almennra lækna (FAL) hefur barist fyrir réttindum og hagsmunum almennra lækna árum saman. Það hefur gengið vel með sérnámslækna undanfarin ár þó enn sé margt ógert. Því miður eru ýmis málefni tengd kandídötum, erlendum almennum læknum og læknanemum í ólestri. Misrétti og slæm framkoma er alltof algeng gagnvart félagsmönnum FAL og tengdum hagsmunahópum. Þetta þarf að breytast og vonandi þarf ekki heimsfaraldra til. Saman þurfum við að halda áfram að ryðja úr vegi heimatilbúnum hindrunum og byggja brýr fyrir almenna lækna.

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica