06. tbl. 106. árg. 2020

Ritstjórnargrein

COVID-19: Snerpa, samvinna og samstaða. Alma D. Möller

Alma D. Möller svæfinga- og gjörgæslulæknir‚ landlæknir

doi: 10.17792/lbl.2020.06.583

Markviss undirbúningur fyrir hugsanlegan faraldur nýrrar kórónuveiru hófst í janúar. Sú vinna byggði á viðbragðsáætlunum sem unnar hafa verið á liðnum árum ásamt lögum um sóttvarnir og lögum um almannavarnir. Miklu hefur skipt að skýr lög og ferlar voru til staðar sem og frábært starf og samvinna sóttvarnalæknis, heilbrigðisráðherra, almannavarna og í raun allra aðila.

Litið um öxl

Snemma varð ljóst að faraldurinn gæti orðið alvarlegur. Það markmið var sett að vernda nauðsynlega innviði samfélagsins, ekki síst heilbrigðiskerfið. Þar voru lykilatriði að „fletja kúrfuna“, tryggja nauðsynlegan hlífðarbúnað og önnur aðföng, undirbúa sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir sem og stofnun bakvarðasveita heilbrigðisstarfsmanna. Mikil samstaða var um að slá skjaldborg um aldraða og viðkvæma hópa sem og beitingu einstaklingsbundinna sóttvarnaráðstafana.

Vel tókst að ná markmiðum en það byggði á víðtækri samvinnu viðbragðsaðila og samstöðu þjóðarinnar. Þar skipti nákvæm og hreinskiptin upplýsingamiðlun miklu. Snemma hófst útgáfa leiðbeininga á landlaeknir.is , vefurinn covid.is var opnaður og daglegir upplýsingafundir haldnir þar sem allt var uppi á borðum. Það tókst að greina og einangra smit snemma. Smitrakning í samvinnu heilbrigðisstarfsfólks og lögreglu er verkefni sem eftir hefur verið tekið sem og notkun smitrakningarapps. Með þessum aðgerðum náðist sá undraverði árangur að 57% smita greindust hjá einstaklingum sem þegar voru í sóttkví. Þá var samstarf við Íslenska erfðagreiningu ómetanlegt og niðurstöður skimunar mikilvægar fyrir ákvarðanatöku.

Faraldurinn byrjaði bratt hérlendis og stefndi í það alvarlegan faraldur að fólki leist ekki á blikuna. Grípa þurfti til samfélagslegra aðgerða en að mati höfundar voru ráðstafanir heilbrigðisráðherra, skv. ráðleggingum sóttvarnalæknis, hófstilltar og vel tímasettar. Flestar þjóðir hafa gripið til mun umfangsmeiri aðgerða og víða býr fólk enn við verulega skerðingu á frelsi. Kapp var lagt á að undirbúa heilbrigðiskerfið, einkum Landspítala, fyrir alvarlegar sviðsmyndir og skipti spálíkan vísindamanna miklu. Þá var stofnun COVID-19-göngudeildar Landspítala gæfuspor sem án efa minnkaði þörf fyrir innlagnir og gjörgæslumeðferð. Ánægjulegt er að heildardánartíðni þessar vikur var ekki aukin og virðist sem heilbrigðiskerfið allt, frá heilsugæslu til gjörgæslu, hafi staðist þetta álagspróf.

Margt lagðist á eitt til að góður árangur næðist. Samfélagið er nægjanlega lítið til þess að boðleiðir séu stuttar og því hægt að bregðast snarpt við auk þess sem gerlegt er að halda yfirsýn og tímasetja aðgerðir. Á hinn bóginn er samfélagið það stórt að hægt er að veita framúrskarandi heilbrigðisþjónustu. Þá skiptir að líkindum máli dreifbýli og þrautseigja þjóðar sem býr við óblíða náttúru.

Áfram veginn

Michael Ryan, sérfræðingur Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, telur að þegar alvarlegur faraldur vofir yfir sé mikilvægast að bregðast hratt við; stöðva útbreiðslu með samvinnu við samfélagið allt. Ef menn hiki sé baráttan fyrirfram töpuð.* Því miður sýna dæmi frá mörgum löndum að menn hafa brugðist seint við og faraldur geisar enn.

Í ritandi stund er markvisst unnið að afnámi þeirra takmarkana sem settar voru hérlendis auk þess sem ríkisstjórnin hefur tilkynnt afléttingu ferðatakmarkana þótt áhættumat og útfærsla þess flókna verkefnis liggi ekki fyrir. Augljóst er mikilvægi þess að koma efnahagslífi þjóðarinnar á réttan kjöl, það er einnig lýðheilsumál. Íslenskt samfélag verður að sýna kjark eins og fólginn er í afléttingu takmarkana en samtímis að viðhafa ítrustu varkárni. Læra þarf að feta það einstigi að koma lífi landsmanna og efnahagslífi í eðlilegra horf samfara því að spornað er gegn frekari smitum eins og frekast er unnt. Nú er til staðar dýrmæt þekking og reynsla til að mæta frekari smitum þar til bóluefni, hjarðónæmi er fengið eða meðferð liggur fyrir.

Framundan eru krefjandi verkefni, meðal annars að viðhalda árvekni landsmanna og viðbragði heilbrigðiskerfisins vegna COVID-19. Mikilvægt er að öðlast vitneskju um mótefnasvar þjóðarinnar. Þá þarf að rannsaka áhrif sóttvarnaráðstafana á hagkerfið og samfélagið í heild, meðal annars lýðheilsu. Þegar litið er til alþjóðasamfélagsins er mikilvægt að þjóðir miðli upplýsingum um faraldurinn og sjúkdóminn. Þar getum við Íslendingar upplýst um notkun viðbragðsáætlana, smitrakningu, skimun, spálíkan og COVID-göngudeild. Þá er brýnt að viðbrögð þjóða verði rýnd og einnig skoðað hvernig þjóðir geti betur hjálpast að þar eð faraldrinum vindur fram um lönd á mismunandi tímum. Ljóst er að stórefla þarf rannsóknir á veirusjúkdómum. Vonandi ber svo heimurinn gæfu til að endurmeta gildi og verðmæti ásamt því að fletja kolefnislosunarkúrfuna þannig að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, meðal annars um heilbrigði og vellíðan fyrir alla, verði náð.

*Alþjóðaheilbrigðisstofnunin. COVID-19. Blaðamannafundur 13. mars 2020. who.int/docs/default-source/coronaviruse/transcripts/who-transcript-emergencies-coronavirus-press-conference-full-13mar2020848c48d2065143bd8d07a1647c863d6b.pdf?sfvrsn=23dd0b04_2Þetta vefsvæði byggir á Eplica