06. tbl. 106. árg. 2020

Ritstjórnargrein

Um efnahag og farsóttir. Gylfi Zoëga

Gylfi Zoëga Prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands doktor í hagfræði

10.17992/lbl.2020.06.584

Á undanförnum mánuðum hefur farsóttin COVID-19 haft mikil áhrif á efnahag landsins. Viðbrögð við faraldrinum eru ákvörðuð af sóttvarnalækni og beinast að því að milda faraldurinn en viðbrögðin hafa jafnframt umtalsverð hagfræðileg áhrif. Hagrænu áhrifin skipta máli vegna þess að þau koma fram í lífskjörum þjóðarinnar í nútíð og framtíð og einnig möguleikum á bættu heilbrigðiskerfi í framtíðinni.

Lykillinn að því að hægja á farsótt er að takmarka samneyti fólks. Þannig hefur fólk neikvæð „ytri áhrif“ hvert á annað í farsótt. En samneyti fólks er mikilvægt fyrir alla efnahagsstarfsemi. Þjónusta felur yfirleitt í sér samneyti fólks en þjónustugreinarnar hafa orðið fyrir miklu höggi í farsóttinni. Tekist hefur að komast fyrir farsóttina hér á landi og hún er í rénun í mörgum öðrum löndum en samdráttur efnahagslífsins hér á landi vegna farsóttarinnar er nú sá mesti síðan árið 1920. Landsframleiðsla mun minnka um 8% á þessu ári og atvinnuleysi er komið í 17,8% ef fólk á hlutabótum er tekið með. Í Bandaríkjunum eru 33 milljónir nú án atvinnu í mestu kreppu sem orðið hefur frá fjórða áratug síðustu aldar.

Við ákvarðanir um sóttvarnir togast á annars vegar viðleitni til þess að fækka smitum og hins vegar löngunin til þess að valda ekki óþarflega miklum efnahagslegum skaða.1 Í öðrum ríkjum, til dæmis Bandaríkjunum, hefur þessi togstreita valdið því að byrjað er að slaka á sóttvörnum þótt ekki sjái fyrir endann á farsóttinni. Þá eru heilbrigðissjónarmið sett til hliðar vegna þess að hin efnahagslega fórn er talin vera of mikil.

Vegna góðs árangurs heilbrigðisyfirvalda hér á landi er staða Íslands allt önnur. Smit eru að mestu hætt að greinast og þjóðfélagið að færast í eðlilegt horf. Þannig er hægt að slaka á sóttvörnum og efla efnahag landsins án þess að stefna heilsu fólks í hættu. Þetta er öfundsverð staða. Það skiptir miklu máli fyrir efnahaginn að fólk geti mætt til vinnu, sótt sér ýmiss konar þjónustu, að skólastarf geti farið fram og sjómenn farið óhræddir til veiða. Þessi góði árangur skapar forsendur fyrir viðsnúningi í efnahagsmálum. Hagstjórn örvar þá innlenda eftirspurn með lágum vöxtum og aukningu ríkisútgjalda og Íslendingar munu væntanlega ferðast innan lands sem aldrei fyrr nú í sumar. Hagkerfið mun smám saman ná sér á strik svo lengi sem nýr faraldur verður ekki á haustmánuðum.

Ýmsir kalla á að landið verði „opnað“ að nýju nú í sumar, að erlendir ferðamenn komi sem fyrst til þess að bæta efnahag ferðaþjónustu og Íslendingar fái að fara til útlanda án þess að fara í sóttkví þegar heim er komið. Þótt gott sé að fá viðbótargjaldeyristekjur skapa slík ferðalög hættu á nýjum faraldri. Ferðalögin koma þeim vel sem þjóna erlendum ferðamönnum og íslenskir ferðamenn munu njóta utanlandsferða sinna en þessir aðilar geta mögulega spillt fyrir öðrum, í versta falli orðið til þess að slæmur faraldur verði í haust, sem mundi lama hagkerfið að nýju.

Það skiptir þá höfuðmáli hvort unnt sé að „opna“ landið en jafnframt að koma í veg fyrir að farsóttin berist til landsins. Þótt einhverjir ferðamenn komi í kjölfar slíkrar opnunar er ólíklegt að þeir verði nægilega margir á næstunni til þess að skipta sköpum fyrir þróun efnahagsmála. En ný bylgja farsóttar á haustmánuðum myndi valda miklu tjóni fyrir atvinnulíf og efnahag landsins.

Nú er lag að fjárfesta í bættum þjóðvegum og endurbótum á þeim stöðum sem ferðamenn sækja, svo ekki sé talað um þá heilbrigðisþjónustu sem mest hefur mætt á í farsóttinni nú í vor. Ef bóluefni finnst er hægt að opna landið að fullu en ef ekki, þá vinnst tími fyrir læknastéttina að læra meira um hinn nýja sjúkdóm áður en hin óumflýjanlega bylgja farsóttar gengur yfir að nýju.

Heimild

1. Gourinchas PO. „Flattening the pandemic and recession curves,“ VoxEU. voxeu.org/content/mitigating-covid-economic-crisis-act-fast-and-do-whatever-it-takes - maí 2020.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica